"Hvernig ert’í’enni? Píkunni?" – Kvikmyndin MÝRIN

Íslenska kvikmyndin MÝRIN í leikstjórn Baltasars Kormáks

Samfélagsrýni og heimildaritgerð

ÍSLE3KF05  Kvikmyndafræði

Nemandi: Klara Egilson 

Kennari: Sunna Hlín Jóhannesdóttir

Verkmenntaskólinn á Akureyri 

Október 2016

________________________________________

Ágrip og yfirlit heimilda

Viðfangsefni ritgerðar þessarar er birtingarmyndir karlmennsku í Reykjavík á tíunda áratugnum, eins og hugtakið kemur höfundi fyrir sjónir í kvikmyndinni MÝRIN í leikstjórn Baltasar Kormáks, sem gerð er eftir samnefndri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, sem jafnframt var fyrsta metsölubók höfundar. Hér er fjallað um þær karlpersónur sem eru í forgrunni myndarinnar og svo einnig hvaða leiðir höfundur og leikstjóri fara við að miðla samfélagslegri stöðu þeirra og viðhorfum til áhorfanda. Ritgerðin mun takmarkast við birtingarmyndir karlmennsku í kvikmyndinni MÝRIN þar sem Reykjavík og nágrenni á tíunda áratug síðustu aldar er í forgrunni og verður lítillega stuðst við þekktar kynjafræðikenningar; stigveldi karlmennskunnar sem vísar í valdamisræmi milli karla og hins vegar krísu karlmennskunnar sem birtist í hlutverkakreppu karla vegna breyttrar hlutverkaskipan kynjanna.  

Höfundur mun meðal annars leita lauslega heimilda í BA ritgerð Elísabetar Elmu Líndal Guðrúnardóttur Náttúra íslenskrar karlmennsku; birtingarmyndir karlmennsku í íslenskum kvikmyndum en í ritgerð sinni fjallar Elísabet Elma m.a. um hugmyndafræði þá er Ingólfur V. Gíslason varpar upp í bók sinni, Karlmenn eru bara karlmenn og heimfærir hugmyndir um karlmennsku upp á íslenskt samfélag. Þá verður einnig lítillega rýnt í félagslega kyngerð karla og kvenna á tíundu áratug síðustu aldar í Reykjavík, sem ákvarðaði hvað konur og karlar gerðu og veittist rými til að gera, m.a. út frá stéttaskiptingu, hjúskaparstöðu og búsetu. 

Einnig verða niðurstöður Félagsmálaráðuneytisins, sem gaf út skýrslu sem út kom árið 1993, hafðar til hliðsjónar, en sjálf skýrslan fjallaði um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnri verkaskiptingu og fjölskylduábyrgð. Skýrslan var afrakstur tveggja ára rannsóknarstarfs vinnuhóps, sem settur var á laggirnar árið 1991 að upplagi þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Jafnréttisstofa ákvað í byrjun árs 1994 í samræmi við tillögur skýrslunnar m.a. að skipa nefnd sem hefði það hlutverk að auka þátt karla í umræðunni um jafnan rétt kynja og var Karlanefnd Jafnréttisráðs stofnuð. Þá er einnig lítillega stuðst við ágæta samantekt Þórðar Ingvarssonar en í vefbók sinni tekur Þórður meðal annars á söguþræði bókarinnar sjálfrar, sem hlaut norrænu bókmenntaverðlaunin Glerlykilinn árið 2002 sem besta norræna spennusagan árið 2001. Kvikmyndin MÝRIN, er gerð var eftir myndinni var svo loks frumsýnd í október árið 2006, en Baltasar Kormákur gerði handrit og fór með leikstjórn myndarinnar, sem sló öll aðsóknarmet í íslenskum kvikmyndahúsum og fékk lof í lófa frá gagnrýnendum.  

________________________________________

Inngangur

Bókmenntaverk Arnalds Indriðasonar þarf vart að kynna; en hann er meðal afkastamestu og farsælustu glæpasagnahöfunda okkar tíma. Í verkum sínum, meðal annars í MÝRINNI, varpar höfundur upp raunsærri en lítt sýnilegri mynd af innri hugarheimi og tilfinningalegri togstreitu karla mitt í umróti umbyltingar úreltra samfélagsviðhorfa á tíunda áratug síðustu aldar; þeirrar kröfu að þoka þyrfti íslensku samfélagi í átt að auknu jafnræði kynjanna. Sú háværa skoðun að hlutverk karla væri að veita öðrum körlum kost á virkri þátttöku í jafnréttisumræðunni, allt í þeim tilgangi að hafa áhrif á kynbræður sína, naut sívaxandi fylgis á fyrrnefndu tímaskeiði, á sama tíma og morðið í kjallaranum er framið í Norðurmýrinni, með þeim afleiðingum að Erlendur rannsóknarlögreglumaður, í félagi við Sigurð Óla og Elínborgu, er fengin rannsókn málsins. Arnaldi tekst með næmri persónusköpun og trúverðugri persónulýsingum, að veita lesenda og Baltasar Kormákur, áhorfanda í gerð myndarinnar MÝRIN, sjaldgæfa innsýn í tilfinningaleg umbrot íslenskra karla, sem er mun sjaldgæfari nálgun höfundar þegar spennu- og glæpahandrit eiga í hlut, þar sem alla jafna er lögð meiri áhersla á styrk, úrræðagetu og snerpu karla í slíkum aðstæðum. 

Kvikmyndaaðlögun skáldsögunnar var í höndum Baltasar Kormáks, sem ritaði sjálft handritið og leikstýrði myndinni, sem var frumsýnd í október árið 2006. Leitast Baltasar við að túlka innri togstreitu persóna í beinni framsetningu atburða, með látbragði, litafræði, leikmunum og líkamsburði leikara sem og með svipbrigðum, en frásagnaruppbygging leikstjóra er fremur beinskeytt og jaðrar á tíðum við blátt áfram miðlun hugarheims. Er það mat undirritaðrar að hér takist ágætlega að varpa ljósi á þau sterku samfélagslegu umbrot sem skóku staðlaða hugmyndafræði íslenska feðraveldisins í lok síðustu aldar. Þá beinir Arnaldur í skáldsögunni og síðar meir Baltasar sem handritshöfundur og leikstjóri kvikmyndaaðlögunar einnig sjónum sínum að ójafnri stöðu karla innan valdakerfis karlmennskunnar, meðal annars Erlendi, sem í hlutverki fráskilins lögreglumanns, myndar hrópandi félagslegt ósamræmi við Sigurð Óla, sem er hámenntaður samstarfsmaður þess fyrrnefnda og býr við ágætar fjölskylduaðstæður.   

Körlum þeim sem koma við sögu í MÝRINNI, er þannig raðað í ákveðinn valdastiga, þar sem ákveðnar persónur sögunnar njóta rýmri forréttinda sökum persónustyrks; sterk gagnrýni birtist einnig á formfasta samfélagsgerð fyrri tíma, þar sem „forræðiskarlmennska“ var við lýði. Þannig mætir Erlendur Rúnari, harðsvíruðum lögreglumanni á áttræðisaldri sem lét af störfum árið 1963, þegar hann fer að grafast fyrir um móður lítillar stúlku sem andaðist einungis fjögurra ára gömul og fyllist viðbjóði þegar upp fyrir honum rennur að yfirvaldið hafði meiri áhuga á nærbuxum fórnarlambs nauðgunar en að fanga brotamanninn. Togstreita Erlends og Rúnars sem birtist í ólíkum viðhorfum til eðlis kynferðisglæpa, ágæt félagsleg staða Sigurðar Óla og vanmáttur unga föðurins sem glatar barnungri dóttur í fang dauðans sökum erfðasjúkdóms, allir endurspegla þeir ólíkar birtingarmyndir karlmennskunnar í íslensku samfélagi í lok síðustu aldar og lýsa þeim breytingum, gegnum framkomu og túlkun eigin viðhorfa, sem jafnréttisbaráttan leiddi af sér.

________________________________________

Söguþráður – MÝRIN 

Ungur maður nýr ennið í ákafa, þar sem hann grúfir yfir skjölum á skrifstofu sinni. Áliðið er orðið og taugaspennan er augljós. Hann er að falsa undirskriftir. Fyrirtækið er Íslensk erfðagreining í Reykjavík. Komið er að jólum og sést þar sem ungi maðurinn yfirgefur vinnustað sinn og leysir eiginkonu sína af við sjúkrabeð kornungrar dóttur þeirra. Sorg hjónanna og uppgjöf þeirra er augljós. Barnið er að deyja.  

Nú víkur sögu að vormánuðum. Ytri tími myndarinnar er upphaf tíunda áratug síðustu aldar; en upp kemst um voðaverk í niðurgrafinni kjallaraíbúð í Norðurmýrinni þegar tveir ungir drengir ráfa inn í opin húsakynnin og finna lík á stofugólfinu. Erlendur rannsóknarlögreglumaður er kallaður á vettvang og er fengið málið til rannsóknar, ásamt Sigurði Óla, samstarfsmanni sínum í rannsóknarlögregludeild Reykjavíkur. 

Í ljós kemur að fórnarlambið heitir Holberg, gamall síbrotamaður á sjötugsaldri sem hefur afplánað dóma fyrir þjófnað, ítrekaðan hraðakstur og líkamsárás. Þegar Erlendur rannsakar íbúðina ásamt tæknideild, finnur hann gamla ljósmynd af grafreit í íslenskum kirkjugarði sem merktur er stúlku að nafni Auður. Við rannsókn tölvu hins látna kemur í ljós að Holberg safnaði klámi; allt frá erótískum ljósmyndum til hrottafenginna ljósmynda af kynferðislegu ofbeldi sem beinist gegn varnarlausum börnum.  

Við nánari eftirgrennslan á ljósmynd kemur í ljós að Auður fæddist árið 1964, en andaðist einungis fjögurra ára að aldri. Móðir hennar, Kolbrún, svipti sig lífi árið 1971 og tekst Erlendi að hafa uppi á systur Kolbrúnar, Elínu, sem þverneitar í fyrstu að veita upplýsingar, þar sem lögreglan hafi brugðist systur hennar hrapalega. Gömul lögregluskýrsla leiðir Erlend á fund Rúnars, áttræðs hrotta sem lét af störfum hjá lögreglunni á sjöunda áratugnum. Í ljós kemur að Kolbrún reyndi að kæra Holberg fyrir nauðgun en var flæmd burt af stöðinni, þar sem Rúnar hafði meiri áhuga á nærbuxum hennar en staðreyndum málsins. Að loknum fundi þeirra Rúnars, fer Erlendur aftur á fund Elínar sem segir Holberg hafa nauðgað systur sinni ekki einu sinni heldur tvisvar, en vegna uppburðarleysis og ótta við yfirvaldið hafi Kolbrún gefist upp. Smám saman verður þeim Erlingi og Sigurði Óla ljóst að Holberg, sem andaðist í kjölfar höfuðhöggs sem morðinginn veitir honum með þungum öskubakka, var forhertur kynferðisglæpamaður. Einnig kemur í ljós að Holberg var í slagtogi við tvo óreglumenn; Grétar, sem hvarf sporlaust um þjóðhátíðarhelgina árið 1974 og svo Elliða, annálaðan vesaling, kynferðishrotta og síbrotamann af gamla skólanum, sem afplánar nú dóm á Litla Hrauni, en ferðaðist með Holberg víða um sveitir Íslands á þeirra yngri árum. 

Fléttan tekur á sig myrkari mynd, þegar Elliði strýkur af Hrauninu og reynir að myrða Rúnar á heimili sínu en verður ekki kápan úr því klæðinu þar sem Sigurður Óli, sem Elliði hafði við yfirheyrslur hótað nauðgun ef sá síðarnefndi hefði sig ekki hægan, fangar hrottann og hefur á brott. Smám saman taka brotin að falla saman og mynda heildræna en kaldrifjaða heildarmynd, þegar Erlingur með aðstoð tæknideildar, brýtur upp kjallaragólfið í íbúð Holbergs og grefur upp líkið af Grétari, ásamt óframkallaðri filmu sem sýnir nektarmyndir af Holberg í samförum við unga konu, sem virðist njóta atlota hans. Ungi erfðafræðingurinn sem sást falsa skjölin á skrifstofu Íslenskrar erfðagreiningar i upphafi, veitir Erling ómetanlega hjálp við rannsókn málsins sem að lokum varpar skelfilega sáru ljósi á hörmulega ástæðu morðsins í Norðurmýrinni og kemur, með fórn sinni, upp um fjörutíu ára gamlan fjölskylduharmleik sem er ljótari en nokkurn hefði rennt í grun. 

________________________________________

 Persónusköpun kvenna – MÝRIN 

Auk karla, sem eru í forgrunni í spennumyndinni MÝRIN, koma einnig sterkar og trúverðugar kvenpersónur fyrir. Þannig varpar dóttir Erlings, sem á við fíkniefnavandamál að stríða, raunsæju ljósi á tilfinningalíf lögreglumannsins, sem og persónulega stöðu hans sem föður og aðstandanda fíkils. Staða stúlkunnar, sem er þunguð meðan á sögunni stendur og hugleiðir síðar fóstureyðingu, varpar líka skýru ljósi á aukin réttindi kvenna á fyrrgreindu tímaskeiði, þó hún sé undirmálsmanneskja í samfélaginu, því augljóst er að stúlkan ræður ferð sinni að mestu sjálf þó lendi á hrakhólum og leiti endurtekið stuðnings hjá föður sínum. 

Í stöðu dóttur Erlends og óbilgjörnu sjálfstæði hennar, birtast einnig þær aðstæður sem konur á fimmta og sjötta áratug aldarinnar máttu búa við og verða grátlega ljósar þegar frúin á Suðurnesjunum viðurkennir loks að hafa tekið fram hjá eiginmanni sínum, sem eyddi bróðurparti hjónabandsins úti á sjó. Úr ævintýrinu varð barn, sem frúin rangfeðrar af ótta við að verða útskúfuð ef upp kemst um framhjáhaldið, enda hefur sú tillaga félagsmálaráðherra á tíunda áratugnum, að störf kvenna verði metin til jafns við vinnuframlag karla, langt undan. Á þeim árum sem Suðurnesjafrúin varð þunguð eftir þáverandi ástmann sinn, leit samfélagið enn svo á að konur hefðu ekki metnað til jafns við karlmenn til að sinna almennum störfum á vinnumarkaðinum og að því bæri ekki að greiða þeim sömu laun. 

Frjálsræði það sem dóttir Erlends býr við í upphafi tíunda áratugarins, endurspeglar einnig þann hrópandi vanmátt sem móðir Auðar bjó við, sem síðar fyrirfór sér, fjórum árum eftir að hafa fætt barn nauðgara síns og borið stúlkuna, sem var með banvænt heilaæxli sjálf til grafar. Þannig verður rannsakendum tíðrætt um blóðugar nærbuxur fórnarlambsins sem Rúnar lögreglumaður, nýtti sem kúgunartæki í samskiptum sínum við sjálfa hrottana sem frömdu glæpinn, en gegnum eftirlifandi systur fórnarlambsins endurspeglast ljóslega sá vanmáttur, kúgun og ok hátt settra karla í ábyrgðarstöðum, sem úthrópuðu þær konur sem ekki fóru eftir óskrifuðum reglum samfélagsins á áratugum áður sem kynferðislega lauslátar, allt í þeim tilgangi að útiloka þær frá samfélaginu og sneypa þær sömu svo þær létu að stjórn og væru valdinu undirlátar. 

Í kynferðislegu frjálsræði dóttur Erlings, sem verður þunguð af völdum karlmanns sem hún ekki þekkir og ræðir frjálslega þann möguleika að láta eyða fóstrinu við föður sinn og svo sú kynferðislega kúgun sem henni eldri konur, sem koma við sögu í myndinni, varpar skerandi ljósi á þann árangur sem harðvítug barátta kvenna fyrir bættum kjörum á áttunda, níunda og tíunda áratug síðustu aldar, hafði í för með sér fyrir almenna velferð og sjálfræði kvenna í íslensku samfélagi. Þannig vekur hrópandi misræmi milli þeirra réttinda og samfélagsleg staða þeirra kvenna af ólíkum kynslóðum eru og koma fyrir í MÝRINNI áhuga, þrátt fyrir að leiðir þeirra skarist aldrei. Hlutverk kvenna í kvikmyndinni MÝRIN virðist því að mestu þjóna hlutverki stoðpersóna og leggja áherslu á, eða vera í raun samfélagsleg gagnrýni og undirstrika með hvaða hætti innri barátta þeirra karla sem eru í forgrunni og tilfinningaleg átök þeirra, sem og innri staða þeirra í því karlaveldi sem MÝRIN varpar upp, er ýmist ógnað eða hafið upp til skýjanna, allt í samræmi við viðhorf karlanna og framkomu þeirra í garð þeirra kvenna sem koma við sögu. Í MÝRINNI virðist konu þurfa til svo karlarnir láti tilfinningar sínar í ljós. 

________________________________________

Karlmenn í aðalhlutverkum – MÝRIN 

Erlendur: Persóna Erlendar myndar skemmtilegt mótvægi við Sigurð Óla og lítur einna helst út eins og hokinn bóndi sem hrökklaðist úr sveit og hafnaði á mölinni. Erlendur er holdgervingur hins íslenska karlmanns; heiðarlegur, vinnusamur og réttsýnn. Undir hrjúfum skráp leynist viðkvæm sál sem glímir við sársaukaþrungið hlutverk aðstandanda. Yfir einkalífi Erlendar grúfir myrkur skuggi sem endurspeglar afleiðingar skilnaðar þeirra hjóna. Að öllum líkindum tók Erlendur ekki virkan þátt í uppeldi barna sinna meðan þau voru að vaxa úr grasi og hefur helgað líf sitt öflun tekna, sem svo aftur endurspeglar íslenska samfélagsgerð á árum áður.  

Sigurður Óli: Af ummælum Elliða í garð Sigurðar Óla, þegar þeir félagar yfirheyra þann síðastnefnda, er nafn ritgerðarinnar dregið, þegar gamli hrottinn niðurlægir Sigurð Óla með kynferðislegum aðdróttunum. Þar endurspeglast viðhorf eldri karla, sem áttu allt sitt undir stigveldi feðraveldisins komið, til yngri manna sem tóku virkan þátt í jafnréttisbaráttunni á tíunda áratug síðustu aldar og er persónu Sigurðar Óla eignuð hégómagirni og kjarkleysi fyrir vikið. Það er þó Sigurður Óli sem fangar Elliða á miðjum flótta og fær uppreisn æru. Sigurður Óli er holdgervingur nýrra tíma og má þola háð og spott sér eldri karla sem stafar bein ógn af breyttri samfélagsskipan sem veitir konum aukið jafnræði. 

Örn: Harmþrungna hetjan, hugrakkur erfðafræðingur sem ræðst að rót vandans. Örn fremur hina æðstu fórn að lokum, hann ber syndir feðranna á herðum sér, rétt eins og Kristur á krossinum og útrýmir hinu banvæna erfðamengi. Persóna Arnar kemur einnig til skila sterkri gagnrýni á persónuvernd og rétt upplýstra einstaklinga til að afla upplýsinga og skilur eftir þá spurningu hvort hollt sé að þekkja eigin uppruna. 

Holberg: Einhvers staðar verða þeir vondu að vera. Holberg er stöðluð stereótýpa; ofbeldismaðurinn á hlýrabolnum, maðurinn sem nauðgar konum, myrðir vini og safnar barnaklámi. Holberg er líka arfberi banvæns erfðasjúkdóms, hann er sektin holdi klædd. Í persónu Holbergs endurspeglast allt það úrkynjaða, þann sem hefur brugðist skyldu sinni og varpar ljósi á þær kröfur sem samfélagið gerir til heilbrigðra karla.  

Elliði: Elliði birtist í hlutverki frásagnaraðila, sem endurómar hrottafengnum misgjörðum Holbergs og þjónar í raun stoðhlutverki hrottans. Af orðum Elliða við yfirheyrslur, sem hann beinir til Sigurðar Óla, er heiti ritgerðarinnar dregið, sem endurspegla ótta eldri karla við yngri menn sem aðhyllast jafnræði kynjanna. 

Rúnar: Rúnar er, rétt eins og þeir Holberg og Elliði, viðhengi og er persónu lögregluhrottans ætlað að undirstrika hvað gerist þegar karlmenni bregst samfélagslegum skyldum sínum; að halda styrkri verndarhendi yfir þeim sem minna mega sín. Í sögu Rúnars endurspeglast einnig hörð ádeila á hörku feðraveldisins og hvaða afleiðingar misbeiting valds leiðir af sér fyrir siðfræðilegt jafnvægi í ríkjandi samfélagsgerð. Rúnar er holdgervingur gamla skólans, spillti lögreglumaðurinn sem var þvingaður úr embætti af fyrrum félögum, sem var skylt að halda þögulli verndarhendi yfir valdaumbrotum innan stigveldis feðraveldisins. 

________________________________________

 Karlmenn eru bara karlmenn: Samfélagsleg rýni – MÝRIN

Nær ógerlegt er að varpa skýrri mynd á innri félagslega skipan feðraveldisins, án þess að beina í upphafi sjónum að því augljósa fráviki sem birtist í hlutverki Elínar rannsóknarlögreglufulltrúa, sem hefur nær enga möguleika á senustuldi, en kemur áhorfandanum fyrir sjónir sem afar venjubundinn einstaklingur með hjartað á réttum stað. Þó verður að hafa í huga að ytri tímaskeið myndarinnar gerist í upphafi tíunda áratugarins og má því ætla að konur hafi verið í hrópandi minnihluta innan raða lögreglunnar á Íslandi. Því er látlaus tilvist og jarðbundin nálgun Elínborgar eftirtektarverð. Af stöðu Elínborgar innan lögreglunnar, dreg ég þá ályktun að hér sé komin staðfesting á inntaki umfjöllunar Ingólfs V. Gíslasonar sem útskýrir í fræðiumfjöllun sinni hvernig völdum karla og undirokun kvenna er meðal annars viðhaldið með einkynjun valdastofnana; Elínborg aðstoðar, aflar lykilupplýsinga en stýrir hvorki né eignar sér afrakstur rannsóknar. 

Víða hefur verið bent á það að völdum ákveðins hóps sé ekki síst viðhaldið með því að meðlimir hópsins loka sig af og hleypa ekki fulltrúum annarra að og sérstaklega ekki þeim sem minna mega sín í samfélaginu.”

Ritrýnd grein: Þjóðarspegillinn 2010

Karlanefnd Jafnréttisráðs 1994-2000

Höf: Ingólfur V. Gíslason

Um sama leyti og líkið í Norðurmýrinni finnst á grúfu á gólfinu, er Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, að undirbúa gerð starfshóps sem síðar meir skilaði skýrslu um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnri verkaskiptingu og fjölskylduábyrgð. Skömmu áður en bókin MÝRIN kom út, fæddist einnig Karlanefnd Jafnréttisráðs, sem ætlað var það hlutverk að auka þátt karla í umræðunni um jafnan rétt kynja. Íslensk Erfðagreining hafði nýverið komið fram á sjónarsviðið og þannig bregður Kára Stefánssyni fyrir, þar sem hann reynir að sannfæra fréttamenn um ágæti gagnagrunns sem hefði víðtækar upplýsingar um erfðamengi og erfðasjúkdóma Íslendinga að geyma, á sömu stundu og starfsmaður falsar undirskriftir. 

Samtímafrásögn Arnaldar og túlkun Baltasar spegla ljóslega samfélagsleg umbrot í upphafi tíunda áratugarins, hagsmunaárekstra eldri og yngri karla sem og þá hörðu gagnrýni sem jafnréttissinnaðir karlar máttu þola frá sér eldri körlum, þeim sem trúðu í blindni á gróin gildi forræðiskarlmennsku og úrelt viðhorf til ríkjandi hugmynda um æskilega undirokun kvenna. Kynferðislegar aðdróttanir Elliða í garð Sigurðar Óla (sbr. heiti ritgerðar) er þannig einföld birtingarmynd á valdastiga þeim sem forræðiskarlmennskan raðar körlum í; þeir karlar sem sýni af sér kvengerða hegðun njóti minnsta forréttinda, þó karlar séu. 

Sigurður Óli ógnar þannig gróinni tvískiptingu sem vísar til valda karla og yfirburða þeirra sökum kynferðis, hverjar sem aðstæður kunna að vera. Því bregður Elliði á þá gamalkunnu tuggu að hóta kynferðislegu ofbeldi svo halda megi Sigurði Óla, boðbera jafnræðis í skefjum, svo feðraveldið viðhaldi stöðu sinni sem valdberar í gróinni samfélagsgerð. Sama viðhorf endurspeglast í meðför Rúnars á nauðgunarkæru Kolbrúnar þegar hann hótar að afhjúpa hana sem hóru. Þrjóskukenndar keðjureykingar Erlendar, sem er að kæfa starfsfélaga sinn og endurteknar háðsglósur sem Sigurður Óli má þola, hetjudauði Arnar sem sviptir sig lífi til að hindra yfirvofandi harmleik og svo kynferðisleg valdbeiting hrottana; allt eru þetta ólíkar birtingarmyndir karlmennsku sem skarast með tilgerðarlausum hætti og varpa ljósi á samfélagslegar hræringar sem afrakstur jafnréttisbaráttu leiddi af sér.

________________________________________

Táknfræði, myndrænar vísanir og túlkun leikstjóra – MÝRIN

Þrátt fyrir gífurlegar framfarir á sviði tækni og myndvinnslu undangenginn áratug, verður því seint neitað að kvikmyndin MÝRIN er listrænn vitnisburður eigin tíma. Myndataka og lýsing, litafræði, sjónræn túlkun og nálgun leikstjóra við hugarheim persóna er hrífandi og á sömu stundu hrottafengin á köflum. 

Þannig má nefna nærmyndatöku sem sýnir unga erfðafræðinginn á skrifstofu Íslenskrar erfðagreiningar; skörp lýsingin og föl ásjóna mannsins öskrar óttablendnu hugrekki. Grænleit slikjan sem grúfir yfir líffærasafninu á Rauðarárstíg vekur upp viðbjóð og hrópar á nærveru dauðans, skörp mynstrin í lopapeysu Erlendar með vasahnífinn og sviðakjammann laða fram hughrif; óheflaða karlmennsku og náttúru Íslands að ónefndum grámanum sem hvílir yfir kirkjugarðinum sem túlkar tómleika sorgarinnar. Þá er enn ótalin morkin líkkista Auðar litlu og svartnættið sem grúfir yfir öllu þegar Örn, bróðir hennar, sviptir sig lífi með afsagaðri haglabyssu. Sjónræn túlkun leikstjóra og leikmyndadeildar er öflug og laðar fram sterk hughrif, skerpir á líðan og undirstrikar framvindu myndarinnar. 

Í raun má segja að skörp sjónarhorn og litanotkun spegli og varpi ljósi á innri hugarheim aðalpersóna; myndin hefst á andláti lítillar stúlku á helgasta tíma árs og morðið sjálft er framið í Norðurmýrinni snemma vors. Trén eru ekki enn farin að grænka en sól er tekin að hækka á lofti og því má líkum að því leiða að lífið sjálft bíði handan við hornið, yfirvofandi sumarið sem allt græðir. 

Sjálf frásögnin fléttar listilega saman þríþætta frásögn af morðinu í Norðurmýrinni, sem Erlendur og félagar fá til rannsóknar sem og sorgarferli ungu fjölskyldunnar sem glatar barnungri dóttur sinni í fang dauðans sökum sjaldgæfs erfðasjúkdóms og svo einnig ferðalag Evu, dóttur Erlends, sem er djúpt sokkin í fíkniefnaneyslu og verður ólétt í ofanálag. Hver frásögn styður hina og verður að segjast vel til tekist, þar sem handritshöfundur setur frásögnina upp í skýrt og greinilegt samhengi án tilgerðar eða teljandi áreynslu.  

Hér birtist hringrás lífsins, sakleysinu sem er svipt á brott og svo glímu hins góða við ill öfl; táknmyndir eru sterkar og þar má nefna Drenginn með tárið sem hangir dapur ofan við tölvu kynferðishrottans, en málverkið er víðfrægt og túlkar sorg barnsins sem glataða æsku, sem óhjákvæmilega nístir inn að beini. Íslensk lopapeysa og látlaus Hekluúlpa Erlendar, sem setur í sífellu upp hettuna til að skýla sér gegn veðrum og vindi í lögreglustarfinu, varpar upp skýrri mynd af íslenskri karlmennsku til sveita og slitinn vasahnífurinn sem miðaldra og hrjúfur lögreglufulltrúinn notar til að skera augað úr sviðahausnum skerpir vissulega á þeirri vísun að hér sé kominn sannur, íslenskur karlmaður sem vílar sér ekki við að ganga í erfið störf og kann tökin til sveita. Þá er ósamræmi í klæðnaði þeirra Sigurðar Óla; sem ávallt er klæddur eftir nýjustu tísku og klæðist glæsilegri úlpu með loðkraga, enn sterkari vísbending um þann mun sem er á viðhorfum þeirra og félagslegri stöðu. 

MÝRIN er rammíslensk með kristnu ívafi; í gjörðum unga erfðafræðingsins sem falsar undirskriftir á skrifstofu Íslenskrar erfðagreiningar, fremur hina æðstu fórn ofan í gröf systur sinnar við gömlu sveitakirkjuna sem einnig mætti túlka sem vísun í skyldleika allra Íslendinga. Lögreglukórinn sýnir stórleik á flutningi Sofðu unga ástin mín og ljáir yfirbragði MÝRIN tragískt yfirbragð með þjóðræknislegu ívafi. Án tónlistarinnar, sem veldur sterkum hughrifum, væri MÝRIN vart jafn myrk sem áhrifamikil og raunin er. 

________________________________________

Samantekt og lokaorð

Fljótt á litið er MÝRIN lítið annað en einföld glæpasaga sem gerist miðsvæðis í Reykjavík á tíunda áratug síðustu aldar. En þegar betur er að gáð, fléttar höfundur frásagnar listilega saman hárbeittri gagnrýni á rannsóknir erfðafræði, upplýstan rétt einstaklingsins og svo einnig fjölskylduharmleik sem sýnir ljóslega hver staða kvenna var bæði um miðja síðustu öld, samhliða því sem ljóst er hverju jafnréttisbarátta hafði skilað í lok síðustu aldar. 

Samúð mín liggur í aðstæðum þeirra Elínborgar, sem með látlausri nálgun sýnir hversu mjög konur máttu sættast á lægri stöður innan raða lögreglunnar og svo einnig þeim stöðuga fúkyrðaflaum sem Sigurður Óli má þola af hálfu vinnufélaga sinna. Tíundi áratugurinn var sannarlega þögull umbrotatími í íslensku samfélagi, en þá hóf Félagsmálaráðuneyti fyrir alvöru að grafast fyrir um raunástæður þess að launamunur kynjanna var svo mikill sem raun bar vitni. Má því áætla að Elínborg lögreglufulltrúi hafi mátt sættast á lægri laun en Erlendur og félagar samhliða því sem henni hefur verið, eins og fram kemur í myndinni, verið falið það vandasama hlutverk að skoða gaumgæfilega allar faldar vísbendingar, sem henni var svo gert að afhenda félögum sínum, sem ljúka rannsókn og eigna sér heiðurinn. 

Einelti það sem Sigurður Óli má þola og tekur orðalaust í mót, yrði vart liðið á opinberum vinnustað í dag, sem og keðjureykingar Erlendar, sem gefur berlega til kynna að sá fyrrnefndi sé kvenlegur í háttum og að líkamsburði. Þá þarf Sigurður Óli einnig að láta kynferðislegar aðdróttanir tukthúslimsins yfir sig ganga orðalaust, sjálfsagt þótti á þessum tíma að kvengera þá karlmenn sem aðhylltust jafnrétti og jafnvel ýja að því að þeir hinir sömu væru samkynhneigðir og jafnvel, sem slíkir, lauslátir með eindæmum. 

Allt þetta og svo yfirlestur heimilda, sem lauslega er vísað í en þó kirfilega getið, leiðir að þeirri ályktun að þeir karlar sem lögðu sitt á vogarskálarnar svo auka mætti jafnrétti kynjanna og draga úr kynbundnum launamun hafi orðið fyrir talsverðu áreiti af hálfu sér eldri karla og svo þeirra karla sem aðhyllast forræðiskarlmennsku, þar sem konur mega lúta í lægra haldi og njóta takmarkaðri réttinda á vinnumarkaði, þó verk þeirra séu jafn erfið í vöfum og jafnvel þyngri en þeirra karla sem með þeim starfa. 

Í þessu samhengi þótti mér MÝRIN áhugaverð viðureignar, sem verkefni í samfélagsrýni hafði áhorfið sterk áhrif á mig – ekki hvað síst í ljósi kynjafræðinnar og þeirrar undirliggjandi ólgu í jafnréttismálum sem kraumaði í íslensku samfélagi, en staða og túlkun Sigurðar Óla hafði afgerandi sterk áhrif á viðhorf mín. Það eitt að vera jafnréttissinnaður og ágætlega menntaður karlmaður í lok síðustu aldar, hefur í grónu karlasamfélagi þar sem tilfinningar hafa verið tabú, hefur ekki verið auðvelt viðureignar. Þá vekur túlkun Elínborgar einnig athygli mína, því það er einmitt vegna kvenna eins og Elínborgar, sem aðrar konur urðu færar um að feta stigu ábyrgðarstaða. Elínborg kann að koma áhorfandanum fyrir sjónir sem venjulegur rannsóknarfulltrúi, þegar hún í raun er holdgervingur þeirra kvenna sem ruddi brautina og sýndi með dugnaði og elju, að konur ættu vissulega fullt erindi inn í ábyrgðarstöður sem krefðust hlutleysis. 

Þannig er MÝRIN ekki einungis spennandi glæpasaga, heldur magnaður samtímaspegill sem varpar skörpu ljósi á aðstæður kynjanna, þá þróun sem hefur orðið í jafnréttismálum undanfarna áratugi. Samfélagsrýni þessi var þung í vöfum en ákaflega skemmtileg og hefur dýpkað skilning minn á þróun jafnréttisbaráttunnar. 

________________________________________

Heimildaskrá og myndaviðauki

Höfundur leitaði fanga í eftirfarandi skjölum, ritgerðum og gögnum. Misjafnt er með hvaða hætti heimilda er getið, ýmist með inndregnu textabroti sem vísar beint í heimild eða með beinni vísun í undirmálstexta. Þá voru heimildir einnig nýttar til að skerpa á skilningi samtíma þess sem sagan gerist á og auðvelda samfélagsrýni með kynjafræðirýni sem og stöðu kynjanna á síðasta áratug undangenginnar aldar,  til hliðsjónar. Hér fara allar heimildir og gögn sem nýtt voru við ritun: 

Skýrsla félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 

971. skýrsla – Um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnri verkaskiptingu og fjölskylduábyrgð

Þingskjal – Alþingi á 120. löggjafaþingi

1995–96. – 1065 ár frá stofn­un Alþing­is

523 . mál

http://www.althingi.is/altext/120/s/0971.html

Karlmenn eru bara karlmenn – Viðhorf og væntingar íslenskra karla 

Útgefandi: Skrifstofa Jafnréttismála 

Höf: Ingólfur V. Gíslason 

1997

https://rafhladan.is/handle/10802/9333

Þjóðarspegillinn 2010 – Karlanefnd Jafnréttisráðs 1994 – 2000 

Rannsóknir í félagsvísindum XI. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2010 

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands; Félags- og mannvísindadeild 

Ritstjórar: Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir

Höfundur: Ingólfur V. Gíslason

http://hdl.handle.net/1946/6780

Karlar og jafnrétti

Skýrsla og tillögur um aukinn hlut karla í jafnréttismálum

Útgefandi: Velferðarráðuneyti 

Apríl 2013

MÝRIN og aðrar bækur Arnaldar Indriðasonar 

Vefbók BlogDod – Umfjöllun um verk Arnaldar Indriðasonar 

23. mars 2004

http://blogdodd.blogspot.no/2004/03/mrin.html

Náttúra íslenskrar karlmennsku; birtingarmyndir karlmennsku í íslenskum kvikmyndum

Háskóli Íslands, Hugvísindasvið – Ritgerð til BA-prófs í kvikmyndafræði 

Höfundur: Elísabet Elma Líndal Guðrúnardóttir 

Janúar 2014

http://hdl.handle.net/1946/17194


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og átta?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband