Kona; þekktu rætur þínar

I´d like to record my blogs in english for all my fans out there.

En það myndi aldrei ganga upp. Í fyrsta lagi fæ ég svo margar hugmyndir á degi hverjum, að ég yrði eiginlega að skrifa eitt blogg á íslensku og annað á ensku. Ekki nenni ég að þýða upprunalegu bloggin, það tæki alltof langan tíma. Utan þess rita ég svo háfleygan texta að ég þyrfti á orðabók að halda. Sem óneitanlega hefði áhrif á íslenskt orðalag mitt og á endanum væri ég þar af leiðandi farin að skrifa í hringi.

Circumsized thoughts?

Þessar hugsanir eru tilkomnar vegna vináttu minnar við Bandaríkjamann sem sendir mér reglulega SMS. Yfirleitt spjöllum við saman um súkkulaðiís og stundum . . . Skandinavíu. Sá hinn sami bjó einu sinni í Svíþjóð og þykist vita allt um Norðurlöndin.

Það var hann sem sagði mér að Ísland væri ekki hluti af umræddri "álfu", að landið okkar væri í raun og veru einungis eitt af Norðurlandaþjóðunum og að Skandinavía samanstandi eingöngu af Svíþjóð og Noregi. Fyrrnefnda landið segir hann reyndar hið eina sanna land Skandinavíu (að Noregi undanskildum, þó honum sé þvert um geð að ræða þá frændur okkar frekar).

"You are nordic, Klara!"  Svo hlær hann að mér.

Ég reyni vanmáttug að segja honum að eigi hann við skagann góða, hljóti örlítil ræma af Finnlandi að tilheyra Skandinavíu líka. Ekki allt landsvæðið þó, heldur einungis hluti þess.

Danmörk tilheyri því, samkvæmt þessari landfræðilegu formúlu, ekki heldur Skandinavíu.  Um daginn reyndi ég að útskýra fyrir honum að Ísland væri reyndar hluti af Skandinavíu í menningarlegu og pólitísku nútímasamhengi þó skaginn sjálfur spanni aðeins Svíþjóð og Noreg.

Vitnaði ég meira að segja í Norðurlandaráð í því samhengi og var komin að því að bresta í grát þegar maðurinn hélt áfram að hlæja að mér.  "Hugtakið Skandinavía" sagði ég á bjagaðri ensku (og studdist við rafræna orðabók um leið) "hefur enga einhlíta merkingu". Óþarft er að taka fram að ég fann mjög til vitneskju minnar og getu til að skrifa svona flókin orð á öðru tungumáli. Um hríð ætlaði ég að bæta við "góði minn" sem útleggst einfaldlega sem "dear" á ensku, en hætti við. Til að koma vitneskju áleiðis, er betra að tala ekki niður til fólks. Það skilar nefnilega minni árangri.

Þá sagði ég honum að hugtakið Skandinavía gengdi hlutverki samheitis yfir Norðurlöndin. Að margir telji ekki eingöngu Danmörku, Svíþjóð og Noreg til Skandinavíu heldur líti þeir sömu einnig á Finnland, Ísland, Færeyjar, Grænland og Áland sem hluta af fyrrgreindum landhópi.

Ekki að ég viti nokkurn skapaðan hlut um Áland.

Hann varð bara reiður og sagði að ég væri vitlaus.

Ég er, þegar hér er komið sögu, löngu hætt að diskótera landfræðilega staðsetningu Íslands við þennan bandaríska vin minn, þann sama og sendir mér stundum SMS. Aftur á móti hef ég í kjölfarið hugleitt uppruna minn af mikilli elju og dugnaði, flett fyrrgreindum hugtökum endurtekið upp í hinum ýmsu alfræðiritum, yfirheyrt föður minn um hið sanna eðli uppruna okkar (hann var reyndar sammála hinum bandaríska vini mínum) og endaði á þvi að brenna eftirfarandi klausu, sem ég fann á Wikipedia, djúpt í fylgsni huga míns:

"Engilsaxneska merking orðsins Skandinavía er Noregur, Svíþjóð og Danmörk og sumir telja Finnland og Ísland til Skandinavíu. En eins og áður sagði er merkingin líklega upprunalega landfræðilegs eðlis og nær ekki til "skagans" sem á gömlum kortum er oft sýndur sem eyja og Ísland því alls ekki hluti Skandinavíu. Ekki er ósennilegt að hinn norræni skyldleiki íbúa þessara landa, ásamt þeirri staðreynd að löndin fimm eru hin svokölluðu Norðurlönd, valdi þvi að Danmörk, Ísland og Finnland séu talin með Skandinavíu."

Athugasemdir mannsins gerðu mig um hríð ofurlítið óörugga gagnvart hinum Norðurlöndunum og skóku minn annars ferhyrnda heim, þar til ég hafði lesið nægju mína um eigin uppruna og staðsetningu á jarðarkringlunni.

Þó frétti ég um daginn að ófáir samlandar vinar míns eigi erfitt með að staðsetja Ísland innan Evrópu þar sem eyjan er aðskilin meginlandinu og "flýtur" stök í Norðurhafi. Ófáir ameríkanar staðhæfa fastlega að Ísland geti ekki verið hluti af Evrópu, þar sem strendur ber við haf allt um kring og engin landamæri er að finna hérlendis, önnur en innlend sýslumörk.

Þrátt fyrir að hafa hert upp hugann, snýtt mér í mjúkan vasaklút svo lítið bar á og dustað rykið af gráu sellunum er ég enn litlu nær. Bergmálar hinn bandaríski vinur minn einfaldlega skellihlátri Svía, sem gera óspart grín að landfræðilegum misskilngi íslensku þjóðarinnar, eða endurspegla orð hans gríðarlega meginlandsdýrkun ameríkana?

Ég gefst upp.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband