Færsluflokkur: Bloggar

Hvað varð um Giddagúdd?

Orðið sjálft framkallar samstundis minningar af Giddagúdd, ímyndaðri vinkonu sem ég eignaðist þegar ég var þriggja ára. Guðlegri veru sem hikaði ekki við að beita andlegum hártogunum, þegar skoðanir okkar voru á öndverðum meiði.

Ég minnist þess að hafa deilt um leikferðir út í bakgarð við Giddagúdd og óttast nærveru Kuldabola, sem var jafn raunverulegur fyrir mér og amma hans, sem í mínum huga, var sjálfur holdgervingur djöfulsins.

"Passaðu mig, Giddagúdd" var ég vön að öskra barnarómi þegar amma hans kom nálægt.

Kuldaboli var gjarna illviljaður og reyndi stundum að bíta í nefið á mér. Þar sem allar verurnar voru ímyndaðar, hlaut nefið á mér að sjálfsögðu engar skrámur. Það er mjög erfitt að bíta í eigið nef.

Engu að síður deildum við um nauðsynjar lands og þjóðar. Giddagúdd tók yfirleitt afstöðu með mér á endanum, Kuldaboli reyndi allt sem hann gat til að eyðileggja áætlanir okkar og amma hans, tjah, hún lúrði yfirleitt í bakgrunni og hló viðstöðulaust ef ég missti dúkkuna mína í gólfið.

"Hættu þessu!" æpti ég þá ákveðin upp og fyllti með því, móður mína skelfingu.

"Hver er hjá þér, Klara mín?" heyrði ég stundum úr hinu herberginu.

"Enginn" svaraði ég óttasleginni móður minni og hélt áfram að tala í fjölbreytilegum blæbrigðum.

Ég man ekki hvenær Giddagúdd dó. Sennilegast um það leyti sem ég byrjaði í skóla. Bekkjarsystkyni mín hefðu aldrei sýnt ímynduðum vinum mínum skilning, né borið virðingu fyrir tilvist þeirra. "En það er enginn þarna, Klara" hefðu þau bara sagt og hlegið að mér.

Um það leyti sem ég hóf skólagöngu mína, lærði ég þar af leiðandi að hugsa í hljóði.

Þar sem ég sit hér við borðstofuborðið, íklædd appelsínugulum inniskóm með úfið hár (ég á ekki greiðu) rifjast ævintýri sjálfrar mín óðum upp. Áfengislagafrumvarpið ýtti við mér. Eru til ímyndaðir vinir? Var ég skyggn þegar ég var lítil? Var amma hans Kuldabola illur andi sem ofsótti mig á Snorrabrautinni? Giddagúdd verndarengill sem gætti mín og ég talaði fyrir í gæsku minni? Hver var Kuldaboli? Snarpur norðanvindur eða villuráfandi sál? Var ég geðveik sem barn?

Um hvað, raunverulega, snerist ljóðrænn harmur minn þegar ég var lítil?

Ég hef afskaplega gaman að rökræðum. Sér í lagi þeim sem fela í sér algengar rökvillur, (að vísu er ég búin að týna kaffibollanum) og dáist að tærum grundvallarlögmálum siðfræðinnar. Ég beiti þeim óspart í samtölum við sjálfa mig og rífst gjarna yfir kaffibolla hér á blogginu, en þá einungis við eigið sjálf. Fyrir kemur að ég fletti upp í bókinni "Siðfræði lífs og dauða" sem skrásett var af Vilhjálmi Árnasyni, en ritið hefur yljað mér ófáar andvökunætur og jafnvel hindrað heilbrigðan nætursvefn.

Maðurinn er nátturulega ekkert annað en poppstjarna í heimi siðfræðinnar.

Ég hef einu sinni talað við hann í síma.

Með hvaða hætti skyldi efla atvinnumöguleika á landsbyggðinni? Hvað finnst mér raunverulega um hugmyndir Samfylkingarinnar sem fela í sér "Störf án staðsetningar?" Eiga allar skoðanir jafnan rétt á sér? Myndi nauðgunum fækka ef melluhverfi yrði sett upp í Norðurmýrinni? Af hverju er ég með svona háar tekjur? Er ég frekari en annað fólk? Eru Sjálfstæðismenn góðu gæjarnir? Hvers vegna verða menn hommar? Hefur Jón Valur rétt fyrir sér? Af hverju er Páll Skúlason svona frægur og hvað eru bækurnar hans að gera heima hjá mér?

*seiðandi fingursmellir*

Ó, þú fagra veröld.

Þess ber að geta að ég hafði ekki hugrekki til að bera fyrrgreindar spurningar undir Vilhjálm þegar við ræddum stuttlega þýðingar á erlendum sjálfshjálparritum og þann möguleika að óska aðstoðar fræðimanna Háskóla Íslands.  

Hvað varð eiginlega um Giddagúdd? 


Sérðu mun?

Stúlkur mínar, ekki einungis er ég djúpt snortin vegna hluttekningar ykkar og áhuga á atkvæði mínu í komandi kosningum; ég er stolt af eldmóði ykkar allra. Svo einlægan áhuga á þjóðmálum hef ég ekki borið augum í hópi kvenna áður, nema ef undanskilin eru eldhússamsæti stjúpu minnar sem hefur allar götur verið svarinn kommúnisti.

Áður en ég loka umræðu kvöldsins og klykki út með atkvæði mínu langar mig að fara með örlítið ljóð fyrir ykkur, sem samið var af þeim mæta manni Böðvari frá Hnífsdal en hann komst svo að orði:

 

Sérðu mun?  

Sé ég tvo að sauðarekstri,

sínum hópnum hvor þar stjórnar.

Mörg er kindin væn á velli

valingóð til sláturfórnar.

 

Annar rekur hóp með hundum,

hamast við af öllum mætti.

Féð það veit, að hann er herra.

Harkan skín úr hverjum drætti.

 

Hinn við féð sitt gerir gælur.

Gæzkan skín úr svip og orðum.

Féð það eltir undurhrifið,

alla leið að sláturborðum.

 

Svona hvor með sínum hætti,

sauðum slátra og verða ríkir.

Svei mér, ef ég sé þá muninn,

sýnist báðir harla ríkir.

 

Þess má að lokum geta að ég er flokksbundin Vinstri Grænum og tók þá skýru afstöðu í síðustu kosningum. Ég hef einu sinni tekið viðtal við Steingrím fyrir helgarútgáfu Fréttablaðsins í öðru samhengi en pólitísku og verð að segja manninn einn þann stöðugasta viðmælanda sem ég hef rætt við á öllum ferli mínum. Guði sé lof að sala á léttvíni verður ekki leyfð í matvöruverslunum, því ég á barn, sjáið til.

 

 


Hafa skal það sem hljómar betur

"Hvað ætlar þú að kjósa?" er spurningin sem ég þarf brátt að svara. "Alls ekki Framsóknarflokkinn" ætla ég að segja. Aldeilis að ég muni svara þannig og glotta í kampinn. Fyrirtaks umræðuefni í reykpásunni. Kannski ég smelli í góm og segi eitthvað gáfulegt í kjölfarið, vitni jafnvel í blogg ókunnra manna og minnist þess þegar ég rakst á setninguna "Steingrímur J er orðinn eitthvað svo landsföðurlegur" og ég veit að með því, mun ég falla í hópinn.

Framkalla kurteisisleg hlátrasköll sem enda á viðeigandi tímapunkti og hlýt samþykkishljóm að launum.

"Annars kemur náttúrulega ekki til greina að kjósa menn sem leyfa vændi" er lína sem ég get notað. Með því hef ég útilokað Sjálfstæðisflokkinn og einhvern veginn grunar mig að vinnufélagar mínir kími við, þegar ég vitna í Björn Bjarna. Ég get jafnvel reynt að vera gáfuleg með því að setja "já, já, svo á ríkissjóður auðvitað ekki að bera neinn kostnað af þessari lagabreytingu, það var nú aldeilis". Þá grunar mig að fæstir viti um hvað málið snýst, ég lít því út fyrir að vera innsti koppur í búri stjórnmála með því einu að endurtaka valdar setningar og á endanum verður fólk farið að leggja veigamikil mál undir mig, sem veit ekki hverju ég á að svara. 

"Af hverju ekki Framsóknarmenn?" gæti einhver spurt og ég svarað "af því að þetta eru fávitar", skotið sígarettunni hnitmiðað þremur metrum út á gangstéttina, brosað óræð á svip og gripið þéttingsfast um kaffibollann, rétt áður en ég skýst inn aftur.

"Verð að fara. Aftur að vinna. Hef ekki tíma til að svara þessu. Seinna."

Klassísk undankomuleið.

Ég veit hvers ætlast er til af mér. Og hversu langt ég þarf að teygja mig til að komast örlítið lengra. Kann að koma fyrir mig orði. Hvort ég svo veit raunverulega meira en næsti maður um stefnuskrá einstakra stjórnmálaflokka eða um íslensku stjórnarskránna yfir höfuð, er allt annar handleggur. En ég reyni. Mér verður að takast.  

Ég ætla að vera ein í kjörklefanum Bandit


Áhættuleikarar handteknir í Hollywood hæðum

Þeir eru búnir að fletta ofan af tæknibrellunum.

Þetta er búið, krakkar.


mbl.is Umræða um loftslagsbreytingar of mikið í anda Hollywood?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tár og tuðruskór

Um leið og ég ber fram auðmjúkar þakkir til handa þeim 903 einstaklingum er heimsótt hafa bloggsíðu mína frá miðnætti, langar mig um leið að nota tækifærið til að hvetja almenning um land allt til að halda iðju þessari áfram, þar sem ég stefni ótrauð á gróteska hallarbyltingu innan tíðar.

Ég hef unnið hörðum höndum að auglýsingu vefsíðu minnar; dreift miðum til vandamanna, nýtt smáskilaboð til hins ítrasta auk þess er ég mútaði nokkrum lögreglumönnum sem áttu leið hjá Hverfisgötu í gær.

Erindi mitt hefur borið erindi sem erfiði, ég hef á fáeinum dögum aflað fleiri fylgismanna en meistaraflokkur karla í Grindavík, nýt meiri vinsælda en Þjóðleikhúsið og skákaði rétt í þessu umferðarþunga um Vestfirði.

Þess má geta að ég grét hljóðlega við ritun þessarar færslu.

Guð blessi ykkur, börnin mín.

 


Hvað gera bændur nú?

Synd að stúlkurnar sátu ekki á strák sínum þar til lagabreytingin var um garð gengin.   

Svíar hefðu aldrei látið snúa svona glatt á sig.


mbl.is Grunur um að erlendar vændiskonur hafi starfað í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slóttugar hugrenningar piparjúnku

"It requires a very unusual mind to undertake the analysis of the obvious."

A. N. Whitehead

Ég móttek í sífellu hálfgerð hótunarbréf frá honum Christian Carter. Hann heldur úti vefsíðu um þá klæki sem konum er nauðsynlegt að ástunda, ætli þær nokkru sinni að krækja í karlmann og uppskera sokkaþvott á sunnudagskvöldum að launum.

Ég er svolítið hrædd við þennan mann, en þó ekki nánda nærri því eins skelkuð og þegar ég les subject línurnar hans í pósthólfinu mínu.

"How women scare their soulmate away" stóð í bréfi frá honum sem ég móttók í síðustu viku. Lömuð af ótta við að glata væntanlegum lífsförunaut lokaði ég samstundis augunum, bar fram einlæga ósk í hljóði og opnaði svo dýrðina.  

"If you have finally met Mr. Right, would he end up falling in love with you and want to STAY?"

Ég geri samstundis ráð fyrir því.

"Or would he leave once he got close to you?" heldur Christian Carter áfram.

Kalt vatn milli skinns og hörunds. Af hverju hefur spurningin aldrei hvarflað að mér? 

"If you arent 100% certain about how you´ll make the right man feel when he comes in to your life ..." staðhæfir Christian mjúkmáll "or you´ve allready had the right man come into your life and then leave, then you need to read this special letter I´ve written for you right now:"

Undir þessum orðum er slóð á vefsíðu, sem væntanlega inniheldur umrætt bréf sem Christian hefur í fullri einlægni eflaust skrifað til mín. Ég þori ekki að opna bréfið. Hvað stendur í því? Bíða mín kynni við einhvern ofurfola sem veður í konum af öllum gerðum? Mun honum leiðast einlægt atferli mitt þegar á hólminn er komið? Er mér nauðsynlegt að beita klækjum til að öðlast þann eftirsótta rétt að mega gera honum ýsu í soðið á sunnudögum?

Ringluð á svip loka ég bréfinu og ákveð að geyma þessar hugleiðingar að sinni. Fletti áfram gegnum subject línur og rek augun í stjörnuspánna mína.

"Picses: Do whatever is required of you" staðhæfir setning dagsins.

Fate has spoken. Ekki einungis fyllist ég staðfestu, heldur ákveð ég að kryfja málið til mergjar. Halla mér aftur í stólnum og lygni kvenlega aftur augunum, svona eins og til að æfa mig í kynþokka. Ég ætla að hegða mér eins og sönn kona. Umyrðalaust ætla ég að ljúga að karlmanni sem mér þykir álitlegur og fyrir alla muni, alls ekki sýna mig utandyra án þess að hafa áður sett á mig farða.

Mér þykir deginum ljósara að ég muni eiga við ramman reip að draga.  

Undanfarna daga hef ég því flett upp hinum margvíslegustu leitarorðum er geta átt við hegðunaratferli það er herra Carter vitnar viðstöðulaust í. Og viti menn, Á Vísindavefnum er nefnilega að finna grein um keimlíka hegðun og þá sem Christian segir ofurfolum heimsbyggðarinnar eðlislægt að ástunda.  

Þar kryfur hún Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsfræði, kynhegðun væntanlegs elskhuga míns til mergjar og flettir ofan af þeirri staðreynd að sennilega er karlmaður drauma minna að takast á við jaðarpersónuleikaröskun.

Væntanlegur draumaprins veður því ekki einungis í konum, heldur er án alls efa óstöðugur; á erfitt með að sýna tryggð og heilindi og forðast því náin kynni eins og heitan eldinn. Hann skiptir stöðugt um vini og vinkonur og því þarf ég á öllum mínum klókindum að halda, eigi ég að ná í skottið á honum um helgar.

Sjúkkit, maður að ég skuli hafa hlustað á stjörnuspánna.

Errm 

 


Indverska þjóðin aldrei söm

Og skyldi nú engan undra.

Brennum landsliðstreyjur, segi ég! Crying


mbl.is Indverskir krikket-aðdáendur ævareiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ðats it

Mikið hafa umræður verið líflegar á Alþingi í dag. Skammt stórra högga á milli og ólíkir málaflokkar afgreiddir. Þingmönnum hlýtur til að mynda að vera mikið í mun að jafna út launamun kynjanna þar sem vændi hefur loks verið lögleitt á Íslandi.

 

Og þessu skellir Morgunblaðið fram í einni klausu, eins konar upptalningu á þeim frumvörpum sem afgreidd voru í dag. Alveg rétt enda, við skulum endilega ekkert vera að vesenast neitt þó þingmönnum hafi loks tekist að koma á fót rauðum hverfum í Reykjavík.

 

"Þá verður samræðisaldur færður úr fjórtán í fimmtán ár og vændi til framfærslu hættir að vera ólöglegt. Þá hefur verið fallið frá ákvæðum í vegalögum..."

 

Um leið og ég óska þolendum kynferðisafbrota innilega til hamingju með langþráðan sigur í baráttu sinni við löggjafavaldið, lýsi ég stóreyg aftur á móti því yfir að ég skil ekki þá þráhyggju Alþingismanna að vilja lögleiða vændi á Íslandi.

 

Hverjum er þessi lögleiðing eiginlega til hagsbóta?


mbl.is Fyrningarfrestur á kynferðisafbrotum gegn börnum afnuminn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvunndagshetjur

Ég er hjartanlega sammála henni Beggu Lopez, sem þykir þjóðfélagið uppfullt af óþarfa tuði. Bloggið hennar í dag framkallaði gamlar og fremur skoplegar endurminningar af sjálfri mér, þegar ég tók æðiskast á opinberum starfsmönnum í Góða Hirðinum því blái sófinn féll í hendur annarra kaupanda. Baðst svo afsökunar (tilneydd) daginn eftir.

Orðlaus yfir skarpskyggni Heiðu, sem horfir (með flugbeittu augnaráði) beint í gegnum kaldrifjaða markaðshyggju þjóðfélagsins og auknum kaupmætti sem skilar sér beint í vasa kaupmanna vegna öflugra auglýsingaherferða. Ég ætla ekki heldur að eyða peningum í sparnað hjá Landsbankanum. Er með sparireikning sem ég tæmi samviskusamlega um hver mánaðarmót.

Langar alveg óskaplega í töfragleraugu eins og hún Gurrý mín talaði um í dag. Afskaplega yrði vinnudagurinn ánægjulegur ef ég gæti fengið mér blund af og til. Akranes hljómar eins og sneið af himnaríki í frásögnum Gurrýar og ef rútuferðir eru jafn spennandi og hún talar fjálglega um, ætla ég sko beint á BSÍ strax í kvöld.

Og talandi um landsbyggðina.´

Frásögn Birnu Mjallar af framkomu lækna á landsbyggðinni í garð aldraðrar móður hennar hryggir mig ósegjanlega og ég vona heitt og innilega að hún safni kjarki til að leggja fram formlega kvörtun til Landlæknisembættisins. Ég er hreint út sagt öskureið yfir þessari framkomu.

Þá er það ég.

Ennþá gjörsamlega miður mín vegna úrsagnar Íslands úr Skandinavíu. Staðráðin í að halda áfram að blogga. Þetta litla samfélag er mér nefnilega mikils virði. Nýfundnar bloggvinkonur mínar dýrmætar og orðin þeirra ómetanleg viðbót við annars ágætan hversdag. God speed stelpur mínar, you all make my day. (Uh, eða guðs hraði, þið farðið allar daginn minn eins og það útleggst á íslensku. Ég þarf yfirleitt að hafa orðabók við höndina eh til að útskýra svona máltæki.)

Var ég búin að segja ykkur að ég er skotin í strák?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband