Föstudagur, 23. mars 2007
Cry me a river
"Þú verður að kjósa rétt, Klara mín" var faðir minn vanur að segja hér áður fyrr. "Kannski best sé að við fylgjum henni í kjörklefann" klykkti konan hans yfirleitt út með og svo var hlegið. Alveg viðstöðulaust. Mér finnst þetta ennþá fyndið. Hugarflugið og harkan í föðurfólki mínu nær út fyrir eðlileg endamörk heims og þjóða.
Sjálf hef ég aldrei talist sérstaklega pólitísk manneskja. Ég, manneskja á fertugsaldri, hef eftir fremsta megni forðast að mynda mér skoðanir og geng enn um í hettupeysu. "Mamma, þú ert eins og barn í laginu" sagði sonur minn um daginn er hann gekk fyrir aftan mig upp tröppurnar sem liggja heim til mömmu. "Ég gæti verið faðir þinn, svona séð aftan frá."
Ég velti hugmyndinni fyrir mér um hríð. Jafn töfrandi og fullkomið ábyrgðarleysi kann að líta út í fjarskanum, er barnæskan á enda. "Þetta er búið, krakkar" umla ég í huganum við ritun færslunnar. "Þeir vilja kalla mig til ábyrgðar á blogginu." Í kjölfarið fylgir andvarp. "Málpípa stjórnarandstöðunnar?" klingir djúpt í hugarfylgsnum mínum. "Nauðug" svara ég að bragði.
Giddagúdd hlær í fjarskanum og slær á hné sér. "Hann er klikkaður þessi maður" segir hún.
Ég nenni ekki að svara. Enda veit ég ekkert hvern hún er að vitna í. Alltof margir sem skeyttu athugasemdum við bloggið mitt í gær. Málefnalegt raus verður þreytandi með tímanum.
"Ég múlbatt hann" svara ég geðvonskuleg á endanum.
"Af hverju gerðirðu það?" spyr Giddagúdd. "Þú áttir að svara honum."
Ég veit það. Veit að Giddagúdd hefur rétt fyrir sér, en ég nenni ekki að svara. Nenni ekki að svara Giddagúdd og nenni ekki að ræða við manninn. Giddagúdd hefur rétt fyrir sér. Hann er klikkaður.
"Þarna voru nú góðir punktar" klykkir vinkona mín út í huganum. "Eins og til dæmis hann vinur þinn sem grét heila á" og ég get ekki annað en hlegið. Hlæ að hugvitsemi Giddagúdd og óvæntri áskorun, þessari beiðni um einvígi er hann reyndi í einlægni að koma til vegs og vitundar, þegar hann kom stormandi inn á bloggið mitt í gær.
"Af hverju heldurðu að hann hafi aldrei skrifað í gestabókina?" spyr ég einfaldlega og horfi bláeyg í augu alvitringsins. "Hann hefur bara ætlað að snapa fæt" smellir Giddagúdd fram og glottir við tönn.
"Á, ég hafði gaman að þessu. Anti-climaxinn kom mér skemmtilega á óvart. Eins og ég ætti að stýra pólitískri fullnægju mannsins og væri sett hér inn á blogg til að enterteina. Ég vissi ekki að ókunnugir menn kæmu hingað til að lesa hugsanir mínar, hvað þá til að climaxa?"
Svipurinn á mér er farinn að léttast. Giddagúdd kemur mér alltaf til að hlæja.
"En þú ert búin að vera að gera það, skrifa fyrir alþjóð. Hvað veist þú um hverjir lesa þetta? Ertu kannski með IP tölur á lista? Samning við Moggann? Ferð yfir töluna og skrásetur fyrir komma?"
Guð almáttugur, Giddagúdd, ég er ekki kommi. Hvernig vogar hún sér að segja þetta? Pabbi var kommi. Konan hans líka. Þau voru svarnir herstöðvarandstæðingar og fóru stolt í Keflavíkurgöngur. Mér finnst það flott hjá þeim og smart að hlusta á þeirra sögur. En ég verð seint flokkuð sem kommi og þar er komin ástæðan fyrir því að fjölskylda mín vildi ólm fylgja mér í klefann góða.
Þau vildu tryggja að réttir menn fengju landið í hendur að loknum kosningum.
"Heldurðu að það sé málið sem gengur honum vini mínum til?" spyr ég barnslega. Giddagúdd veit allt. Hún veit svörin við þjóðmálum, veit hvernig best er að ganga til kosninga, skilur skoðanakannanir og þekkir áfengisfrumvarpið miklu betur en ég.
"Nei" svarar hún að bragði. "Ég held að hann hafi bara viljað fá brennivín í búðirnar."
Athugasemdir
Ég vil vínið í búðirnar! Óþolandi að þurfa að hendast um allann bæ ef maður verslar í matinn og langar að hafa rauðvín með honum! Áfengisvandinn stækkar ekkert við það. Áfengismenning íslendinga hefur lagast með auknu frelsi og mun ekkert bera skaða af því þó fólk geti keypt sér léttvín og bjór í matvöruverslunum.
En ég er ekki jafn viss um að flakka á milli blogga til að climaxa
Heiða B. Heiðars, 23.3.2007 kl. 02:55
Ég veit ekki Heiða mín hvort þeir myndu taka undir þetta með að "áfengismenning hafi lagast með auknu frelsi" hjá SÁÁ. Ég veit ekki hvort ég er til í að halda því fram að hún hafi lagast heldur en það er önnur saga.
Hvern fjandann hefur það með Steingrím og hans drykkjuvenjur eða skort á þeim að gera, þó vi.gr. vilji ræða þetta mál alemmennilega í þinginu? Ari það ER til fólk sem setur fram skoðanir sínar á.t.t. persónulegra þægilegheita. Það er stundum kallað að hafa hugsjónir og stundum ná þær út fyrir eigin nafla. En sumum er fyrirmunað að skilja það.
Jenný Anna Baldursdóttir, 23.3.2007 kl. 12:32
Mig langar í brennivín
Gunnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 15:20
Fjandskotinn! Átti ekki að halda aftur af fallbyssunum?! Ýjar að dagdrykkjuskap og snýrð út úr hinni lunknu "and-stemmningu" svo úr verður subbuskapur?! Þetta er rakinn kafbátahernaður, stelpa
Ég veit ekki hvað þú kallar "hlaðnar kanónur" en pant vera annars staðar í það sinnið!
Jón Agnar Ólason, 24.3.2007 kl. 00:08
Ó Jón! Þér skjallið mig! *kvenlegur kinnroði*
PS. Fallegir pistlar hjá þér og látum þá pólitískt skítkast ótalið. Já, ég les og það því þú ert góður penni. Þú ýttir verulega við mér með frásögn þinni af Indriða og mig setti hljóða um langt skeið á leið heim frá vinnu, meðan ég melti innihaldið. Nei. Ég þekkti ekki Indriða. En stundum gleymi ég hinni innri merkingu lífsins í amstri hversdagsins. Þú færðir mér heim sannleikann um lífið og tilveruna; að hver dagur er samsetning ótal augnablika og að það sem mestu máli skiptir, Jón, er fólkið sem við elskum.
Til einlægrar hamingju með fæðingu stúlkubarns
Klara Nótt Egilson, 24.3.2007 kl. 00:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.