Hvunndagshetjur
Föstudagur, 16. mars 2007
Ég er hjartanlega sammála henni Beggu Lopez, sem þykir þjóðfélagið uppfullt af óþarfa tuði. Bloggið hennar í dag framkallaði gamlar og fremur skoplegar endurminningar af sjálfri mér, þegar ég tók æðiskast á opinberum starfsmönnum í Góða Hirðinum því blái sófinn féll í hendur annarra kaupanda. Baðst svo afsökunar (tilneydd) daginn eftir.
Orðlaus yfir skarpskyggni Heiðu, sem horfir (með flugbeittu augnaráði) beint í gegnum kaldrifjaða markaðshyggju þjóðfélagsins og auknum kaupmætti sem skilar sér beint í vasa kaupmanna vegna öflugra auglýsingaherferða. Ég ætla ekki heldur að eyða peningum í sparnað hjá Landsbankanum. Er með sparireikning sem ég tæmi samviskusamlega um hver mánaðarmót.
Langar alveg óskaplega í töfragleraugu eins og hún Gurrý mín talaði um í dag. Afskaplega yrði vinnudagurinn ánægjulegur ef ég gæti fengið mér blund af og til. Akranes hljómar eins og sneið af himnaríki í frásögnum Gurrýar og ef rútuferðir eru jafn spennandi og hún talar fjálglega um, ætla ég sko beint á BSÍ strax í kvöld.
Og talandi um landsbyggðina.´
Frásögn Birnu Mjallar af framkomu lækna á landsbyggðinni í garð aldraðrar móður hennar hryggir mig ósegjanlega og ég vona heitt og innilega að hún safni kjarki til að leggja fram formlega kvörtun til Landlæknisembættisins. Ég er hreint út sagt öskureið yfir þessari framkomu.
Þá er það ég.
Ennþá gjörsamlega miður mín vegna úrsagnar Íslands úr Skandinavíu. Staðráðin í að halda áfram að blogga. Þetta litla samfélag er mér nefnilega mikils virði. Nýfundnar bloggvinkonur mínar dýrmætar og orðin þeirra ómetanleg viðbót við annars ágætan hversdag. God speed stelpur mínar, you all make my day. (Uh, eða guðs hraði, þið farðið allar daginn minn eins og það útleggst á íslensku. Ég þarf yfirleitt að hafa orðabók við höndina eh til að útskýra svona máltæki.)
Var ég búin að segja ykkur að ég er skotin í strák?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kona; þekktu rætur þínar
Föstudagur, 16. mars 2007
I´d like to record my blogs in english for all my fans out there.
En það myndi aldrei ganga upp. Í fyrsta lagi fæ ég svo margar hugmyndir á degi hverjum, að ég yrði eiginlega að skrifa eitt blogg á íslensku og annað á ensku. Ekki nenni ég að þýða upprunalegu bloggin, það tæki alltof langan tíma. Utan þess rita ég svo háfleygan texta að ég þyrfti á orðabók að halda. Sem óneitanlega hefði áhrif á íslenskt orðalag mitt og á endanum væri ég þar af leiðandi farin að skrifa í hringi.
Circumsized thoughts?
Þessar hugsanir eru tilkomnar vegna vináttu minnar við Bandaríkjamann sem sendir mér reglulega SMS. Yfirleitt spjöllum við saman um súkkulaðiís og stundum . . . Skandinavíu. Sá hinn sami bjó einu sinni í Svíþjóð og þykist vita allt um Norðurlöndin.
Það var hann sem sagði mér að Ísland væri ekki hluti af umræddri "álfu", að landið okkar væri í raun og veru einungis eitt af Norðurlandaþjóðunum og að Skandinavía samanstandi eingöngu af Svíþjóð og Noregi. Fyrrnefnda landið segir hann reyndar hið eina sanna land Skandinavíu (að Noregi undanskildum, þó honum sé þvert um geð að ræða þá frændur okkar frekar).
"You are nordic, Klara!" Svo hlær hann að mér.
Ég reyni vanmáttug að segja honum að eigi hann við skagann góða, hljóti örlítil ræma af Finnlandi að tilheyra Skandinavíu líka. Ekki allt landsvæðið þó, heldur einungis hluti þess.
Danmörk tilheyri því, samkvæmt þessari landfræðilegu formúlu, ekki heldur Skandinavíu. Um daginn reyndi ég að útskýra fyrir honum að Ísland væri reyndar hluti af Skandinavíu í menningarlegu og pólitísku nútímasamhengi þó skaginn sjálfur spanni aðeins Svíþjóð og Noreg.
Vitnaði ég meira að segja í Norðurlandaráð í því samhengi og var komin að því að bresta í grát þegar maðurinn hélt áfram að hlæja að mér. "Hugtakið Skandinavía" sagði ég á bjagaðri ensku (og studdist við rafræna orðabók um leið) "hefur enga einhlíta merkingu". Óþarft er að taka fram að ég fann mjög til vitneskju minnar og getu til að skrifa svona flókin orð á öðru tungumáli. Um hríð ætlaði ég að bæta við "góði minn" sem útleggst einfaldlega sem "dear" á ensku, en hætti við. Til að koma vitneskju áleiðis, er betra að tala ekki niður til fólks. Það skilar nefnilega minni árangri.
Þá sagði ég honum að hugtakið Skandinavía gengdi hlutverki samheitis yfir Norðurlöndin. Að margir telji ekki eingöngu Danmörku, Svíþjóð og Noreg til Skandinavíu heldur líti þeir sömu einnig á Finnland, Ísland, Færeyjar, Grænland og Áland sem hluta af fyrrgreindum landhópi.
Ekki að ég viti nokkurn skapaðan hlut um Áland.
Hann varð bara reiður og sagði að ég væri vitlaus.
Ég er, þegar hér er komið sögu, löngu hætt að diskótera landfræðilega staðsetningu Íslands við þennan bandaríska vin minn, þann sama og sendir mér stundum SMS. Aftur á móti hef ég í kjölfarið hugleitt uppruna minn af mikilli elju og dugnaði, flett fyrrgreindum hugtökum endurtekið upp í hinum ýmsu alfræðiritum, yfirheyrt föður minn um hið sanna eðli uppruna okkar (hann var reyndar sammála hinum bandaríska vini mínum) og endaði á þvi að brenna eftirfarandi klausu, sem ég fann á Wikipedia, djúpt í fylgsni huga míns:
"Engilsaxneska merking orðsins Skandinavía er Noregur, Svíþjóð og Danmörk og sumir telja Finnland og Ísland til Skandinavíu. En eins og áður sagði er merkingin líklega upprunalega landfræðilegs eðlis og nær ekki til "skagans" sem á gömlum kortum er oft sýndur sem eyja og Ísland því alls ekki hluti Skandinavíu. Ekki er ósennilegt að hinn norræni skyldleiki íbúa þessara landa, ásamt þeirri staðreynd að löndin fimm eru hin svokölluðu Norðurlönd, valdi þvi að Danmörk, Ísland og Finnland séu talin með Skandinavíu."
Athugasemdir mannsins gerðu mig um hríð ofurlítið óörugga gagnvart hinum Norðurlöndunum og skóku minn annars ferhyrnda heim, þar til ég hafði lesið nægju mína um eigin uppruna og staðsetningu á jarðarkringlunni.
Þó frétti ég um daginn að ófáir samlandar vinar míns eigi erfitt með að staðsetja Ísland innan Evrópu þar sem eyjan er aðskilin meginlandinu og "flýtur" stök í Norðurhafi. Ófáir ameríkanar staðhæfa fastlega að Ísland geti ekki verið hluti af Evrópu, þar sem strendur ber við haf allt um kring og engin landamæri er að finna hérlendis, önnur en innlend sýslumörk.
Þrátt fyrir að hafa hert upp hugann, snýtt mér í mjúkan vasaklút svo lítið bar á og dustað rykið af gráu sellunum er ég enn litlu nær. Bergmálar hinn bandaríski vinur minn einfaldlega skellihlátri Svía, sem gera óspart grín að landfræðilegum misskilngi íslensku þjóðarinnar, eða endurspegla orð hans gríðarlega meginlandsdýrkun ameríkana?
Ég gefst upp.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hlutföll kvenleikans
Fimmtudagur, 15. mars 2007
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ég myndi aldrei útvarpa neinu sem kalla mætti klám
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Ég var að stofna bloggsíðu. Hef verið að "browsa" gegnum valmöguleika síðunnar og rakst á annars ágætis flipa sem ber nafnið "LÖG". Vongóð um að gæða síðuna mínum blíðum andvara rómantískra laga eftir erlenda höfunda, sem eru í uppáhaldi hjá mér sem stendur, smellti ég því á flipann.
Efst á síðunni fann ég aftur á móti eftirfarandi upplýsingatexta. Þar sem mér er mikið í mun að særa ekki blygðunarkennd Morgunblaðsins, sem heldur þessum bloggsíðum úti, las ég hlýðin yfir innihald klausunnar. Fyrsta setningin vekur undrun mína.
"Óhemilt er að setja inn á síðuna hvers kyns ærumeiðandi eða ólöglegt efni."
Það hvarflar ekki að mér að setja inn klám á eigin bloggsíðu. Dettur ekkert annað í hug sem gæti verið ærumeiðandi, sbr öflug mótmæli feminista undanfarna daga vegna særandi líkamsburðar fermingarbarna framan á auglýsingabækling Smáralindarinnar.
Auðvitað gæti ég þó einnig brotist inn í öryggismyndavélar lögreglu sem sýna umferð á Lækjartorgi og sett upp útsendingu á forsíðu minni. Að útvarpa ferðalagi gangandi vegfarenda er þó eflaust ólöglegt. Að ég tali nú ekki um hegðun fólks eftir miðnætti á laugardögum. Ég myndi aldrei gera slíkt, sjónvarpa upptökum á hinum almenna borgara og hegðun fólks með æsingaróráðsheilkenni. Ég yrði eflaust kærð fyrir Persónuvernd fyrir brot á lögum.
Samþykki því skilmála fyrstu málsgreinar umyrðalaust og held áfram með lesturinn.
"Notkun á texta, skjölum, hugbúnaði, myndböndum, tónlist og öðru höfundarréttarvörðu efni á síðunni er óheimil nema með samþykki rétthafa."
Guð. Og ég sem var að hugsa um að setja inn lag með Erykah Badu. En leiðinlegt. Ætti ég að hafa samband við hana út og biðja um leyfi, útskýra fyrir henni hvað ég er rómantísk og hvað lögin hennar, sem eru reyndar mjög smart, ættu vel heima á síðunni minni? Myndi Erykah skilja tilgang minn, jafnvel gefa leyfi fyrir gömlu lagi, sem hún er komin með leið á að spila?
Hvað ef Erykah myndi segja já, en Mogginn myndi ekki trúa mér?
"Slíkt efni verður fjarlægt að beiðni rétthafa."
Ég er ekki viss um að Erykah hafi samband við Morgunblaðið og krefjist þess að vefsíðunni minni verði lokað. Jafnvel þó lögin hennar ómi ljúflega undir blogginu mínu. Erykah yrði eflaust stolt af þessari síðu, en sennilegast færi hún fram á STEF gjöld vegna tónflutningsins. Af hverju væri hún annars að gefa tónlist út?
"Ef notandi bloggsíðu gerist sekur um að setja höfundarréttarvarið efni inn á síðu oftar en einu sinni áskilur Morgunblaðið sér rétt til þess að loka viðkomandi síðu."
Það er nefnilega það.
Getur einhver sagt mér hvernig ég sæki um höfundarétt á stökum setningum?
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)