Sunnudagur, 11. apríl 2021
Spegill spegill herm þú mér
Ég er alltaf að leita einhverra leiða til að endurnýja frumur líkamans.
Auglýsingaiðnaðurinn segir mér að ég verði að gera það. "Peeling down?" spyr fögur forsíðustúlka framan á pappaspjaldi sem blasir kokhraust við mér á miðju lyfsölugólfi í Lágmúlanum. Ég andvarpa. "Hvað kostar þetta krem?" spyr ég feimnislega þegar upptekinn lyfjatæknirinn stormar fram hjá mér. Hún lítur ströngum augum á mig og mælir hörund mitt ótæpilega út.
"Þú þarft ekki svona krem, vinan" svarar hún í myndugum tón og horfir hvasseyg til baka. Mig langar mest að rífa debetkortið upp og pípa "en ég á peninga" en það væri einhvern veginn ekki við hæfi. Sveipa úlpunni þéttingsfast að mér og dæsi. Mér þykir vænt um húðina.
"Er einhver hérna sem getur frætt mig um þetta?" læði ég út um leið og hvítur stormsveipurinn hverfur bak við plástrahilluna og ég fæ að launum langan fingur. "Talaðu við hana, hún er í snyrtideildinni" og bandar í áttina að gullfallegri stúlku með brúnt hár, konu sem veit greinilega allt um farða.
Innan fimm mínútna hef ég gert mér grein fyrir gildi andoxunarefna. Lært allt um ávaxtasýrur. Veit að ég verð að skipta um krem eftir 35. Má ekki nota sama maskann meir en í mánuð. Þarf að nota toner kvölds og morgna. Taka þessa sápu, já. Ég er með blandaða húð. Þarf á raka að halda, því undir niðri er ég feit. Andlitið á mér er spikað undir yfirborðinu.
Aldrei hefði ég trúað þessu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.