Hvað varð um Giddagúdd?

Orðið sjálft framkallar samstundis minningar af Giddagúdd, ímyndaðri vinkonu sem ég eignaðist þegar ég var þriggja ára. Guðlegri veru sem hikaði ekki við að beita andlegum hártogunum, þegar skoðanir okkar voru á öndverðum meiði.

Ég minnist þess að hafa deilt um leikferðir út í bakgarð við Giddagúdd og óttast nærveru Kuldabola, sem var jafn raunverulegur fyrir mér og amma hans, sem í mínum huga, var sjálfur holdgervingur djöfulsins.

"Passaðu mig, Giddagúdd" var ég vön að öskra barnarómi þegar amma hans kom nálægt.

Kuldaboli var gjarna illviljaður og reyndi stundum að bíta í nefið á mér. Þar sem allar verurnar voru ímyndaðar, hlaut nefið á mér að sjálfsögðu engar skrámur. Það er mjög erfitt að bíta í eigið nef.

Engu að síður deildum við um nauðsynjar lands og þjóðar. Giddagúdd tók yfirleitt afstöðu með mér á endanum, Kuldaboli reyndi allt sem hann gat til að eyðileggja áætlanir okkar og amma hans, tjah, hún lúrði yfirleitt í bakgrunni og hló viðstöðulaust ef ég missti dúkkuna mína í gólfið.

"Hættu þessu!" æpti ég þá ákveðin upp og fyllti með því, móður mína skelfingu.

"Hver er hjá þér, Klara mín?" heyrði ég stundum úr hinu herberginu.

"Enginn" svaraði ég óttasleginni móður minni og hélt áfram að tala í fjölbreytilegum blæbrigðum.

Ég man ekki hvenær Giddagúdd dó. Sennilegast um það leyti sem ég byrjaði í skóla. Bekkjarsystkyni mín hefðu aldrei sýnt ímynduðum vinum mínum skilning, né borið virðingu fyrir tilvist þeirra. "En það er enginn þarna, Klara" hefðu þau bara sagt og hlegið að mér.

Um það leyti sem ég hóf skólagöngu mína, lærði ég þar af leiðandi að hugsa í hljóði.

Þar sem ég sit hér við borðstofuborðið, íklædd appelsínugulum inniskóm með úfið hár (ég á ekki greiðu) rifjast ævintýri sjálfrar mín óðum upp. Áfengislagafrumvarpið ýtti við mér. Eru til ímyndaðir vinir? Var ég skyggn þegar ég var lítil? Var amma hans Kuldabola illur andi sem ofsótti mig á Snorrabrautinni? Giddagúdd verndarengill sem gætti mín og ég talaði fyrir í gæsku minni? Hver var Kuldaboli? Snarpur norðanvindur eða villuráfandi sál? Var ég geðveik sem barn?

Um hvað, raunverulega, snerist ljóðrænn harmur minn þegar ég var lítil?

Ég hef afskaplega gaman að rökræðum. Sér í lagi þeim sem fela í sér algengar rökvillur, (að vísu er ég búin að týna kaffibollanum) og dáist að tærum grundvallarlögmálum siðfræðinnar. Ég beiti þeim óspart í samtölum við sjálfa mig og rífst gjarna yfir kaffibolla hér á blogginu, en þá einungis við eigið sjálf. Fyrir kemur að ég fletti upp í bókinni "Siðfræði lífs og dauða" sem skrásett var af Vilhjálmi Árnasyni, en ritið hefur yljað mér ófáar andvökunætur og jafnvel hindrað heilbrigðan nætursvefn.

Maðurinn er nátturulega ekkert annað en poppstjarna í heimi siðfræðinnar.

Ég hef einu sinni talað við hann í síma.

Með hvaða hætti skyldi efla atvinnumöguleika á landsbyggðinni? Hvað finnst mér raunverulega um hugmyndir Samfylkingarinnar sem fela í sér "Störf án staðsetningar?" Eiga allar skoðanir jafnan rétt á sér? Myndi nauðgunum fækka ef melluhverfi yrði sett upp í Norðurmýrinni? Af hverju er ég með svona háar tekjur? Er ég frekari en annað fólk? Eru Sjálfstæðismenn góðu gæjarnir? Hvers vegna verða menn hommar? Hefur Jón Valur rétt fyrir sér? Af hverju er Páll Skúlason svona frægur og hvað eru bækurnar hans að gera heima hjá mér?

*seiðandi fingursmellir*

Ó, þú fagra veröld.

Þess ber að geta að ég hafði ekki hugrekki til að bera fyrrgreindar spurningar undir Vilhjálm þegar við ræddum stuttlega þýðingar á erlendum sjálfshjálparritum og þann möguleika að óska aðstoðar fræðimanna Háskóla Íslands.  

Hvað varð eiginlega um Giddagúdd? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Skemmtileg lesnins..ég bý yfir afskaplega töfrandi sögu um ósýnilegan vin sonar míns þegar hann var þriggja ára og mjög óvæntum endi. Kannski ég skrifi hana bráðum á bloggið mitt.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 22.3.2007 kl. 17:47

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ef ég ætti að veðja á Jón Val, myndi ég skjóta á að hann hefði rétt fyrir sér einu sinni á ári og stundum þegar hann er spurður hvað klukkan er.

Held að þetta sé Giddagúdd sem heldur út þessari bloggsíðu en Klara sé ímyndaði vinurinn í tölvuheimum

Heiða B. Heiðars, 22.3.2007 kl. 18:03

3 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Virkilega skemmtilegt blogg.

Minnir mig á Jón Sig. 

Tómas Þóroddsson, 22.3.2007 kl. 23:54

4 Smámynd: Klara Nótt Egilson

Með því ertu auðvitað að vitna í forsetann. Alveg sammála. Ég er soldið lík Jóni Sig. Sem var uppi fyrir löngu. Töff gaur. Kærar þakkir hjartagull. Þú heldur sjálfur úti skemmtilegri síðu.  

Klara Nótt Egilson, 23.3.2007 kl. 00:02

5 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Nei Jón Sig í framsókn átti ímyndaðan vin, sem var alltaf að leika sér við strákinn í næsta húsi, þessvegna er Jón svona.

Annars flottar sögur hjá þér. 

Tómas Þóroddsson, 23.3.2007 kl. 08:54

6 Smámynd: Klara Nótt Egilson

Þú ert auðvitað að vitna í hann Jón litla Sig. Hann er fyndinn. Í alvöru talað.

Hin tillagan var einnig hrífandi. Andlit mitt prentað á peningaseðla. Því má bæta við að ég myndi vilja fá bloggmyndina á seðilinn. Tíúskjell?  

*einræðiskippur*

Klara Nótt Egilson, 23.3.2007 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband