Af léttúðugum jurtum og framandi fegrunarráðum

Mér var alvara þegar ég fletti upp á náttúruböðum í gær.

Nýja Náttúrusnyrtihandbókin var rituð fyrir einum þrjátíu árum síðan. Ég keypti hana í verslun Gunnlaugs stjörnuspekings þegar ég var tólf ára að aldri. Nýbyrjuð að vinna í grænmetispökkun um helgar í Nóatúni um helgar og himinlifandi yfir fyrsta launaseðlinum, sem ég lengi vel átti í fórum mínum á prenti. Allir mínir peningar fóru jafnharðan í bækur. Rit af ýmsu tagi; dulspekipælingar, tarotspil, stjörnuspeki og náttúrulækningar.

Fyrir kom að ég keypti mér prjónahandbækur og ævisögur. Í dag eru flest þessa rita skopleg á að líta, sér í lagi The Satanic Bible sem ég hef átt frá unga aldri en aldrei haft hugrekki til að lesa. Drengurinn minn hefur stundum fíflast með ritin. Einu sinni tók hann Djöflabiblíuna fastataki án minnar vitundar og fór með hana í skólann. Ég fékk símtal þann dag. "Hann kom með ritverk í skólann" greindi áhyggjufullur starfsmaður mér frá. "Við höfum áhyggjur af drengnum." Andköf beggja megin línunnar, tilþrifamiklar þagnir og samúðarfullar staðhæfingar skiptust á í símtalinu. Mig setti hljóða um stund. Ég gekk sjálf í þennan skóla um hríð, gekk sömu ganga og drengurinn minn og hafði fyrrgreind áhugamál þegar ég var yngri. Ég safnaði sjaldgæfum ritum.

Ekki að ég hafi nokkru sinni haft áhuga á að lesa Djöflabiblíuna. Nei. Mér fannst titillinn bara spennandi. Þegar ég var tólf ára, var einfaldlega töff að eiga bókina uppi í hillu. Svara á innsoginu þegar skelfdar vinkonur mínar komu í heimsókn og segja "já, ég keypti hana um daginn."

Ég var afskaplega hljóðlátt barn.

Augljóst er að ég verð að fara að henda þessari bók. Ekki veit ég hvernig drengnum datt í hug að taka bókina með í skólann. Sennilega til að hræða skólafélagana, eða einfaldlega bara til þess að vera fyndinn. Við höfum afskaplega svartan húmor hér á Framnesvegi. Enda lögðumst við bæði, ég og drengurinn, í gólfið og grétum úr hlátri vegna uppákomunnar. Hvernig datt honum fyrrgreint í hug?

Ég þakka Guði þá mildi að drengurinn tók ekki Nýju Náttúrusnyrtihandbókina með í skólann.

Bókin mín er nefnilega dottin í sundur. Hún kom í kiljubroti í verslunina og var rituð af erlendri stúlku. Sumar uppskriftirnar eru skemmtilegar, aðrar skelfilega flóknar. Ég hef það fyrir satt, að ég aldrei gert mér grein fyrir því hvar ég nálgast garðrósir, öðruvísi en að grátbiðja blómaræktendur í Hveragerði um nokkra stilka.

"Í róandi melissubaðið eru annað hvort  notuð þurrkuð melissublóm eða fersk sítrónumelissublöð úr garðinum" stendur til dæmis á einum stað í bókinni. Já, auðvitað. Ég er náttúrulega með blómagarð hér við hliðina á rólóvellinum aftan við húsið okkar á Framnesveginum.

Stundum verð ég svolítið örg út í höfund.  

Uppskriftirnar voru skráðar fyrir daga einstrengingslegrar umhverfishyggju, vitneskju um sindurefni og mikilvægi andoxunarefna. Hvergi er minnst á djúpslakandi sogæðanudd, ávaxtasýrur né Demeter (bio-dynamisk) gæðastimpilinn sem er alþjóðlegur staðall á gæði lífrænnar ræktunnar.

Í einfeldni minni finnst mér því eilítið svalandi að fletta yfir blaðsíðurnar. Lesturinn er eins konar afturhvarf til raunverulegrar náttúruhyggju. "Skítt með skordýraeitur!" segi ég. Ég treysti íslenskum blómabændum til að gæla við stilkana og senda eiturefnalausar afurðir í búðir. Aftur á móti hef ég ekki hugmynd um hvernig ég nálgast fjólur. Sennilega þyrfti ég að fara í sumarfrí til Sikileyjar til að nálgast sum hráefnin. Leigja fagurbleikt einstaklingsherbergi á litlu sveitahóteli yfir helgi og merja ólífur með mortéli, íklædd ljósum bómullarkjól. Í kjölfarið gæti ég léttstíg flögrað um franska akra, gælt við lavenderjurtir og látið renna í gullslegið útibaðkar, sem staðsett væri við eikarlundinn.

Ég er sannfærð um að allt þetta er hægt. Utan þess að gullslegin útibaðkör er ekki að finna við eikarlunda. En jurtirnar sem höfundur getur í bókinni góðu vaxa enn villtar víðs vegar um heim og sum innihaldsefni bókarinnar get ég hæglega ræktað í litlum blómapottum við eldhúsgluggann heima; sbr. myntu og blaðlauk. Þrátt fyrir að árin skilji augun mín og orð höfundar að, er ég ennþá að lesa línurnar sem erlenda stúlkan skráði samviskusamlega niður á blað fyrir einum þrjátíu árum síðan.

"Til eru mismunandi aðferðir til að laga jurta- og blómabað, einnig er mismunandi mikið magn af jurtum notað í baðið, allt eftir því hvaða áhrifum óskað er eftir" segir stúlkan í bókinni. "Venjulega eru sett 250 grömm af þurrkuðum jurtum í fullt baðkar; með þessu magni náum við hámarks áhrifum með jurtabaðinu. Ef við hins vegar óskum aðeins eftir mildu og ilmandi baði þá nægja 100 grömm af þurrkuðum jurtum í baðið."

Aldrei verið hrifin af málamiðlan. 300 grömm ættu að nægja.  

"Jurtabaðefni er einnig hægt að framleiða á mismunandi hátt. Í fyrsta lagi er hægt að laga svokallað seyði. Þá eru jurtirnar settar í nægilegt magn af sjóðandi vatni, hrært í og þetta látið malla á lágum hita í 15 mínútur. Síðan er vökvinn síðaður frá jurtunum og honum hellt út í baðvatnið."

Hljómar afskaplega ljúft. Vissulega myndi ég sjóða jurtirnar og hella úr pottinum beint ofan í baðið, en látum það ótalið.

"Hinn möguleikinn kostar ekki alveg eins mikið umstang. Þurrkaðar jurtir eru settar í léreftspoka, bundið fyrir með snúru og pokinn lagður í þurrt baðkarið. Síðan er heitt vatn látið renna í baðkarið þar til það er orðið fullt. Um leið og farið er í baðkarið er pokinn kreistur rækilega og hengdur á kranann þannig að hann sé niðri í vatninu. Meðan á baðinu stendur er jurtapokinn kreistur rækilega við og við. Það er mikið og seinlegt verk að hreinsa jurtapokann eftir baðið. Hjá þessu er auðveldlega hægt að komast ef notaður er gamall perlonsokkur í stað léreftspoka. Þá má einfaldlega fleygja sokknum með innihaldinu eftir baðið."

Það er heill hellingur spennandi uppskrifta í bókinni góðu. Þarna ber t.d. að líta Enskt fegrunarbað sem samanstendur af "þremur hnefum af ilmandi rósmarín, einum hnefa af rósum ásamt einum hnefa af þurrkuðum eða ferskum lavendilsblómum. Þetta" segir stúlkan í tón, sem lofar góðu "er frískandi og örvandi bað, það lífgar húðina og opnar svitaholurnar."

Þarna er líka að finna uppskrift að klíðisbaði sem höfundur segir svo milt, að jafnvel börnum sé óhætt að dingla tásunum ofan í vatninu. "Í gamla daga mátti finna lítinn klíðispoka hangandi svo að segja í hverju baðherbergi og klíðisbað var talið ómissandi. Klíðisbaðið hreinsar, frískar og er gott gegn bólóttri húð, það gerir húðina fíngerða og mjúka." Mér koma handsaumaðir léreftskjólar samstundis í hug. Hvítar svuntur, handrituð ástarbréf og feitlagin tólgarkerti. Hestvagnar að hossast yfir holótta malarvegi. Mikið var lífið einfalt í þá daga. "Í klíðisbaðið fara 250 grömm af hveitiklíði. Klíðið er annað hvort sett í baðpoka og hann kreistur vel niðri í heitu baðvatninu eða þá að lagað er seyði úr klíðinu og síðaðri lausninni hellt út í baðvatnið." stendur í bókinni.

Það er satt sem bókin segir. Hafrar og klíði hafa verið notuð í fegrunarskyni öldum saman.

Piparmyntubaðið höfðar þó best til mín. "Frískar, örvar blóðrásina og hreinsar svitaholurnar" heldur stúlkan áfram. "Í baðið fara þrjár handfyllir af þurrkaðri piparmyntu, tvær handfyllir af þurrkuðum rósmarínblöðum og safinn úr fjórum sítrónum." Uppskriftin hljómar ekki einungis dásamlega einfeldningslega, ég er viss um að þetta er líka ótrúlega gaman. "Jurtirnar eru settar í jurtabaðpoka, safinn pressaður úr sítrónunum og síaður út í baðvatnið."

Þó stúlkan staðhæfi að piparmyntubaðið eigi best við yfir sumartímann, er mér alveg sama.

Ég ætla að prófa þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hvað segirðu um að opna baðstofu eftir að þú ert búin að flækjast um fjöll og firnindi og týna allskonar náttúrulegt gúmmelaði í baðið fyrir okkur væntanlega viðskiptavini. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.3.2007 kl. 22:43

2 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Bara af kurteisislegri forvitni - hvað ertu lengi að snara svona hlemmi fram?

Þetta er heilmikill litteratúr og það segir sitt um skemmtanagildið að maður skuli lesa allar tuttugu og þrjár málsgreinarnar.

Bravissimo. 

Jón Agnar Ólason, 26.3.2007 kl. 00:27

3 Smámynd: Klara Nótt Egilson

Jenný; Góð hugmynd. Tek þig með mér í bisnessinn og saman munum við græða milljarða á grænu byltingunni . . . *rómantískt ungmeyjarandvarp*

Jón; Ég er eldsnögg. Máttur fingrasetningar. Þakka þér. Auðmjúklega ... *lífrænar baðstofuskvettur*   

Klara Nótt Egilson, 26.3.2007 kl. 00:47

4 Smámynd: Jón Agnar Ólason

btw - mér runnu til rifjanna umvandanir þínar við mig í þá átt að ég ætti til pólitískt skítkast, svo ég mun gera mér far um að vera málefnalegur héðan af. Er meira að segja búinn að setja inn á síðuna mína fantasíu um samstarf D og VG í vor ... álit óskast við tækifæri.

Jón Agnar Ólason, 26.3.2007 kl. 01:02

5 Smámynd: halkatla

Gunnlaugur stjörnuspekingur, dulspekibækur og the satanic bible, þetta eru allt eðlilegir fylgifiskar ungdómsáranna, hehe, ég var allavega svona líka. Gaman að rifja þetta upp ég losnaði reyndar við mína djöflabiblíu stuttu eftir að ég keypti hana, og ég saknaði hennar ekki mikið þarsem þetta er bara einsog heimspekirit fyrir brjálaða eiginhagsmunaseggi, ekkert Guðlast, og Biblían sjálf er miklu betri 

halkatla, 26.3.2007 kl. 09:52

6 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Sendu mér email mín kæra.. geislabaugur@gmail.com

Heiða B. Heiðars, 26.3.2007 kl. 13:44

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hurru Klara mín, ekki hægt að skrifa athugasemdir á nýja pistilinn.  Kemur villa. Laga strax svo þú missir ekki af öllum gullkornunum sem við bloggvinir þínir erum með á tungu okkar (djö klám, tunga, oj).

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.3.2007 kl. 20:37

8 Smámynd: Klara Nótt Egilson

djö Jenný tæknin er að FARA MEÐ MIG núna manneskja argasta húsklám BRENNUR á vörum mínum ... og pistillinn birtist hálfnaður!!!! GARG! Bíddu BARA góða mín þar til þú sérð framhaldið hahahaha ... kemur á eftir

Klara Nótt Egilson, 26.3.2007 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband