Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Hugvekja til Íslendinga: Jón Sigurðsson
Miðvikudagur, 19. mars 2025
Eftir því sem sagt er, þá eru þegar nefndir menn til að semja stjórnarlagsskrá handa ríkinu, og líkindi eru til að Ísland verði nefnt þar í á þann hátt, sem stjórnin ætlar að bezt eigi við. Vér eigum rétt á því, að fulltrúar lands vors verði kvaddir til álits um það mál, og að óskir þeirra verði heyrðar. En nú reynir á að framar enn áður, bæði að allir íslenzkir menn hugleiði svo mikilvægt mál og gjöri sér það ljóst á allar hliðar, og svo það, að þeir lýsi yfir skoðunarmáta sínum og óskum fyrir allshersjarþingi voru svo almennt og skorinort, að enginn þurfi að vera efablandinn um hver vilji þjóðarinnar sé.
En verði þing ekki kallað saman í sumar, þá er óskanda, að sem flestir málsmetandi menn héldi nú þegar samkomur til að ræða þetta mál, og gæfi konúngi vísbendingar um hvers þeir vænti landsins vegna; væri þá öll líkindi til að hann færi eftir þjóðlegum óskum vorum. En samt sem áður væri jafn nauðsynlegt, að almennar bænarskrár yrði enn framar samdar til þingsins, þegar það ætti að koma saman
NÝ FÉLAGSRIT // 01.01.1848 // 8. ÁRGANGUR // 1848
Jón Sigurðsson
(17. júní 1811 7. desember 1879)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gleymdu ekki gömlum vini, þó aðrir gefist nýjir - Jón Sigurðsson (17. júní 1811 7. desember 1879)
Þriðjudagur, 18. mars 2025
Jón Sigurðsson (17. júní 1811 7. desember 1879) skildi að íslenska þjóðin er ekki bara landsvæði eða stjórnsýsla heldur lifandi samfélag þar sem menntun, menning og atvinnulíf þurfa að styðja við hvort annað til að skapa raunverulegt sjálfstæði þjóðar okkar.
Þessi orð, eða tilvísun, endurspegla um svo margt hugsjónir þeirrar sjálfstæðisbaráttu sem íslenska þjóðin hafði háð um langt skeið áður en til stofnunar lýðveldis kom.
Í orðum gamla forsetans endurspeglast sú hugsjón að Alþingi eigi að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðaranda okkar Íslendinga þrótti.
- Alþingi á að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðarandann:
Alþingi er ekki aðeins ætlað að vera stofnun sem setur lög, heldur umbótaafl sem leiðir þjóðina og styður sjálfstæða hugsun og sjálfsmynd okkar Íslendinga. Í orðum Jóns endurspeglast kjarni sjálfstæðishugsjóna heillar þjóðar; að stjórna ekki heldur að efla þjóðina sem lifandi samfélag.
- Skólinn á að tendra hið andlega ljós og hið andlega afl:
Menntun er ekki bara staðreyndalærdómur heldur er menntun ætlað að móta innri styrk, sjálfstæða hugsun nemenda og tendra hæfileika hvers einstaklings til að láta gott af sér leiða og framkvæma góð verk. Þetta er sú hugsjón sem Jón forseti brann fyrir; að menntun væri ekki aðeins auðgandi afl fyrir einstaklinginn sjálfan heldur hugarauður sem gagnaðist þjóðfélaginu öllu.
- Verzlunin á að styrkja þjóðaraflið líkamlega, færa velmegun í landið og efla atvinnuvegi:
Efnahagslegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar var veigamikill þáttur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en Jón Sigurðsson vissi mætavel að enginn getur verið raunverulega frjáls ef hann er efnahagslega háður öðrum sem og reyndin var áður en þjóðin lýsti yfir fullveldi. Þess vegna byggði sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar á hugsjónum sem sneru að sterkum atvinnuvegi, öflugri verslun og aukinni nýsköpun. Það er ekkert nýtt undir sólinni í þeim efnum.
- Andleg og efnisleg velmegun haldast í hendur:
Jón forseti sá fyrir sér þjóð sem væri jafnt sjálfstæð í huga og hag. Ekki væri nóg að vera frjáls í pólitískum skilningi þeirra orða þjóðin yrði líka að geta skapað sér efnahagslegt sjálfstæði; efnahagslegt frelsi og aðgengi að menntun yrðu að haldast í hendur.
Hann skildi að sjálfstæði er ekki einungis pólitískt afl heldur andlegur, menningarlegur og efnahagslegur auður. Alþingi er ætlað að leiða þjóðina í stað þess að stjórna þjóðinni. Menntun er lykillinn að hinu raunverulega frelsi og efnahagslegt sjálfstæði er þjóðinni jafn mikilvægt og pólitískt sjálfstæði. Hið andlega og efnislega styðja hvort annað og mynda grunn að sterku samfélagi.
Hugsjónir Jóns Sigurðssonar eiga jafn vel við í dag og á nítjándu öld og endurspegla í raun magnaða innsýn í mótun sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar, sem byggði á langt um meira en aðeins löggjafarvaldi.
Þessar hugsjónir snúast um þá hugmyndafræði sem byggði upp heila, sjálfstæða þjóð ekki um einn flokk eða hagsmunasjónarmið, heldur um hina raunverulegu sjálfstæðishugsjón sem Jón Sigurðsson barðist fyrir og sem endurspeglaðist í stofnun lýðveldisins.
Mér finnst þetta fallegt.
Frelsi er ekki sjálfsprottið heldur dýrmæt arfleifð
Mánudagur, 17. mars 2025
![]() |
Vilja ýta Rússum og Kína frá Grænlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Feminískur tvískinnungur?
Laugardagur, 17. mars 2007
Ég; hinn óákveðni kjósandi, heiðarlegur skattgreiðandi, íslensk kona, móðir ungmennis og kaffisopakerling ... er miður mín yfir þeim feminíska tvískinnungi sem liggur eins og þunn reykjarslæða yfir almennri þjóðfélagsumræðu um stöðu og réttindi hérlendra kvenna.
Er búið að lögleiða vændi í atvinnuskyni?
Segið mér að þetta sé ekki satt. Í guðs almáttugs bænum stamið því samstundis út að blaðamaður hafi slegið inn villur í uppsetningu á frétt um samþykki laga á afnámi fyrningar kynferðisbrota. Sé þetta aftur á móti rétt og satt, vinsamlegast segið mér þá að feministar séu ekki búnir að frétta af þessum harmleik. Hvers vegna situr fólk í þegjanda hljóði? HVAR eru harðsvíraðar kvenréttindakonur núna? Eru þær allar horfnar undir feld eins og Guðbjörg Hildur gerði í kjölfar umræðunnar um Smáralindarbæklinginn?
Eru þetta eintómar kaffibollakonur sem slá um sig með fögrum orðum þegar við á?
Stelpur, ég þakka ykkur hjartanlega fyrir stuðninginn í baráttu fyrir bættum launakjörum, en sé þetta frumvarp orðið að lögum - hlýt ég, hinn óákveðni kjósandi að spyrja - hvers vegna heyrist ekkert í ykkur nú? Hvernig gat þjóðin leyft þessu frumvarpi að verða mótmælalaust að lögum?
Eru feministar einungis baráttumanneskjur í frístundum?
Eða er ég að misskilja þetta allt; líta konur á þessa lagabreytingu sem skref í átt að auknu valfrelsi kvenna á atvinnumarkaðinum? Á ég jafnvel að fagna því í krafti kvenna að nú geti mellurnar loks um frjálst höfuð strokið á hinum almenna markaði? Stofnað stéttarfélag og lögleitt launataxta?
Lítil klausa á forsíðu mbl.is innihélt nefnilega setninguna sem ég vitna í hér að neðan.
Ég er svo fullkomlega miður mín að ég hef með öllu gleymt hvernig maður ber sig að við málefnalega umræðu. Er farin að endurtaka mig, skrái hverja færsluna af fætur annarri, skelfingu lostin á svip með sterkan kaffibolla og logandi sígarettu.
Sé þetta rétt eru nokkar staðreyndir deginum ljósari.
- þessar konur verða að starfa sem verktakar, þar sem þær mega ekki hafa dólga?
- Verða smokkar og sleipiefni loks frádráttarbærir tekju- og útgjaldaliðir?
- Nú borga þær sennilega skatta. Verður þeim leyfilegt að nýta persónuafslátt sinn?
- Er nú loksins hægt að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi sem vændiskona?
- Ganga þær allar í V.R. þar sem starfsgreinin flokkast undir þjónustu?
- Verða settir upp sérstakir launataxtar og þjónustugjaldskrá eftir flokkum og starfsaldri?
- Fellur frumvarpið einvörðungu undir konur, eða verður körlum leyft að selja sig líka?
- Síðast en ekki síst; hvert verður hlutfall virðisauka gjaldskrá vændis?
Ég, hinn almenni kjósandi, hef enga hugmynd um hvernig ég get flett fyrrgreindu frumvarpi upp á vefsíðu Alþingis. Þó langar mig að finna þessi skjöl, fletta því upp hvaða þingmenn studdu þetta frumarp til laga og hvaða flokkum þeir tilheyra. Mig langar einnig að sjá hverjir sátu hjá þegar frumvarpið var afgreitt og hvaða þingmenn greiddu atkvæði á móti.
Ég ætla að sneiða hjá þessu fólki þegar að kosningum kemur. Þessa fulltrúa vill ég ekki sjá inn á þing. Ég styð mótmælendur þessa frumvarps heilum huga og get lofað því, að ég greiði þeim mitt atkvæði í komandi þingkosningum. Ég læt ekki bjóða mér þennan pólitiska tvískinnung.
Stelpur mínar, gjörið svo vel að hysja upp um ykkur buxurnar.
Mér er skapi næst að öskra af pirringi og já, niðurlægingu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kona; þekktu rætur þínar
Föstudagur, 16. mars 2007
I´d like to record my blogs in english for all my fans out there.
En það myndi aldrei ganga upp. Í fyrsta lagi fæ ég svo margar hugmyndir á degi hverjum, að ég yrði eiginlega að skrifa eitt blogg á íslensku og annað á ensku. Ekki nenni ég að þýða upprunalegu bloggin, það tæki alltof langan tíma. Utan þess rita ég svo háfleygan texta að ég þyrfti á orðabók að halda. Sem óneitanlega hefði áhrif á íslenskt orðalag mitt og á endanum væri ég þar af leiðandi farin að skrifa í hringi.
Circumsized thoughts?
Þessar hugsanir eru tilkomnar vegna vináttu minnar við Bandaríkjamann sem sendir mér reglulega SMS. Yfirleitt spjöllum við saman um súkkulaðiís og stundum . . . Skandinavíu. Sá hinn sami bjó einu sinni í Svíþjóð og þykist vita allt um Norðurlöndin.
Það var hann sem sagði mér að Ísland væri ekki hluti af umræddri "álfu", að landið okkar væri í raun og veru einungis eitt af Norðurlandaþjóðunum og að Skandinavía samanstandi eingöngu af Svíþjóð og Noregi. Fyrrnefnda landið segir hann reyndar hið eina sanna land Skandinavíu (að Noregi undanskildum, þó honum sé þvert um geð að ræða þá frændur okkar frekar).
"You are nordic, Klara!" Svo hlær hann að mér.
Ég reyni vanmáttug að segja honum að eigi hann við skagann góða, hljóti örlítil ræma af Finnlandi að tilheyra Skandinavíu líka. Ekki allt landsvæðið þó, heldur einungis hluti þess.
Danmörk tilheyri því, samkvæmt þessari landfræðilegu formúlu, ekki heldur Skandinavíu. Um daginn reyndi ég að útskýra fyrir honum að Ísland væri reyndar hluti af Skandinavíu í menningarlegu og pólitísku nútímasamhengi þó skaginn sjálfur spanni aðeins Svíþjóð og Noreg.
Vitnaði ég meira að segja í Norðurlandaráð í því samhengi og var komin að því að bresta í grát þegar maðurinn hélt áfram að hlæja að mér. "Hugtakið Skandinavía" sagði ég á bjagaðri ensku (og studdist við rafræna orðabók um leið) "hefur enga einhlíta merkingu". Óþarft er að taka fram að ég fann mjög til vitneskju minnar og getu til að skrifa svona flókin orð á öðru tungumáli. Um hríð ætlaði ég að bæta við "góði minn" sem útleggst einfaldlega sem "dear" á ensku, en hætti við. Til að koma vitneskju áleiðis, er betra að tala ekki niður til fólks. Það skilar nefnilega minni árangri.
Þá sagði ég honum að hugtakið Skandinavía gengdi hlutverki samheitis yfir Norðurlöndin. Að margir telji ekki eingöngu Danmörku, Svíþjóð og Noreg til Skandinavíu heldur líti þeir sömu einnig á Finnland, Ísland, Færeyjar, Grænland og Áland sem hluta af fyrrgreindum landhópi.
Ekki að ég viti nokkurn skapaðan hlut um Áland.
Hann varð bara reiður og sagði að ég væri vitlaus.
Ég er, þegar hér er komið sögu, löngu hætt að diskótera landfræðilega staðsetningu Íslands við þennan bandaríska vin minn, þann sama og sendir mér stundum SMS. Aftur á móti hef ég í kjölfarið hugleitt uppruna minn af mikilli elju og dugnaði, flett fyrrgreindum hugtökum endurtekið upp í hinum ýmsu alfræðiritum, yfirheyrt föður minn um hið sanna eðli uppruna okkar (hann var reyndar sammála hinum bandaríska vini mínum) og endaði á þvi að brenna eftirfarandi klausu, sem ég fann á Wikipedia, djúpt í fylgsni huga míns:
"Engilsaxneska merking orðsins Skandinavía er Noregur, Svíþjóð og Danmörk og sumir telja Finnland og Ísland til Skandinavíu. En eins og áður sagði er merkingin líklega upprunalega landfræðilegs eðlis og nær ekki til "skagans" sem á gömlum kortum er oft sýndur sem eyja og Ísland því alls ekki hluti Skandinavíu. Ekki er ósennilegt að hinn norræni skyldleiki íbúa þessara landa, ásamt þeirri staðreynd að löndin fimm eru hin svokölluðu Norðurlönd, valdi þvi að Danmörk, Ísland og Finnland séu talin með Skandinavíu."
Athugasemdir mannsins gerðu mig um hríð ofurlítið óörugga gagnvart hinum Norðurlöndunum og skóku minn annars ferhyrnda heim, þar til ég hafði lesið nægju mína um eigin uppruna og staðsetningu á jarðarkringlunni.
Þó frétti ég um daginn að ófáir samlandar vinar míns eigi erfitt með að staðsetja Ísland innan Evrópu þar sem eyjan er aðskilin meginlandinu og "flýtur" stök í Norðurhafi. Ófáir ameríkanar staðhæfa fastlega að Ísland geti ekki verið hluti af Evrópu, þar sem strendur ber við haf allt um kring og engin landamæri er að finna hérlendis, önnur en innlend sýslumörk.
Þrátt fyrir að hafa hert upp hugann, snýtt mér í mjúkan vasaklút svo lítið bar á og dustað rykið af gráu sellunum er ég enn litlu nær. Bergmálar hinn bandaríski vinur minn einfaldlega skellihlátri Svía, sem gera óspart grín að landfræðilegum misskilngi íslensku þjóðarinnar, eða endurspegla orð hans gríðarlega meginlandsdýrkun ameríkana?
Ég gefst upp.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)