Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Gleymdu ekki gömlum vini, þó aðrir gefist nýjir - Jón Sigurðsson (17. júní 1811 – 7. desember 1879)

 

Alþing á að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðarandann, skólinn á að tendra hið andliga ljós , og hið andliga afl, og veita alla þá þekkíngu sem gjöra má menn hæfiliga til framkvæmdar öllu góðu, sem

 

Jón Sigurðsson (17. júní 1811 – 7. desember 1879) skildi að íslenska þjóðin er ekki bara landsvæði eða stjórnsýsla heldur lifandi samfélag þar sem menntun, menning og atvinnulíf þurfa að styðja við hvort annað til að skapa raunverulegt sjálfstæði þjóðar okkar.

Þessi orð, eða tilvísun, endurspegla um svo margt hugsjónir þeirrar sjálfstæðisbaráttu sem íslenska þjóðin hafði háð um langt skeið áður en til stofnunar lýðveldis kom.

Í orðum gamla forsetans endurspeglast sú hugsjón að Alþingi eigi að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðaranda okkar Íslendinga þrótti.

- Alþingi á að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðarandann:

Alþingi er ekki aðeins ætlað að vera stofnun sem setur lög, heldur umbótaafl sem leiðir þjóðina og styður sjálfstæða hugsun og sjálfsmynd okkar Íslendinga. Í orðum Jóns endurspeglast kjarni sjálfstæðishugsjóna heillar þjóðar; að stjórna ekki heldur að efla þjóðina sem lifandi samfélag.

- Skólinn á að tendra hið andlega ljós og hið andlega afl:

Menntun er ekki bara staðreyndalærdómur – heldur er menntun ætlað að móta innri styrk, sjálfstæða hugsun nemenda og tendra hæfileika hvers einstaklings til að láta gott af sér leiða og framkvæma góð verk. Þetta er sú hugsjón sem Jón forseti brann fyrir; að menntun væri ekki aðeins auðgandi afl fyrir einstaklinginn sjálfan heldur hugarauður sem gagnaðist þjóðfélaginu öllu.

- Verzlunin á að styrkja þjóðaraflið líkamlega, færa velmegun í landið og efla atvinnuvegi:

Efnahagslegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar var veigamikill þáttur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en Jón Sigurðsson vissi mætavel að enginn getur verið raunverulega frjáls ef hann er efnahagslega háður öðrum – sem og reyndin var – áður en þjóðin lýsti yfir fullveldi. Þess vegna byggði sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar á hugsjónum sem sneru að sterkum atvinnuvegi, öflugri verslun og aukinni nýsköpun. Það er ekkert nýtt undir sólinni í þeim efnum.

- Andleg og efnisleg velmegun haldast í hendur:

Jón forseti sá fyrir sér þjóð sem væri jafnt sjálfstæð í huga og hag. Ekki væri nóg að vera frjáls í pólitískum skilningi þeirra orða – þjóðin yrði líka að geta skapað sér efnahagslegt sjálfstæði; efnahagslegt frelsi og aðgengi að menntun yrðu að haldast í hendur.

Hann skildi að sjálfstæði er ekki einungis pólitískt afl – heldur andlegur, menningarlegur og efnahagslegur auður. Alþingi er ætlað að leiða þjóðina í stað þess að stjórna þjóðinni. Menntun er lykillinn að hinu raunverulega frelsi og efnahagslegt sjálfstæði er þjóðinni jafn mikilvægt og pólitískt sjálfstæði. Hið andlega og efnislega styðja hvort annað og mynda grunn að sterku samfélagi.

Hugsjónir Jóns Sigurðssonar eiga jafn vel við í dag og á nítjándu öld og endurspegla í raun magnaða innsýn í mótun sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar, sem byggði á langt um meira en aðeins löggjafarvaldi.

Þessar hugsjónir snúast um þá hugmyndafræði sem byggði upp heila, sjálfstæða þjóð – ekki um einn flokk eða hagsmunasjónarmið, heldur um hina raunverulegu sjálfstæðishugsjón sem Jón Sigurðsson barðist fyrir og sem endurspeglaðist í stofnun lýðveldisins.

Mér finnst þetta fallegt.


Frelsi er ekki sjálfsprottið heldur dýrmæt arfleifð

Og enn hljóma í eyrum mér orð Emmanuel Macron, sem fyrr á þessu ári sagði að framtíð Evrópu yrði hvorki ráðin í Washington né Moskvu.
 
Nýleg ummæli Carla Sands, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku, Grænlandi og Færeyjum, renna enn frekari stoðum undir orð Frakklandsforseta, en það var einmitt Macron sem sagði fyrir skemmstu að heimsbyggðin væri að stíga inn í nýtt tímabil þar sem valdahlutföll heimsbyggðarinnar væru að breytast.
 
Og það er rétt, þar sem nýjar valdablokkir rísa nú umhverfis Bandaríkin, Rússland og Kína.
 
Sands segir Grænland gegna lykilhlutverki í hinu geópólitíska valdatafli stórveldanna þriggja og leggur áherslu á að Bandaríkin þurfi að efla hernaðarlegt öryggi sitt á norðurslóðum, sem feli í sér að bandarísk stjórnvöld telji sig nú þurfa bein og óskipt hernaðarleg yfirráð yfir Grænlandi til að standa styrkari gegn útþenslu Kína og Rússlands.
 
Það var einmitt á fyrsta kjörtímabili Trumps sem Bandaríkin opnuðu ræðismannsskrifstofu á Grænlandi, sem var augljós tilraun til að treysta eigin ítök á norðurslóðum og færa Grænland nær Washington.
 
Á sama tíma reyndu Kínverjar að draga Grænland inn í sína áætlun, Belti og Braut, sem er lykilþáttur í efnahagslegri útþenslustefnu Kína og eitt helsta tæki Kínverja til að auka eigin áhrif á heimsvísu.
 
Trump hefur ítrekað fullyrt að Grænland ætti að tilheyra Bandaríkjunum, en sú yfirlýsing endurspeglar breytta skilgreiningu á öryggishagsmunum Bandaríkjanna sem nú beinast í auknum mæli að norðurslóðum.
 
Í raun er þetta líka skýr staðfesting á landfræðilegri útþenslustefnu Bandaríkjanna en Sands staðhæfir jafnframt að Danmörk sé með öllu vanmáttug til að verja Grænland, bæði í hernaðarlegu tilliti og hvað varðar samfélagslega sjálfbærni.
 
Að hennar mati skortir danska konungsríkið einfaldlega þá fjármuni sem til þarf.
 
En af hverju ætti það að vera satt?
 
Hver skilgreinir hvaða þjóðir hafa burði til að fara með eigin stjórn?
 
Ef Grænlendingar sjálfir eða danska konungsveldið myndu í blindni bregðast við kröfum Bandaríkjamanna af auðmýkt væri slíkt í raun yfirlýsing um afsal fullveldis – án þess að slík opinber krafa hefði einu sinni verið sett fram af hálfu annars ríkis.
 
Slík skilyrðislaus undirgefni er ekki aðeins hættuleg heldur myndi hún einnig skapa skaðlegt fordæmi fyrir önnur smáríki, þar á meðal Ísland.
 
Við erum að verða vitni að sögulegri umbyltingu alþjóðlegs valdajafnvægis sem mun umbreyta þeirri heimsmynd sem við höfum búið við í áratugi.
 
Af þeirri ástæðu er íslenskum stjórnvöldum nú orðin brýn nauðsyn að skilgreina af myndugleika stöðu Íslands sem fullvalda ríkis með skýrum og sjálfstæðum vilja.
 
Við lifum á tímum þar sem heimurinn er samtengdur með áður óþekktum hætti og alþjóðlegar áskoranir sem eitt sinn virtust fjarlægar geta nú haft bein áhrif á okkur öll.
 
Í síbreytilegu landslagi alþjóðamála skiptir nefnilega ekki bara máli hvaða skuldbindingum ríki gangast við, heldur líka hvaða gildi þau hafa að verja og hversu sterkt traust ríkir á milli grannþjóða.
 
Friðsamlegir hagsmunir smáþjóða eru nefnilega fólgnir í gagnkvæmu trausti meðal grannþjóða og á því grundvallast raunverulegt þjóðaröryggi.
 
Sagan sýnir okkur að frelsi er ekki sjálfsprottið, heldur er frelsi dýrmæt arfleifð sem nærist á samstöðu, ábyrgð og gagnkvæmri virðingu fyrir grundvallargildum lýðræðisríkja.
 
Þar sem traust ríkir blómstrar frelsi, en þar sem að frelsi er vegið opnast gáttir óvissu og óstöðugleika.
 
Það er því sameiginleg ábyrgð okkar allra; stjórnvalda, stjórnsýslu og almennings, að viðhalda þeim grunngildum sem hafa gert Ísland að því frjálsa samfélagi sem það er í dag.
 
Við megum aldrei líta svo á að lýðræði, traust eða frelsi séu sjálfgefin fyrirbæri.
 
Þvert á móti krefst slíkt árvekni, alúðar og samstöðu.
 
Ísland er og á að vera hluti af þeim hópi þjóða sem standa vörð um þessi gildi.
 
Þess vegna ber okkur að horfa fram á veginn með skýra sýn og af ábyrgð, staðráðin í því að byggja framtíð eigin þjóðar á þeim trausta grunni sem lýðveldið Ísland er reist á.
 
Nú er tími til að treysta hvert öðru, standa vörð um þau gildi sem skipta öryggi Íslands mestu máli og taka af skarið fyrir komandi kynslóðir.
 
Framtíð íslenska lýðveldisins verður hvorki skilgreind af landfræðilegri staðsetningu né mannfjölda íslensku þjóðarinnar, heldur styrk þeirra gilda sem íslenska þjóðin velur að verja.

mbl.is Vilja ýta Rússum og Kína frá Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband