Klara Nótt Egilson
Klara litla leit heiminn augum í fyrsta sinn þann 11 mars 1971 og er því orðin ansi gömul samkvæmt vestrænum stöðlum. Stúlkan er fædd og uppalin í miðbæ Reykjavíkur og hefur margt brallað gegnum tíðina; hrelldi gjarna jafnaldra sína með hægðarlosandi lyfjum strax á unga aldri og býr enn yfir magnaðri hrekkjagáfu sem birtist einna helst í saklausum en skelfilegum athugasemdum hennar í dag.
Uppvask, hestatamningar, ritun blaðagreina, ræðumennska, dagskrárgerð og fréttaflutningur í útvarpi, skúringar, gluggaútstillingar, hugbúnaðarkennsla, áfengisráðgjöf og verslunarstjórn eru meðal þeirra fjölmörgu starfa sem Klara litla hefur fengist við gegnum tíðina.
Draumur hennar er að verða altalandi á spænsku og krækja í háskólagráðu í latínu.
Klara litla er móðir ungmennis og styður karlmenn eindregið í jafnréttisbaráttu kynjanna.
Undir venjulegum kringumstæðum þykir Klöru litlu afar skemmtilegt að vitna í sjálfa sig í þriðju persónu, nema er mikið liggur við en þá bresta allar varnir og talar Klara litla ávallt um sjálfa sig og eigin hegðun í fyrstu persónu er hún ræðir hugðarefni sem henni eru einstaklega hjartfólgin, sbr. landfræðilega staðsetningu Íslands og skelfilega þröngar gallabuxur.
Klara litla vill nota þetta tækifæri til að þakka hjartanlega heimsókn á höfundarsíðu sína og hvetur vegfarendur til að kvitta fyrir komu í gestabókina.