Miðvikudagur, 19. mars 2025
Eftir því sem sagt er, þá eru þegar nefndir menn til að semja stjórnarlagsskrá handa ríkinu, og líkindi eru til að Ísland verði nefnt þar í á þann hátt, sem stjórnin ætlar að bezt eigi við. Vér eigum rétt á því, að fulltrúar lands vors verði kvaddir til álits um það mál, og að óskir þeirra verði heyrðar. En nú reynir á að framar enn áður, bæði að allir íslenzkir menn hugleiði svo mikilvægt mál og gjöri sér það ljóst á allar hliðar, og svo það, að þeir lýsi yfir skoðunarmáta sínum og óskum fyrir allshersjarþingi voru svo almennt og skorinort, að enginn þurfi að vera efablandinn um hver vilji þjóðarinnar sé.
En verði þing ekki kallað saman í sumar, þá er óskanda, að sem flestir málsmetandi menn héldi nú þegar samkomur til að ræða þetta mál, og gæfi konúngi vísbendingar um hvers þeir vænti landsins vegna; væri þá öll líkindi til að hann færi eftir þjóðlegum óskum vorum. En samt sem áður væri jafn nauðsynlegt, að almennar bænarskrár yrði enn framar samdar til þingsins, þegar það ætti að koma saman
Hugvekja til Íslendinga
NÝ FÉLAGSRIT // 01.01.1848 // 8. ÁRGANGUR // 1848
Jón Sigurðsson
(17. júní 1811 7. desember 1879)
Grein Jóns forseta Sigurðssonar, Hugvekja til Íslendinga, birtist í Nýjum félagsritum 1. janúar 1848 á merkum tímamótum í stjórnskipulegri sögu Danmerkur og Íslands.
Á þessum tíma hafði Friðrik VII Danakonungur nýlega afsalað sér einveldi og fyrirhuguð var setning nýrrar stjórnarskrár fyrir danska ríkið.
Jón Sigurðsson, oft kallaður Jón forseti, var þó aldrei forseti lýðveldisins Íslands heldur hlaut hann viðurnefnið þar sem hann var forseti Kaupmannahafnadeildar Bókmenntafélagsins um árabil.
Jón Sigurðsson var þannig áhrifamesti talsmaður íslenskrar sjálfstæðisbaráttu í Kaupmannahöfn og leiddi baráttuna fyrir auknum réttindum Íslands innan danska ríkisins.
Þær stjórnskipulegu breytingar í Danmörku sem urðu spretta Hugvekju til Íslendinga vöktu eðlilega upp spurningar um stöðu Íslands innan danska ríkisins og hvort Íslendingar ættu að hafa sjálfstæða rödd við mótun eigin stjórnskipunar.
Hugvekja Jóns Sigurðssonar er því merkileg ritgerð fyrir marga hluta sakir; ekki aðeins sem pólitísk yfirlýsing, heldur sem lagaleg krafa um réttmæta aðkomu Íslendinga að mótun eigin stjórnarfars.
Jón lagði áherslu á að sjálfstjórn Íslands og stjórnskipuleg réttindi þjóðarinnar yrðu aðeins tryggð með virku lýðræðislegu ferli þar sem þjóðin sjálf lýsti skýrt yfir vilja sínum.
Hann taldi nauðsynlegt að íslenskir fulltrúar yrðu kallaðir til álits og að ákvarðanir yrðu ekki teknar án samráðs við þjóðina:
- Vér eigum rétt á því, að fulltrúar lands vors verði kvaddir til álits um það mál, og að óskir þeirra verði heyrðar.
Jón Sigurðsson tók afstöðu gegn einhliða ákvörðunum danskra stjórnvalda og undirstrikaði nauðsyn þess að Íslendingar sameinuðust í skýrri afstöðu:
- Þeir lýsi yfir skoðunarmáta sínum og óskum fyrir allherjarþingi svo almennt og skorinort, að enginn þurfi að vera efablandinn um hver vilji þjóðarinnar sé.
Í þessum orðum hans birtist skýr krafa um virkt fulltrúalýðræði að þjóðin sjálf hefði aðkomu að stórum ákvörðunum um framtíð landsins. Jón lagði áherslu á að vald stjórnskipunarríkja lægi ekki einvörðungu hjá löggjafarvaldinu heldur líka hjá þjóðinni sjálfri sem er ein grundvallarreglna réttarríka.
Hugvekjan lagði merkan grunn að sjálfstæðisbaráttu Íslendinga sem síðar leiddi til breytinga á stöðu landsins og varð undanfari stofnunar lýðveldisins Íslands árið 1944.
Þessi hugvekja er þó ekki einungis sögulegt skjal hún er lifandi umræða sem á jafn vel við í dag og hún gerði árið 1848 og minnir okkur á, enn í dag, að fulltrúalýðræði og skýr rödd þjóðarinnar eru hornsteinar réttarríkis og sjálfstjórnar.
Ég hef lengi haft mikla ánægju af því að grúska í sögunni og óháð minni persónulegu og pólitísku sannfæringu tala staðreyndir sínu sögulega máli.
Hægt er að lesa Hugvekju Jóns forseta til Íslendinga hér:
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning