Færsluflokkur: Matur og drykkur
Miðvikudagur, 21. mars 2007
Með tungubroddinum
"Unaður bragðsins er staðsettur í tungunni og gómnum, þótt það eigi ekki upphaf sitt þar heldur í minningunni. Og gildur hluti þessa unaðar felst í hinum skilningarvitunum, sjón, ilman, snertingu og líka heyrn. Í tevenjum Japana er bragðið af teinu það sem minnstu máli skiptir - það er í rauninni rammt - en hin heiðríka friðsæld nakinna veggja, hreinlegar línur skálanna, tignin sem hvílir yfir athöfninni, nákvæmar og samstilltar hreyfingar þess sem býður teið, hin hljóða þökk þess sem þiggur það, daufur ilmur af viði og kolum, hljóðið er þögnin er rofin og vatninu ausið með trésleifinni; allt er þetta hátíð fyrir sálina og skilningarvitin."
Það er engin önnur en Isabel Allende sem skráði þessi orð og má finna þau í bókinni Afródíta; sögur, uppskriftir og önnur kynörvandi fyrirbæri. Mig langar ávallt að klæðast kímonó, bera te á borð og lita veggina postulínshvíta í hvert sinn sem ég les þessi orð.
Lygna aftur augunum og vera ein í takt við telaufin.
Ritið hefur staðið í hillunni hjá mér um þó nokkurt skeið og ég glugga stundum í það á síðkvöldum þegar ég er ein. Þarna er að finna dásamlegar sagnir af soldánum í 1001 nótt og sjálfum Múhamed, hræðilega fitandi eggjahristingi sem tengdamóðir Isabel blandaði henni þegar hún hafði börn sín á brjósti og svo einnig þó ótrúlegt megi virðast, umfjöllun um mannasiði.
"Fjögur boðorð brenndu sig inn í sálina strax á frumskeiði æskunnar og áttu að tryggja að úr mér yrði sómasamleg frú;" ritar Isabel í upphafi kaflans sem ber heitið Mannasiðir. "sestu með fæturna saman, gakktu beint áfram, viðraðu ekki skoðanir þínar og borðaðu eins og fulorðna fólkið."
Ég iða alltaf léttilega í stólnum við lestur þessara orða. Langar að dingla löppunum, valhoppa á ská, viðra róttækar skoðanir mínar og borða matinn með skeið. Það eitt að alast upp í Suður Ameríku á umræddum tíma hlýtur að hafa verið ævintýri út af fyrir sig.
Isabel er manneskja matarástríðu og mikilfenglegra orða. Henni er einnig í lófa lagið að lofa verk annarra höfunda, sem hún laumar að milli umfjallanna um Forboðin Grös (sá kafli fjallar um grös og kryddjurtir sem voru bönnuð í klaustri Hinna berfættu systra þeirra fátæku vegna kynörvandi áhrifa sinna.)
Á listanum er að finna basilíku, engifer, karrí og lárviðarlauf svo eitthvað sé nefnt. Ljúfa gesti sem flesta er að finna í eldhússkápum í dag og erfitt er að gera sér í hugarlund að einhverju sinni hafi fyrrgreind hráefni verið bönnuð vegna orku sinnar og máttar.
Mig rak þó í rogastans þegar ég fletti í fyrsta sinn yfir kaflann sem hefst á frásögninni af "Lolu Montez, spænskri dansmey af aðalsfólki komin þó hún vissi ekkert um dans og ekki spænskur dropi í blóðinu, en það sem skorti af hæfileikum og ættgöfgi bætti hún upp með dirfskunni."
Orðin framkalla samstundis fram í huga mér mynd af logandi ástríðufullri dökkleitri konu í þéttum holdum, alsettri skarti með dýrindis blævæng, sindrandi af sjálfstrausti og lífsneista.
"Þegar Lola Montez var í einrúmi með viðskiptavinum" bætir Isabel dreymin við "notaði hún venjulega ofsafenginn köngulóardansinn sem yfirvarp til að tína af sér slæðurnar, en gerði samt ekki þau mistök að fara úr öllu; hún kaus frekar að sýna töfrana í blúnduþyrli sem dró fram ágæti hörundsins og huldi það sem síður var fullkomið í vextinum."
Ég ímynda mér ávallt að bragðlaukar Lolu hafi notið ásta með sítrusávöxtum, safaríkum melónum og smjörsteiktum kjúkling á teini. Sem ómótstæðilegur kynþokki hennar hefur kryddað með dillandi hlátri og brosmildu augnaráði sem gaf aldrei meir upp en nauðsynlegt var.
Að elskhugar hennar hafi örmagnast af aðdáun áður en eftirrétturinn var einu sinni borinn fram.
Ég glugga oft í bókina góðu áður en ég loka augunum á kvöldin. Leyfi bragðlaukunum að gæla við minningar af löngu liðnum réttum, sem eitt sinn voru bornir fyrir mig og ég fæ aldrei að snæða aftur. Súkkulaðikökuna hennar Klöru ömmu sem ég á mynd af, hún var bökuð og borin á borð á tveggja ára afmælinu mínu. Yello-ið sem Guðmunda langamma bar alltaf fram á jólum, það innihélt niðursneidda banana og færði okkur fjölskyldunni himnaríki á jörðu.
Hegðun minna fegurstu kvenna var gerólík því sem Lola sýndi gjarna af sér. Hvorug þeirra steig köngulóardansinn og þær drógu aldrei menn á tálar. En þær voru sannar konur og sýndu af sér yndisþokka sem bar svo af, að um var rætt langt út fyrir andlát beggja. Hvernig sem það nú hljómar minnist ég enn langömmu minnar, þegar ég bragða á vel ristuðu brauði með vel útilátinni ostsneið og engin Sacher terta kemur í stað sneiðarinnar sem ég fékk í afmælisgjöf, þá tveggja ára að aldri.
Í kvöldhúminu renna sagnir Isabel í bland við uppskriftir af suðuramerískri matarástríðu saman við fátæklegar minningar mínar af fegurstu konum sem ég hef augum litið um ævina, ættmæðrum mínum sem héldu mér hugfanginni með töfrum líkum blúnduþyrli sem dró fram ágæti sálarinnar ... og það í eldhúsinu.
Isabel hefur það fyrir satt; unaður bragðsins á sannlega upphaf í minningunni.