Áhrifamáttur gamla perlonsokksins

Það lúrir einhver tryllingur í mér í dag.

Fletti upp í Nýju Náttúrusnyrtihandbókinni strax í morgun og blaðaði upp á náttúruböðum. Þetta er óskaplega skemmtileg bók. Hún inniheldur allt um næringarríkar baðferðir og maska sem hægt er að gera úr náttúruefnum sem finna má í eldhúsinu.

"Blómablöð rósarinnar eru rík af efnum, sem hafa læknandi áhrif, eins og barksýru, fitu, sykri, sítrónusýru og eterískum olíum (rokfimum olíum)." staðhæfir kaflinn um náttúruleg böð. Þetta hafði ég enga hugmynd um. Langar samstundis að læðast út í Blómaval og japla laumalega á nokkrum blómakrónum. Kaupa mér jafnvel vönd og spæna blöðin í mig, þegar ég er sest út í bíl. Henda svo stilkunum og halda áfram ferð minni í miðbæinn.

Guð veit að ég þarf á næringu að halda.

Hugmyndin hljómar sennilega, en þó freistar framhald bókarinnar meir. "Fersk blómablöðin eru sett í jurtabaðpoka og hann hengdur ofan í heitt baðvatnið. Því meir sem kemst af blöðum í pokann, því betra verður baðið."

Vaselinsmurt myndskeið sem mettar umhverfið rómantískri móðu rennur mér fyrir hugskotsjónum. Ég að gæla við jurtirnar. Rómantískir fingur mínir að kreista fíngerð rósarblöðin, bundin í léreft. Sveskjum líkar tær sem gera *gilligill* á yfirborðinu. Rósrautt innlit á baðherbergi eilífðarbarnsins.

*fíngerð hlátrasköll*

Kannski fæ ég mér að borða líka í baðkarinu. Smjatta munúðarfull á ferskum ávöxtum.

Skrepp saman og verð eins og lítið barn sökum yngjandi áhrifa rósarinnar.

"Ef þið viljið tína rósablöðin sjálf, þá ættuð þið að velja skrautrósir, garð- og villirósir, sem ekki hafa verið úðaðar með skordýraeitri."

Já. Ég ætla að fara í Hveragerði í kvöld og stela rósum úr gróðurhúsum. Fara fimlega eins og gimsteinaþjófur um glerskálana og næmum fingrum, sneiða skrautrósir úr beðum. Með svartan léreftspoka yfir öxlina, íklædd hljóðlausum gúmmískóm mun ég læðast um með fimi púmunnar. Auðvitað verð ég með næturgleraugu. Og deyfilyf, ef ske kynni að árvökull rósaræktandi myndi fyrir tilviljun birtast við túlípanabeðin.

Ég þori nefnilega ekki að kaupa blóm í búðum. Ég veit ekkert hvernig þingmönnum gengur að framfylgja grænum loforðum að kosningum loknum. For all I know gætu blómin í búðunum verið eitruð og lífræn rósaræktun er að mér skilst ekkert sérstaklega langt á veg komin hérlendis.

Allar upplýsingar sem ég hef um sindurefni (orðið hljómar mjög hættulega) eru unnar upp úr íslenskum blaðagreinum. Og ég treysti fjölmiðlum. Ég dreg það ekki í efa eitt andartak að blaðamenn beri velferð mína fyrir brjósti. Eftir að hafa lesið mér lauslega til um grænu byltinguna er ég þess handviss að allt þetta pakk prófar meira að segja matvörur á dýrum.

Aldrei skal ég láta plata mig aftur! Nei, segi ég! Ég ætla að sneiða hjá íslenskri siðspillingu með næturgleraugu að vopni. Og hverjir eru það sem borga brúsann, viðhalda ómótstæðilegum æskuljóma mínum og gæða hörund mitt framandi andoxunarefnum? (tekið skal fram að ég hafði ekki hugmynd um tilvist andoxunarefna fyrr en snyrtifræðingurinn minn greindi mér frá mikilvægi þeirra). 

Jú!

Íslenskir blómabændur!

Aldrei skal ég láta konuna í apótekinu plata mig aftur. Blush 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ibba Sig.

Af hverju ferðu í túlipanabeðin til að stela rósum?

Ibba Sig., 24.3.2007 kl. 19:25

2 Smámynd: Klara Nótt Egilson

*gisp*

Ég kann ekkert á þetta, Ibba mín.

Voru það kannski fjólur sem gera mig að barni?  

Klara Nótt Egilson, 24.3.2007 kl. 20:30

3 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Blómabændur schblómabændur - þú skuldar. Komment.

Jón Agnar Ólason, 25.3.2007 kl. 03:17

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

ég segiða með blómum.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.3.2007 kl. 12:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband