Gleymdu ekki gömlum vini, þó aðrir gefist nýjir - Jón Sigurðsson (17. júní 1811 7. desember 1879)
Þriðjudagur, 18. mars 2025
Jón Sigurðsson (17. júní 1811 7. desember 1879) skildi að íslenska þjóðin er ekki bara landsvæði eða stjórnsýsla heldur lifandi samfélag þar sem menntun, menning og atvinnulíf þurfa að styðja við hvort annað til að skapa raunverulegt sjálfstæði þjóðar okkar.
Þessi orð, eða tilvísun, endurspegla um svo margt hugsjónir þeirrar sjálfstæðisbaráttu sem íslenska þjóðin hafði háð um langt skeið áður en til stofnunar lýðveldis kom.
Í orðum gamla forsetans endurspeglast sú hugsjón að Alþingi eigi að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðaranda okkar Íslendinga þrótti.
- Alþingi á að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðarandann:
Alþingi er ekki aðeins ætlað að vera stofnun sem setur lög, heldur umbótaafl sem leiðir þjóðina og styður sjálfstæða hugsun og sjálfsmynd okkar Íslendinga. Í orðum Jóns endurspeglast kjarni sjálfstæðishugsjóna heillar þjóðar; að stjórna ekki heldur að efla þjóðina sem lifandi samfélag.
- Skólinn á að tendra hið andlega ljós og hið andlega afl:
Menntun er ekki bara staðreyndalærdómur heldur er menntun ætlað að móta innri styrk, sjálfstæða hugsun nemenda og tendra hæfileika hvers einstaklings til að láta gott af sér leiða og framkvæma góð verk. Þetta er sú hugsjón sem Jón forseti brann fyrir; að menntun væri ekki aðeins auðgandi afl fyrir einstaklinginn sjálfan heldur hugarauður sem gagnaðist þjóðfélaginu öllu.
- Verzlunin á að styrkja þjóðaraflið líkamlega, færa velmegun í landið og efla atvinnuvegi:
Efnahagslegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar var veigamikill þáttur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en Jón Sigurðsson vissi mætavel að enginn getur verið raunverulega frjáls ef hann er efnahagslega háður öðrum sem og reyndin var áður en þjóðin lýsti yfir fullveldi. Þess vegna byggði sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar á hugsjónum sem sneru að sterkum atvinnuvegi, öflugri verslun og aukinni nýsköpun. Það er ekkert nýtt undir sólinni í þeim efnum.
- Andleg og efnisleg velmegun haldast í hendur:
Jón forseti sá fyrir sér þjóð sem væri jafnt sjálfstæð í huga og hag. Ekki væri nóg að vera frjáls í pólitískum skilningi þeirra orða þjóðin yrði líka að geta skapað sér efnahagslegt sjálfstæði; efnahagslegt frelsi og aðgengi að menntun yrðu að haldast í hendur.
Hann skildi að sjálfstæði er ekki einungis pólitískt afl heldur andlegur, menningarlegur og efnahagslegur auður. Alþingi er ætlað að leiða þjóðina í stað þess að stjórna þjóðinni. Menntun er lykillinn að hinu raunverulega frelsi og efnahagslegt sjálfstæði er þjóðinni jafn mikilvægt og pólitískt sjálfstæði. Hið andlega og efnislega styðja hvort annað og mynda grunn að sterku samfélagi.
Hugsjónir Jóns Sigurðssonar eiga jafn vel við í dag og á nítjándu öld og endurspegla í raun magnaða innsýn í mótun sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar, sem byggði á langt um meira en aðeins löggjafarvaldi.
Þessar hugsjónir snúast um þá hugmyndafræði sem byggði upp heila, sjálfstæða þjóð ekki um einn flokk eða hagsmunasjónarmið, heldur um hina raunverulegu sjálfstæðishugsjón sem Jón Sigurðsson barðist fyrir og sem endurspeglaðist í stofnun lýðveldisins.
Mér finnst þetta fallegt.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Mannréttindi, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning