Ég myndi aldrei útvarpa neinu sem kalla mætti klám

Ég var að stofna bloggsíðu. Hef verið að "browsa" gegnum valmöguleika síðunnar og rakst á annars ágætis flipa sem ber nafnið "LÖG". Vongóð um að gæða síðuna mínum blíðum andvara rómantískra laga eftir erlenda höfunda, sem eru í uppáhaldi hjá mér sem stendur, smellti ég því á flipann.

Efst á síðunni fann ég aftur á móti eftirfarandi upplýsingatexta. Þar sem mér er mikið í mun að særa ekki blygðunarkennd Morgunblaðsins, sem heldur þessum bloggsíðum úti, las ég hlýðin yfir innihald klausunnar. Fyrsta setningin vekur undrun mína.

"Óhemilt er að setja inn á síðuna hvers kyns ærumeiðandi eða ólöglegt efni."

Það hvarflar ekki að mér að setja inn klám á eigin bloggsíðu. Dettur ekkert annað í hug sem gæti verið ærumeiðandi, sbr öflug mótmæli feminista undanfarna daga vegna særandi líkamsburðar fermingarbarna framan á auglýsingabækling Smáralindarinnar.

Auðvitað gæti ég þó einnig brotist inn í öryggismyndavélar lögreglu sem sýna umferð á Lækjartorgi og sett upp útsendingu á forsíðu minni. Að útvarpa ferðalagi gangandi vegfarenda er þó eflaust ólöglegt. Að ég tali nú ekki um hegðun fólks eftir miðnætti á laugardögum. Ég myndi aldrei gera slíkt, sjónvarpa upptökum á hinum almenna borgara og hegðun fólks með æsingaróráðsheilkenni. Ég yrði eflaust kærð fyrir Persónuvernd fyrir brot á lögum.

Samþykki því skilmála fyrstu málsgreinar umyrðalaust og held áfram með lesturinn.

 "Notkun á texta, skjölum, hugbúnaði, myndböndum, tónlist og öðru höfundarréttarvörðu efni á síðunni er óheimil nema með samþykki rétthafa."

Guð. Og ég sem var að hugsa um að setja inn lag með Erykah Badu. En leiðinlegt. Ætti ég að hafa samband við hana út og biðja um leyfi, útskýra fyrir henni hvað ég er rómantísk og hvað lögin hennar, sem eru reyndar mjög smart, ættu vel heima á síðunni minni? Myndi Erykah skilja tilgang minn, jafnvel gefa leyfi fyrir gömlu lagi, sem hún er komin með leið á að spila?

Hvað ef Erykah myndi segja já, en Mogginn myndi ekki trúa mér?

"Slíkt efni verður fjarlægt að beiðni rétthafa."  

Ég er ekki viss um að Erykah hafi samband við Morgunblaðið og krefjist þess að vefsíðunni minni verði lokað. Jafnvel þó lögin hennar ómi ljúflega undir blogginu mínu. Erykah yrði eflaust stolt af þessari síðu, en sennilegast færi hún fram á STEF gjöld vegna tónflutningsins. Af hverju væri hún annars að gefa tónlist út?

"Ef notandi bloggsíðu gerist sekur um að setja höfundarréttarvarið efni inn á síðu oftar en einu sinni áskilur Morgunblaðið sér rétt til þess að loka viðkomandi síðu." 

Það er nefnilega það.

Getur einhver sagt mér hvernig ég sæki um höfundarétt á stökum setningum?


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og níu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband