"You took my boy away from me!" - Joyce Byers

ST (1) 

"Donald. I’ve been here ten years, right? Have I ever called in sick or missed a shift once? I’ve worked Christmas Eve and Thanksgiving. I don’t know where my boy is. He’s gone. I don’t know if I’m gonna ever see him again, if he’s hurt… I need this phone and two weeks’ advance. And a pack of Camels."

Joyce Byers

Stranger Things ~ S01E02 

The Weirdo on Maple Street

 

Á þessum orðum hefst lokaritgerð mín í Kvikmyndafræði sem ég lauk við Verkmenntaskólann á Akureyri á haustönn árið 2016. Ritgerðin sú ber heitið "You took my boy away from me! - Undarlegt háttalag einstæðra mæðra í bandarískum bíómyndum" og ég hló nær viðstöðulaust allt frá fyrstu efnisgrein til ritun síðasta orðs.

Ég var þá, sem nú, einstæð móðir og ábyrg fyrir velferð yngri sonar míns á grunnskólaaldri. Við mæðgin vorum þá búsett sunnan við höfuðborg frænda okkar, Norðmanna og löngun mín til að ljúka íslensku stúdentsprófi þrátt fyrir farsælan feril við blaðamennsku og ritstörf í hartnær aldarfjórðung knúði mig á þeim tíma til að leita lausna gegnum fjarnámsvef Verkmenntaskólans.

Fjarnámsáfangar við menntaskóla eru skemmtilegir viðureignar.

Ástundun fjarnáms krefst aga sem skipulags í daglegu lífi og þannig valdi ég að aka syni mínum til skóla alla virka daga, sötra Nescafé þegar heim var komið og svo hófst verkefnavinnan. Svona er það gert. Engar slaufur með vindling í vör, franska alpahúfu og dulúðugt augnaráð við lyklaborðið á dramatísku kaffihúsi. Nei, gott fólk.

Fjarnám fer fram við lúin eldhúsborð, þreytta sófa og svæfla, úr sér gengin skrifborð og undir kaldri sæng að kvöldi. Verkefnin birtast hvert af öðru í hverri viku, skilafrestur er oft knappur og kröfur kennara geta verið talsverðar. Enda á svo að vera, eigi nemandi að tileinka sér þá þekkingu sem áfanginn kveður á um.

Ég var með framúrskarandi leiðbeinanda, Sunnu Hlín Jóhannesdóttur, sem enn kennir íslensku og viðskiptagreinar við skólann og hún gaf okkur frjálsar hendur í lok annar eftir nær viðstöðulaus skil skylduverkefna. Uppglennt og örþreytt augu mín störðu því mött á bjartan skjáinn í upphafi nóvember þegar umrædd orð Sunnu birtust mér:

„Þið hafið frjálsar hendur.“

Ólæti og fjargviðri fóru nú um huga minn. Útklínd í norskum brúnosti og þvæld á svip skrifaði ég kennara nær samstundis og bar upp hugmynd mína að lokaverkefni gegnum tölvupóst. Svar hennar olli straumhvörfum í huga mér. Í stað þess að velja stakt verk kaus ég, að fengnu samþykki Sunnu, að kryfja til mergjar distópíska túlkun kvikmyndgeirans á undarlegu háttalagi einstæðra mæðra í bandarískum bíómyndum.

Olíubornar og gráar fyrir járnum; ofsafengnar í allri nálgun en sjaldnast glyðrulegar nema um hrollvekju sé að ræða lokkuðu mæður mig til fylgis við eigin áskoranir. Já. Það freistaði mín mjög að fjalla um ógiftar mæður í lokaverkefni mínu við áfangann. Þær eru enda ósviknar undirmálshetjur[1] með börn á framfæri og eru einstæðingar. Hinn dystópíski kaleikur kvikmyndaheimsins eru sauðtryggir varðhundar æskunnar og öfugt við það sem ætla mætti hafa einstæðar mæður með takmörkuð úrræði unnið stórsigra á hvíta tjaldinu undanfarna áratugi. 

Áhorfandinn óttast um afdrif þeirra og vonar samtímis að staðan verði þeirri einstæðu að lokum í vil, þó iðulega séu hverfandi líkur á sigri í upphafi leikfléttu. Þær hindranir sem handritshöfundur og leikstjóri leggja fyrir þá einstæðu glæða undirmálshetjuna trúverðugu lífi og þannig ræðst hin ógifta iðulega gegn ríkjandi fordómum samtímans á hvíta tjaldinu; þeirri villutrú að einhleypum konum með börn á framfæri sé ógerlegt að vinna sambærileg afrek og vel stæðar karlhetjur hrista áreynslulaust fram úr erminni í heimi hasarmynda. 

Einstæða móðirin fer iðulega með hlutverk hetjunnar. Mótstaðan sem hin einstæða berst gegn og hversu ómeðvituð hún er um eigin takmarkanir eru einnig þeir þættir sem gera einstæða móður að trúverðugri söguhetju. Iðulega gerir hún sér litla grein fyrir þeim hryllingi sem blasir við í upphafi leikfléttu, en lærir jafnóðum og fléttunni vindur fram sem gerir hana að trúverðugri hetju og um leið, breyskari. 

 Ýmist stendur hin einstæða frammi fyrir því að þefa upp mannræningja, jafnvel er hún að glíma við fyrrum [og hálfsturlaðan] eiginmann nema vera skyldi ef ónáttúrulegar vættir murki lífið úr aukapersónum í upphafi sögunnar. Beri svo upp hefur hin einstæða engin úrræði önnur en að vígbúast, bretta upp ermar og gera það sem hún gerir best; berjast til síðasta blóðdropa í nafni óhaminnar móðurástar.

Til undantekninga heyrir að sú einstæða fari með hlutverk illfyglis í hasarmyndum, þó vissulega sé hlutverk hinnar vondu móður ekki óþekkt [Mommy Dearest]. Einstæðar mæður eru ofurhetjur samtímans á hvíta tjaldinu, lítilmagnar sem standa vörð um sakleysið og berjast með kjafti og klóm gegn óréttlæti heimsins. Knúnar áfram af elsku og sauðtryggar, brjótast þær iðulega úr viðjum óréttlætis og bera undantekningarlaust sigur úr býtum þegar persónu þeirra ber upp í bandarískum bíómyndum. 

Þannig var það hin fantasíukennda dystópía sem einstæðar mæður hafna í, en ekki siðferðisleg togstreita þeirra sömu þegar ástin bankar að dyrum, sem átti hug minn allan í ritgerðinni góðu sem ég hreyki mér enn af. Í lokaverkefninu beindi ég því augum mínum að túlkun vondra mæðra og ég fjallaði líka um réttsýnar mæður með óbilandi baráttuþrek; venjulegar mæður sem sigra þvert á spár fróðustu manna. 

Já, það var skemmtilegt að snúa aftur í skóla. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband