Færsluflokkur: Bloggar

Come with me if you want to live! NOW, SOLDIER!

Sarah Jeanette Connor, kvenhetjan í framhaldsflokknum The Terminator (1984) fær talsvert meira svigrúm til vaxtar og þroska, öfugt við Ripley sem sprettur fram sem fullnuma hörkutól og Joan Crawford þar á undan, sem í eðli sínu er einlæglega vond og á aldrei nokkra möguleika á uppreisn æru.

terminator-2-linda-hamilton

Terminator 2: Judgement Day (1991) - IMDb http://www.imdb.com/title/tt0103064/

Sarah er í upphafi brothætt stúlkugrey sem kemst í kast við lögin, verður þunguð og leggur á flótta undan réttvísinni (The Terminator, 1984). Hún tekur út harðgeran þroska í varðhaldi, þá sem forræðislaus móðir (Terminator 2: Judgement Day 1991) sem hefur gernýtt vistina til að byggja upp ósigrandi hæfni til að halda höfði í hörðum bardaga.

Í persónusköpun Söruh endurspeglast þau fræði að góðar mæður búi líka yfir hörku; enginn vafi leikur á því að Sarah svífst einskis til að halda verndarhendi yfir eigin syni. 

Linda Hamilton, í hlutverki Söruh, túlkar hugarheim og viðbrögð konu sem leggur lífið að veði til að halda hlífiskildi yfir framtíðarhorfum sonar síns, þó hetjudáðir hennar sjálfrar reyni á hennar ítrustu þolmörk en um leið er persónu Söruh ætlað að túlka persónuþroska, þrautseigju og móðurlegan styrk. Hér skiptir máli að ekkert er móður sem elskar eigið barn ógerlegt; móðurástin heldur Söruh á lífi. 


***Pistill þessi byggir á lokaritgerð minni í íslenskuáfanganum Kvikmyndafræði sem kennd var á haustönn árið 2016 við Verkmenntaskólann á Akureyri. Ég var búsett rétt utan við höfuðborg Norðmanna, Oslóar, þegar ég tók áfangann til stúdentsprófs á fjarnámsvef skólans og hló ég, gapti og grét fyrir framan þvældan fartölvuskjá meðan á verkefnaskilum stóð.

picture1 (1)

Umfjöllun þessi er hluti ritrraðar sem fjallar um rannsóknarefnið sjálft, en í lokaverkefni mínu fjallaði ég um distópíska túlkun kvikmyndageirans á undarlegu háttalagi einstæðra mæðra í bandarískum bíómyndum.

„You took my boy away from me!“ Joyce Byers.

„Don´t f*** with me fellas. This ain´t my first ride at the rodeo.“ Joan Crawford.

"My mommy always said there were no monsters. No real ones. But there are." Ellen Louis Ripley

Margt lærir maður í menntaskóla og fjarnámsáfangar geta verið frábærir.

 

Yfirlit fjarnámsáfanga á vefsíðu VMA má lesa um HÉR


Kartaflan sem fann enga lykt

Það var svolítið sérstakt að aka heim frá Laugavatni í dag. Heim í skarkalann, byggðina, streituna og stórborgina. Ég er staðsett í Reykjavík. Hef alið manninn í miðbænum frá blautu barnsbeini. Ég man til dæmis eftir Hlemmi þegar pönkið var og hét. Fór oftar á sýningar í Austurbæjarbíói sáluga og grét yfir Purple Rain þegar myndin var frumsýnd. Man til dæmis þegar þrjú sýningar í Stjörnubíói voru svo yfirfullar að eitt sinn þegar ég reyndi að troða mér gegnum dyragættina ... lyftist ég hreinlega frá gólfinu og sveif, fremur en að ganga, inn í yfirfullt kvikmyndahúsið og beið þolinmóð í einar fimmtán mínútur áður en ég komst að sælgætissölunni til að krækja mér í gotterí.

Ég var sjö ára.

 

 


Spegill spegill herm þú mér

Ég er alltaf að leita einhverra leiða til að endurnýja frumur líkamans.  

Auglýsingaiðnaðurinn segir mér að ég verði að gera það. "Peeling down?" spyr fögur forsíðustúlka framan á pappaspjaldi sem blasir kokhraust við mér á miðju lyfsölugólfi í Lágmúlanum. Ég andvarpa. "Hvað kostar þetta krem?" spyr ég feimnislega þegar upptekinn lyfjatæknirinn stormar fram hjá mér. Hún lítur ströngum augum á mig og mælir hörund mitt ótæpilega út.

"Þú þarft ekki svona krem, vinan" svarar hún í myndugum tón og horfir hvasseyg til baka. Mig langar mest að rífa debetkortið upp og pípa "en ég á peninga" en það væri einhvern veginn ekki við hæfi. Sveipa úlpunni þéttingsfast að mér og dæsi. Mér þykir vænt um húðina.

"Er einhver hérna sem getur frætt mig um þetta?" læði ég út um leið og hvítur stormsveipurinn hverfur bak við plástrahilluna og ég fæ að launum langan fingur. "Talaðu við hana, hún er í snyrtideildinni" og bandar í áttina að gullfallegri stúlku með brúnt hár, konu sem veit greinilega allt um farða.

Innan fimm mínútna hef ég gert mér grein fyrir gildi andoxunarefna. Lært allt um ávaxtasýrur. Veit að ég verð að skipta um krem eftir 35. Má ekki nota sama maskann meir en í mánuð. Þarf að nota toner kvölds og morgna. Taka þessa sápu, já. Ég er með blandaða húð. Þarf á raka að halda, því undir niðri er ég feit. Andlitið á mér er spikað undir yfirborðinu.

Aldrei hefði ég trúað þessu.


Less is More?

"Ég hef verið í fríi frá bloggheimum en hef nú snúið aftur" er setning sem ég hef oftlega rekist á við skoðanir á síðum víðsvegar um bloggheima. Ótrúlegt en satt, hef ég aldrei tekið upp á því að skrá orðin sjálf á síður sögu minnar, fyrr en í kvöld.

 

Og það er rétt. Hugsi á svip, lúin eftir ævintýri helgarinnar, innilokuð á reyklausu kaffihúsi ... sný ég aftur, vopnuð fartölvu og skelfilega sundurleitum hugsunum (sem flestar snúast um stráka). Auðvitað er ég sem fyrr; forystusauður einhleypra á höfuðborgarsvæðinu, skelfingu lostin yfir uppflettingu IP talna á Internetinu (vinur minn sagði mér að það væri hægt að "stalka" fólk gegnum Netið og því til sönnunar þuldi hann upp óskiljanleg nöfn á ensku), dauðans blönk að íslenskum sið (á ekki skítuga krónu með gati eins og hann faðir minn sagði alltaf í den) og staðráðin í að stinga af áður en þjónninn biður um beinharða peninga fyrir kaffibollann sem ég var að enda við að kría út.

 

Ég, Klara Egilson, litla stúlkan með eldvörpuna, eitilharður aðdáandi H.C. Andersen og skelfilega viðkvæm kona ... hef snúið aftur í undurfagurri mýflugumynd ... enda varla annað hægt, eins og sólin skín bjart á þessu annars blessaða landi.

 

Ætli maður leggi sig ekki bara aftur í haust, um það leyti sem skólar byrja og dimma tekur að nýju?  

 

Þar til þá ... geri ég ráð fyrir því að blogga ... it´s good to be back, eins og maðurinn sagði GetLost

 

 

 

 

  

 


Eru feministar á stjá?

Það skal tekið fram að púki hefur hlaupið í tæknina á Framnesvegi, færsla sem hér birtist að neðan var birt á fölskum forsendum og er einungis hálfnuð. Um leið og ég bið lesendur mína auðmjúklega forláts á þessum leiða kvilla ...

(ég er búin að stappa ofan á lyklaborðinu í hálftíma til að reyna að finna út, hvernig í fjandanum ég finn hinn helminginn af sögunni sem ég var byrjuð á, margbrowsa gegnum history og bölsóta þeirri staðreynd að ég ýtti ekki á VISTA)

... staðhæfi ég um leið, að þetta hlýtur að vera feministum að kenna.

Ég laga þetta um leið og við á.

 


Af léttúðugum jurtum og framandi fegrunarráðum

Mér var alvara þegar ég fletti upp á náttúruböðum í gær.

Nýja Náttúrusnyrtihandbókin var rituð fyrir einum þrjátíu árum síðan. Ég keypti hana í verslun Gunnlaugs stjörnuspekings þegar ég var tólf ára að aldri. Nýbyrjuð að vinna í grænmetispökkun um helgar í Nóatúni um helgar og himinlifandi yfir fyrsta launaseðlinum, sem ég lengi vel átti í fórum mínum á prenti. Allir mínir peningar fóru jafnharðan í bækur. Rit af ýmsu tagi; dulspekipælingar, tarotspil, stjörnuspeki og náttúrulækningar.

Fyrir kom að ég keypti mér prjónahandbækur og ævisögur. Í dag eru flest þessa rita skopleg á að líta, sér í lagi The Satanic Bible sem ég hef átt frá unga aldri en aldrei haft hugrekki til að lesa. Drengurinn minn hefur stundum fíflast með ritin. Einu sinni tók hann Djöflabiblíuna fastataki án minnar vitundar og fór með hana í skólann. Ég fékk símtal þann dag. "Hann kom með ritverk í skólann" greindi áhyggjufullur starfsmaður mér frá. "Við höfum áhyggjur af drengnum." Andköf beggja megin línunnar, tilþrifamiklar þagnir og samúðarfullar staðhæfingar skiptust á í símtalinu. Mig setti hljóða um stund. Ég gekk sjálf í þennan skóla um hríð, gekk sömu ganga og drengurinn minn og hafði fyrrgreind áhugamál þegar ég var yngri. Ég safnaði sjaldgæfum ritum.

Ekki að ég hafi nokkru sinni haft áhuga á að lesa Djöflabiblíuna. Nei. Mér fannst titillinn bara spennandi. Þegar ég var tólf ára, var einfaldlega töff að eiga bókina uppi í hillu. Svara á innsoginu þegar skelfdar vinkonur mínar komu í heimsókn og segja "já, ég keypti hana um daginn."

Ég var afskaplega hljóðlátt barn.

Augljóst er að ég verð að fara að henda þessari bók. Ekki veit ég hvernig drengnum datt í hug að taka bókina með í skólann. Sennilega til að hræða skólafélagana, eða einfaldlega bara til þess að vera fyndinn. Við höfum afskaplega svartan húmor hér á Framnesvegi. Enda lögðumst við bæði, ég og drengurinn, í gólfið og grétum úr hlátri vegna uppákomunnar. Hvernig datt honum fyrrgreint í hug?

Ég þakka Guði þá mildi að drengurinn tók ekki Nýju Náttúrusnyrtihandbókina með í skólann.

Bókin mín er nefnilega dottin í sundur. Hún kom í kiljubroti í verslunina og var rituð af erlendri stúlku. Sumar uppskriftirnar eru skemmtilegar, aðrar skelfilega flóknar. Ég hef það fyrir satt, að ég aldrei gert mér grein fyrir því hvar ég nálgast garðrósir, öðruvísi en að grátbiðja blómaræktendur í Hveragerði um nokkra stilka.

"Í róandi melissubaðið eru annað hvort  notuð þurrkuð melissublóm eða fersk sítrónumelissublöð úr garðinum" stendur til dæmis á einum stað í bókinni. Já, auðvitað. Ég er náttúrulega með blómagarð hér við hliðina á rólóvellinum aftan við húsið okkar á Framnesveginum.

Stundum verð ég svolítið örg út í höfund.  

Uppskriftirnar voru skráðar fyrir daga einstrengingslegrar umhverfishyggju, vitneskju um sindurefni og mikilvægi andoxunarefna. Hvergi er minnst á djúpslakandi sogæðanudd, ávaxtasýrur né Demeter (bio-dynamisk) gæðastimpilinn sem er alþjóðlegur staðall á gæði lífrænnar ræktunnar.

Í einfeldni minni finnst mér því eilítið svalandi að fletta yfir blaðsíðurnar. Lesturinn er eins konar afturhvarf til raunverulegrar náttúruhyggju. "Skítt með skordýraeitur!" segi ég. Ég treysti íslenskum blómabændum til að gæla við stilkana og senda eiturefnalausar afurðir í búðir. Aftur á móti hef ég ekki hugmynd um hvernig ég nálgast fjólur. Sennilega þyrfti ég að fara í sumarfrí til Sikileyjar til að nálgast sum hráefnin. Leigja fagurbleikt einstaklingsherbergi á litlu sveitahóteli yfir helgi og merja ólífur með mortéli, íklædd ljósum bómullarkjól. Í kjölfarið gæti ég léttstíg flögrað um franska akra, gælt við lavenderjurtir og látið renna í gullslegið útibaðkar, sem staðsett væri við eikarlundinn.

Ég er sannfærð um að allt þetta er hægt. Utan þess að gullslegin útibaðkör er ekki að finna við eikarlunda. En jurtirnar sem höfundur getur í bókinni góðu vaxa enn villtar víðs vegar um heim og sum innihaldsefni bókarinnar get ég hæglega ræktað í litlum blómapottum við eldhúsgluggann heima; sbr. myntu og blaðlauk. Þrátt fyrir að árin skilji augun mín og orð höfundar að, er ég ennþá að lesa línurnar sem erlenda stúlkan skráði samviskusamlega niður á blað fyrir einum þrjátíu árum síðan.

"Til eru mismunandi aðferðir til að laga jurta- og blómabað, einnig er mismunandi mikið magn af jurtum notað í baðið, allt eftir því hvaða áhrifum óskað er eftir" segir stúlkan í bókinni. "Venjulega eru sett 250 grömm af þurrkuðum jurtum í fullt baðkar; með þessu magni náum við hámarks áhrifum með jurtabaðinu. Ef við hins vegar óskum aðeins eftir mildu og ilmandi baði þá nægja 100 grömm af þurrkuðum jurtum í baðið."

Aldrei verið hrifin af málamiðlan. 300 grömm ættu að nægja.  

"Jurtabaðefni er einnig hægt að framleiða á mismunandi hátt. Í fyrsta lagi er hægt að laga svokallað seyði. Þá eru jurtirnar settar í nægilegt magn af sjóðandi vatni, hrært í og þetta látið malla á lágum hita í 15 mínútur. Síðan er vökvinn síðaður frá jurtunum og honum hellt út í baðvatnið."

Hljómar afskaplega ljúft. Vissulega myndi ég sjóða jurtirnar og hella úr pottinum beint ofan í baðið, en látum það ótalið.

"Hinn möguleikinn kostar ekki alveg eins mikið umstang. Þurrkaðar jurtir eru settar í léreftspoka, bundið fyrir með snúru og pokinn lagður í þurrt baðkarið. Síðan er heitt vatn látið renna í baðkarið þar til það er orðið fullt. Um leið og farið er í baðkarið er pokinn kreistur rækilega og hengdur á kranann þannig að hann sé niðri í vatninu. Meðan á baðinu stendur er jurtapokinn kreistur rækilega við og við. Það er mikið og seinlegt verk að hreinsa jurtapokann eftir baðið. Hjá þessu er auðveldlega hægt að komast ef notaður er gamall perlonsokkur í stað léreftspoka. Þá má einfaldlega fleygja sokknum með innihaldinu eftir baðið."

Það er heill hellingur spennandi uppskrifta í bókinni góðu. Þarna ber t.d. að líta Enskt fegrunarbað sem samanstendur af "þremur hnefum af ilmandi rósmarín, einum hnefa af rósum ásamt einum hnefa af þurrkuðum eða ferskum lavendilsblómum. Þetta" segir stúlkan í tón, sem lofar góðu "er frískandi og örvandi bað, það lífgar húðina og opnar svitaholurnar."

Þarna er líka að finna uppskrift að klíðisbaði sem höfundur segir svo milt, að jafnvel börnum sé óhætt að dingla tásunum ofan í vatninu. "Í gamla daga mátti finna lítinn klíðispoka hangandi svo að segja í hverju baðherbergi og klíðisbað var talið ómissandi. Klíðisbaðið hreinsar, frískar og er gott gegn bólóttri húð, það gerir húðina fíngerða og mjúka." Mér koma handsaumaðir léreftskjólar samstundis í hug. Hvítar svuntur, handrituð ástarbréf og feitlagin tólgarkerti. Hestvagnar að hossast yfir holótta malarvegi. Mikið var lífið einfalt í þá daga. "Í klíðisbaðið fara 250 grömm af hveitiklíði. Klíðið er annað hvort sett í baðpoka og hann kreistur vel niðri í heitu baðvatninu eða þá að lagað er seyði úr klíðinu og síðaðri lausninni hellt út í baðvatnið." stendur í bókinni.

Það er satt sem bókin segir. Hafrar og klíði hafa verið notuð í fegrunarskyni öldum saman.

Piparmyntubaðið höfðar þó best til mín. "Frískar, örvar blóðrásina og hreinsar svitaholurnar" heldur stúlkan áfram. "Í baðið fara þrjár handfyllir af þurrkaðri piparmyntu, tvær handfyllir af þurrkuðum rósmarínblöðum og safinn úr fjórum sítrónum." Uppskriftin hljómar ekki einungis dásamlega einfeldningslega, ég er viss um að þetta er líka ótrúlega gaman. "Jurtirnar eru settar í jurtabaðpoka, safinn pressaður úr sítrónunum og síaður út í baðvatnið."

Þó stúlkan staðhæfi að piparmyntubaðið eigi best við yfir sumartímann, er mér alveg sama.

Ég ætla að prófa þetta.


Áhrifamáttur gamla perlonsokksins

Það lúrir einhver tryllingur í mér í dag.

Fletti upp í Nýju Náttúrusnyrtihandbókinni strax í morgun og blaðaði upp á náttúruböðum. Þetta er óskaplega skemmtileg bók. Hún inniheldur allt um næringarríkar baðferðir og maska sem hægt er að gera úr náttúruefnum sem finna má í eldhúsinu.

"Blómablöð rósarinnar eru rík af efnum, sem hafa læknandi áhrif, eins og barksýru, fitu, sykri, sítrónusýru og eterískum olíum (rokfimum olíum)." staðhæfir kaflinn um náttúruleg böð. Þetta hafði ég enga hugmynd um. Langar samstundis að læðast út í Blómaval og japla laumalega á nokkrum blómakrónum. Kaupa mér jafnvel vönd og spæna blöðin í mig, þegar ég er sest út í bíl. Henda svo stilkunum og halda áfram ferð minni í miðbæinn.

Guð veit að ég þarf á næringu að halda.

Hugmyndin hljómar sennilega, en þó freistar framhald bókarinnar meir. "Fersk blómablöðin eru sett í jurtabaðpoka og hann hengdur ofan í heitt baðvatnið. Því meir sem kemst af blöðum í pokann, því betra verður baðið."

Vaselinsmurt myndskeið sem mettar umhverfið rómantískri móðu rennur mér fyrir hugskotsjónum. Ég að gæla við jurtirnar. Rómantískir fingur mínir að kreista fíngerð rósarblöðin, bundin í léreft. Sveskjum líkar tær sem gera *gilligill* á yfirborðinu. Rósrautt innlit á baðherbergi eilífðarbarnsins.

*fíngerð hlátrasköll*

Kannski fæ ég mér að borða líka í baðkarinu. Smjatta munúðarfull á ferskum ávöxtum.

Skrepp saman og verð eins og lítið barn sökum yngjandi áhrifa rósarinnar.

"Ef þið viljið tína rósablöðin sjálf, þá ættuð þið að velja skrautrósir, garð- og villirósir, sem ekki hafa verið úðaðar með skordýraeitri."

Já. Ég ætla að fara í Hveragerði í kvöld og stela rósum úr gróðurhúsum. Fara fimlega eins og gimsteinaþjófur um glerskálana og næmum fingrum, sneiða skrautrósir úr beðum. Með svartan léreftspoka yfir öxlina, íklædd hljóðlausum gúmmískóm mun ég læðast um með fimi púmunnar. Auðvitað verð ég með næturgleraugu. Og deyfilyf, ef ske kynni að árvökull rósaræktandi myndi fyrir tilviljun birtast við túlípanabeðin.

Ég þori nefnilega ekki að kaupa blóm í búðum. Ég veit ekkert hvernig þingmönnum gengur að framfylgja grænum loforðum að kosningum loknum. For all I know gætu blómin í búðunum verið eitruð og lífræn rósaræktun er að mér skilst ekkert sérstaklega langt á veg komin hérlendis.

Allar upplýsingar sem ég hef um sindurefni (orðið hljómar mjög hættulega) eru unnar upp úr íslenskum blaðagreinum. Og ég treysti fjölmiðlum. Ég dreg það ekki í efa eitt andartak að blaðamenn beri velferð mína fyrir brjósti. Eftir að hafa lesið mér lauslega til um grænu byltinguna er ég þess handviss að allt þetta pakk prófar meira að segja matvörur á dýrum.

Aldrei skal ég láta plata mig aftur! Nei, segi ég! Ég ætla að sneiða hjá íslenskri siðspillingu með næturgleraugu að vopni. Og hverjir eru það sem borga brúsann, viðhalda ómótstæðilegum æskuljóma mínum og gæða hörund mitt framandi andoxunarefnum? (tekið skal fram að ég hafði ekki hugmynd um tilvist andoxunarefna fyrr en snyrtifræðingurinn minn greindi mér frá mikilvægi þeirra). 

Jú!

Íslenskir blómabændur!

Aldrei skal ég láta konuna í apótekinu plata mig aftur. Blush 


Og það í miðri marseringu

Andskotinn sjálfur ... *öflug gumpsveifla*

 


mbl.is Filippseyskir lögreglumenn varaðir við að dilla mjöðmum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cry me a river

"Þú verður að kjósa rétt, Klara mín" var faðir minn vanur að segja hér áður fyrr. "Kannski best sé að við fylgjum henni í kjörklefann" klykkti konan hans yfirleitt út með og svo var hlegið. Alveg viðstöðulaust. Mér finnst þetta ennþá fyndið. Hugarflugið og harkan í föðurfólki mínu nær út fyrir eðlileg endamörk heims og þjóða.

Sjálf hef ég aldrei talist sérstaklega pólitísk manneskja. Ég, manneskja á fertugsaldri, hef eftir fremsta megni forðast að mynda mér skoðanir og geng enn um í hettupeysu. "Mamma, þú ert eins og barn í laginu" sagði sonur minn um daginn er hann gekk fyrir aftan mig upp tröppurnar sem liggja heim til mömmu. "Ég gæti verið faðir þinn, svona séð aftan frá."

Ég velti hugmyndinni fyrir mér um hríð. Jafn töfrandi og fullkomið ábyrgðarleysi kann að líta út í fjarskanum, er barnæskan á enda. "Þetta er búið, krakkar" umla ég í huganum við ritun færslunnar. "Þeir vilja kalla mig til ábyrgðar á blogginu." Í kjölfarið fylgir andvarp. "Málpípa stjórnarandstöðunnar?" klingir djúpt í hugarfylgsnum mínum. "Nauðug" svara ég að bragði.

Giddagúdd hlær í fjarskanum og slær á hné sér. "Hann er klikkaður þessi maður" segir hún.

Ég nenni ekki að svara. Enda veit ég ekkert hvern hún er að vitna í. Alltof margir sem skeyttu athugasemdum við bloggið mitt í gær. Málefnalegt raus verður þreytandi með tímanum.

"Ég múlbatt hann" svara ég geðvonskuleg á endanum.

"Af hverju gerðirðu það?" spyr Giddagúdd. "Þú áttir að svara honum."

Ég veit það. Veit að Giddagúdd hefur rétt fyrir sér, en ég nenni ekki að svara. Nenni ekki að svara Giddagúdd og nenni ekki að ræða við manninn. Giddagúdd hefur rétt fyrir sér. Hann er klikkaður.

"Þarna voru nú góðir punktar" klykkir vinkona mín út í huganum. "Eins og til dæmis hann vinur þinn sem grét heila á" og ég get ekki annað en hlegið. Hlæ að hugvitsemi Giddagúdd og óvæntri áskorun, þessari beiðni um einvígi er hann reyndi í einlægni að koma til vegs og vitundar, þegar hann kom stormandi inn á bloggið mitt í gær.

"Af hverju heldurðu að hann hafi aldrei skrifað í gestabókina?" spyr ég einfaldlega og horfi bláeyg í augu alvitringsins. "Hann hefur bara ætlað að snapa fæt" smellir Giddagúdd fram og glottir við tönn.

"Á, ég hafði gaman að þessu. Anti-climaxinn kom mér skemmtilega á óvart. Eins og ég ætti að stýra pólitískri fullnægju mannsins og væri sett hér inn á blogg til að enterteina. Ég vissi ekki að ókunnugir menn kæmu hingað til að lesa hugsanir mínar, hvað þá til að climaxa?"

Svipurinn á mér er farinn að léttast. Giddagúdd kemur mér alltaf til að hlæja.

"En þú ert búin að vera að gera það, skrifa fyrir alþjóð. Hvað veist þú um hverjir lesa þetta? Ertu kannski með IP tölur á lista? Samning við Moggann? Ferð yfir töluna og skrásetur fyrir komma?"

Guð almáttugur, Giddagúdd, ég er ekki kommi. Hvernig vogar hún sér að segja þetta? Pabbi var kommi. Konan hans líka. Þau voru svarnir herstöðvarandstæðingar og fóru stolt í Keflavíkurgöngur. Mér finnst það flott hjá þeim og smart að hlusta á þeirra sögur. En ég verð seint flokkuð sem kommi og þar er komin ástæðan fyrir því að fjölskylda mín vildi ólm fylgja mér í klefann góða.

Þau vildu tryggja að réttir menn fengju landið í hendur að loknum kosningum.

"Heldurðu að það sé málið sem gengur honum vini mínum til?" spyr ég barnslega. Giddagúdd veit allt. Hún veit svörin við þjóðmálum, veit hvernig best er að ganga til kosninga, skilur skoðanakannanir og þekkir áfengisfrumvarpið miklu betur en ég.

"Nei" svarar hún að bragði. "Ég held að hann hafi bara viljað fá brennivín í búðirnar."  


Hvergi banginn

Maðurinn er einkennilega hrífandi á þessari mynd InLove


mbl.is Ahmadinejad hefur ekki áhyggjur af því að Bandaríkin geri árás á Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband