Hlutföll kvenleikans

Ég skrapp í Liborious í dag.  Mátaði þar buxur af sömu gerð og atvinnurekandi minn um daginn. Þegar ég hafði komið mér þægilega fyrir inni í flauelsklæddum mátunarklefanum rann upp fyrir mér skelfilegt ljós. Buxurnar voru svo þröngar að ég gat ekki troðið þeim upp fyrir hnén á mér.  Hnén?  Hver hefur heyrt um hnjáfitu?  Þetta er í fyrsta skipti sem mig hefur langað leggja fram kæru á hendur fatahönnuði. Velti því fyrir mér hvert væri eiginlega best að snúa sér. Til Mannréttindaráðs. Evrópusambandsins jafnvel líka, til að tryggja stöðu mína betur. Kvennaathvarfið þyrfti að fá veður af þessu! Þetta er ákveðin tegund ofbeldis á hendur þvengmjórra kvenna. Hér er jafnvel komin ástæða átraskanna? Ímynduð hnjáfita sökum klaufaskaps á saumastofum víðsvegar um heim? Hvernig átti ég að vita að ég þyrfti að grenna á mér hnén?  Mig langaði samstundis í vöðvasog.  Láta sneiða af sterklegum kálfunum.  Vonsvikin plompaði ég berum bossanum niður á útskorinn barrokstól inni í mátunarklefanum og reyndi að komast úr buxunum aftur, en viti menn. Hælarnir á mér eru of sverir fyrir umræddar buxnaskálmar. Ég komst hvorki í þær né úr og örvæntingarfull missti ég sólgleraugun á gólfið, tosaði vanmáttug í skálmarnar og reyndi að komast hjálparlaust úr þessum hryllingi. Auðvitað var ég ekki í nærbuxum frekar en fyrri daginn og gat því ekki kallað á skilningsríka búðarkonuna mér til aðstoðar. Mér fannst einhvern veginn ekki við hæfi að flagga mínu allra heilagasta framan í ókunnuga konu i vesturbænum. Af mikilli elju beitti ég því skakandi mjaðmanuddi, svitastorknum einbeitingarsvip og hnjáhnykkjum þar til djöfulsins saumaskapurinn fór að gefa sig og ég tróðst einhvern veginn í nætursvartar gallabuxurnar, glöð á svip.  Ég keypti buxurnar, af ástæðu sem heitir “guð má vita hvað” (ég komst ekki úr þeim aftur og gafst því upp). Í þessum buxum langar mig að fljúga erlendis, banka upp á hjá umræddri saumastofu, bjóða þeim að tosa mig úr skálmunum og spyrja svo á hálfri leið niður annars ágætlega sköpuð hnén:  “Hvað vitið þið um smækkun beina?”  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birna Mjöll Atladóttir

Hress og skemmtileg skrif hjá þér.  Gæti verið gaman að fylgjast með skrifum þínum á næstunni.  Ég sé fram á að þegar mér á eftir að leiðast einveran að setjast þá niður og lesa blogg frá þér.
Í þeirri von að þú haldi áfram að skrifa svona hressilega eins og hér að ofan þá ætla ég að blogga þér inn sem vinkonu,

Birna Mjöll Atladóttir, 15.3.2007 kl. 13:02

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Hæ elskan mín. Gaman að þú sért komin hingað, mun svo sannarlega fylgjast með þér líka darlingin mín!

Frábær færsla hjá þér! Hehehehheeh 

Guðríður Haraldsdóttir, 15.3.2007 kl. 17:58

3 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Hló mig máttlausa!!  

Heiða B. Heiðars, 16.3.2007 kl. 17:56

4 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Og keyptirðu svo terrorbrækurnar, eftir allt mátunarklefabaxið?!

Þessi uppgjöf er ekki í takt.

Hálfgert - dare I say it - anti-climax  ...

Jón Agnar Ólason, 25.3.2007 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband