Færsluflokkur: Lífstíll

Slóttugar hugrenningar piparjúnku

"It requires a very unusual mind to undertake the analysis of the obvious."

A. N. Whitehead

Ég móttek í sífellu hálfgerð hótunarbréf frá honum Christian Carter. Hann heldur úti vefsíðu um þá klæki sem konum er nauðsynlegt að ástunda, ætli þær nokkru sinni að krækja í karlmann og uppskera sokkaþvott á sunnudagskvöldum að launum.

Ég er svolítið hrædd við þennan mann, en þó ekki nánda nærri því eins skelkuð og þegar ég les subject línurnar hans í pósthólfinu mínu.

"How women scare their soulmate away" stóð í bréfi frá honum sem ég móttók í síðustu viku. Lömuð af ótta við að glata væntanlegum lífsförunaut lokaði ég samstundis augunum, bar fram einlæga ósk í hljóði og opnaði svo dýrðina.  

"If you have finally met Mr. Right, would he end up falling in love with you and want to STAY?"

Ég geri samstundis ráð fyrir því.

"Or would he leave once he got close to you?" heldur Christian Carter áfram.

Kalt vatn milli skinns og hörunds. Af hverju hefur spurningin aldrei hvarflað að mér? 

"If you arent 100% certain about how you´ll make the right man feel when he comes in to your life ..." staðhæfir Christian mjúkmáll "or you´ve allready had the right man come into your life and then leave, then you need to read this special letter I´ve written for you right now:"

Undir þessum orðum er slóð á vefsíðu, sem væntanlega inniheldur umrætt bréf sem Christian hefur í fullri einlægni eflaust skrifað til mín. Ég þori ekki að opna bréfið. Hvað stendur í því? Bíða mín kynni við einhvern ofurfola sem veður í konum af öllum gerðum? Mun honum leiðast einlægt atferli mitt þegar á hólminn er komið? Er mér nauðsynlegt að beita klækjum til að öðlast þann eftirsótta rétt að mega gera honum ýsu í soðið á sunnudögum?

Ringluð á svip loka ég bréfinu og ákveð að geyma þessar hugleiðingar að sinni. Fletti áfram gegnum subject línur og rek augun í stjörnuspánna mína.

"Picses: Do whatever is required of you" staðhæfir setning dagsins.

Fate has spoken. Ekki einungis fyllist ég staðfestu, heldur ákveð ég að kryfja málið til mergjar. Halla mér aftur í stólnum og lygni kvenlega aftur augunum, svona eins og til að æfa mig í kynþokka. Ég ætla að hegða mér eins og sönn kona. Umyrðalaust ætla ég að ljúga að karlmanni sem mér þykir álitlegur og fyrir alla muni, alls ekki sýna mig utandyra án þess að hafa áður sett á mig farða.

Mér þykir deginum ljósara að ég muni eiga við ramman reip að draga.  

Undanfarna daga hef ég því flett upp hinum margvíslegustu leitarorðum er geta átt við hegðunaratferli það er herra Carter vitnar viðstöðulaust í. Og viti menn, Á Vísindavefnum er nefnilega að finna grein um keimlíka hegðun og þá sem Christian segir ofurfolum heimsbyggðarinnar eðlislægt að ástunda.  

Þar kryfur hún Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsfræði, kynhegðun væntanlegs elskhuga míns til mergjar og flettir ofan af þeirri staðreynd að sennilega er karlmaður drauma minna að takast á við jaðarpersónuleikaröskun.

Væntanlegur draumaprins veður því ekki einungis í konum, heldur er án alls efa óstöðugur; á erfitt með að sýna tryggð og heilindi og forðast því náin kynni eins og heitan eldinn. Hann skiptir stöðugt um vini og vinkonur og því þarf ég á öllum mínum klókindum að halda, eigi ég að ná í skottið á honum um helgar.

Sjúkkit, maður að ég skuli hafa hlustað á stjörnuspánna.

Errm 

 


Flóttalegt ferðalag um nótt

Celine Dion ómaði í útvarpinu meðan ég ók heim í kvöld. "I want to be the face you see when you close your eyes" sönglaði hún blíðmælt. Um leið og ég sveigði lipurlega inn Hringbrautina kom upp mynd af sjálfri mér svefndrukkinni að böðlast um í rúminu, með nefið ofan í andlitinu á mínum heittelskaða ... meðan hann lygnir aftur augunum.  

Ég hef aldrei prófað að gera þetta.

(horfðu á mig elskan)

"I want to be the touch you need every single night" hélt hún sannfærandi áfram.  

Mig langar að eiga mann sem þráir mig. Every single night er aftur á móti soldið mikið.

"I want to be your fantasy" ... syngur Celine. Samþykki hugmyndina auðmjúk.

"And be your reality ... and everything between"

Ah. Heyrðu mig nú kona.

"I want you to need me" með miklu innsogi og tilþrifum í röddinni.

Ég er farin að syngja með þegar hér er komið sögu. Búin að jafna mig á hugmyndinni um að vera einhvers reality. Ein í bílnum. Öskra hástöfum í sömu tóntegund og hnykki til höfðinu.

Skítt með hettupeysuna. Ég GÆTI staðið á sviði með Celine.

Þetta er mjög töff hjá mér, enda hálka í vesturbæ Reykjavíkur.  

Ég læt ekki að mér hæða. Enda hef ég verið með bílpróf afar lengi.

"Like the air you breathe"

Mynd af örvæntingarfullum og ímynduðum ástmanni mínum kemur samstundis upp í hugann, þar sem hann gasprar eftir súrefni og fálmar í tilfinningaríkri blindni eftir kvenlegum höndum mínum.

Hemla einbeitt á ljósunum við Framnesveg. Ég yrði að vera mjög ákveðin.

"I want you to feel me ... in everything" murrar hún lymskulega í útvarpinu.

Andrúmsloftið í bílnum er farið að taka á sig þykka mynd.

"I want you to see me ... in your every dream" 

Ég er farin að iða. Hvað ef ég fer ein á kaffihús? Mun ástmaður minn, ljóðrænn á svip, senda mér viðstöðulausan straum SMS skilaboða meðan ég ek upp Vesturgötuna? Lendi ég í árekstri vegna þarfa elskhuga míns?

"The way that I taste you feel you breathe you need you" gargar frú Dion gegnum hátalarana.

Celine er að syngja um þráhyggju; konan er orðin brjáluð.

Smokra mér flóttaleg upp á gangstéttina við BYKO og legg skáhallt við lagerinnganginn. Slekk dapurlega á útvarpinu og sit hljóð um stund.

Ímyndaður sviti drýpur niður nefbroddinn og ég ákveð að ganga ekki í hjónaband að sinni.

Eins og mér finnst skemmtilegt að hlusta á lögin hennar Celine. Geng gleiðum skrefum að útihurðinni og syrgi vinkonu mína í hljóði meðan ég geng niðurlút upp tröppurnar.

Þegar ég kem heim ætla ég að setja All By My Self á fóninn, smokra mér í bómullarnærbuxur og taka Bridget á málið InLove


Hlutföll kvenleikans

Ég skrapp í Liborious í dag.  Mátaði þar buxur af sömu gerð og atvinnurekandi minn um daginn. Þegar ég hafði komið mér þægilega fyrir inni í flauelsklæddum mátunarklefanum rann upp fyrir mér skelfilegt ljós. Buxurnar voru svo þröngar að ég gat ekki troðið þeim upp fyrir hnén á mér.  Hnén?  Hver hefur heyrt um hnjáfitu?  Þetta er í fyrsta skipti sem mig hefur langað leggja fram kæru á hendur fatahönnuði. Velti því fyrir mér hvert væri eiginlega best að snúa sér. Til Mannréttindaráðs. Evrópusambandsins jafnvel líka, til að tryggja stöðu mína betur. Kvennaathvarfið þyrfti að fá veður af þessu! Þetta er ákveðin tegund ofbeldis á hendur þvengmjórra kvenna. Hér er jafnvel komin ástæða átraskanna? Ímynduð hnjáfita sökum klaufaskaps á saumastofum víðsvegar um heim? Hvernig átti ég að vita að ég þyrfti að grenna á mér hnén?  Mig langaði samstundis í vöðvasog.  Láta sneiða af sterklegum kálfunum.  Vonsvikin plompaði ég berum bossanum niður á útskorinn barrokstól inni í mátunarklefanum og reyndi að komast úr buxunum aftur, en viti menn. Hælarnir á mér eru of sverir fyrir umræddar buxnaskálmar. Ég komst hvorki í þær né úr og örvæntingarfull missti ég sólgleraugun á gólfið, tosaði vanmáttug í skálmarnar og reyndi að komast hjálparlaust úr þessum hryllingi. Auðvitað var ég ekki í nærbuxum frekar en fyrri daginn og gat því ekki kallað á skilningsríka búðarkonuna mér til aðstoðar. Mér fannst einhvern veginn ekki við hæfi að flagga mínu allra heilagasta framan í ókunnuga konu i vesturbænum. Af mikilli elju beitti ég því skakandi mjaðmanuddi, svitastorknum einbeitingarsvip og hnjáhnykkjum þar til djöfulsins saumaskapurinn fór að gefa sig og ég tróðst einhvern veginn í nætursvartar gallabuxurnar, glöð á svip.  Ég keypti buxurnar, af ástæðu sem heitir “guð má vita hvað” (ég komst ekki úr þeim aftur og gafst því upp). Í þessum buxum langar mig að fljúga erlendis, banka upp á hjá umræddri saumastofu, bjóða þeim að tosa mig úr skálmunum og spyrja svo á hálfri leið niður annars ágætlega sköpuð hnén:  “Hvað vitið þið um smækkun beina?”  

Ég myndi aldrei útvarpa neinu sem kalla mætti klám

Ég var að stofna bloggsíðu. Hef verið að "browsa" gegnum valmöguleika síðunnar og rakst á annars ágætis flipa sem ber nafnið "LÖG". Vongóð um að gæða síðuna mínum blíðum andvara rómantískra laga eftir erlenda höfunda, sem eru í uppáhaldi hjá mér sem stendur, smellti ég því á flipann.

Efst á síðunni fann ég aftur á móti eftirfarandi upplýsingatexta. Þar sem mér er mikið í mun að særa ekki blygðunarkennd Morgunblaðsins, sem heldur þessum bloggsíðum úti, las ég hlýðin yfir innihald klausunnar. Fyrsta setningin vekur undrun mína.

"Óhemilt er að setja inn á síðuna hvers kyns ærumeiðandi eða ólöglegt efni."

Það hvarflar ekki að mér að setja inn klám á eigin bloggsíðu. Dettur ekkert annað í hug sem gæti verið ærumeiðandi, sbr öflug mótmæli feminista undanfarna daga vegna særandi líkamsburðar fermingarbarna framan á auglýsingabækling Smáralindarinnar.

Auðvitað gæti ég þó einnig brotist inn í öryggismyndavélar lögreglu sem sýna umferð á Lækjartorgi og sett upp útsendingu á forsíðu minni. Að útvarpa ferðalagi gangandi vegfarenda er þó eflaust ólöglegt. Að ég tali nú ekki um hegðun fólks eftir miðnætti á laugardögum. Ég myndi aldrei gera slíkt, sjónvarpa upptökum á hinum almenna borgara og hegðun fólks með æsingaróráðsheilkenni. Ég yrði eflaust kærð fyrir Persónuvernd fyrir brot á lögum.

Samþykki því skilmála fyrstu málsgreinar umyrðalaust og held áfram með lesturinn.

 "Notkun á texta, skjölum, hugbúnaði, myndböndum, tónlist og öðru höfundarréttarvörðu efni á síðunni er óheimil nema með samþykki rétthafa."

Guð. Og ég sem var að hugsa um að setja inn lag með Erykah Badu. En leiðinlegt. Ætti ég að hafa samband við hana út og biðja um leyfi, útskýra fyrir henni hvað ég er rómantísk og hvað lögin hennar, sem eru reyndar mjög smart, ættu vel heima á síðunni minni? Myndi Erykah skilja tilgang minn, jafnvel gefa leyfi fyrir gömlu lagi, sem hún er komin með leið á að spila?

Hvað ef Erykah myndi segja já, en Mogginn myndi ekki trúa mér?

"Slíkt efni verður fjarlægt að beiðni rétthafa."  

Ég er ekki viss um að Erykah hafi samband við Morgunblaðið og krefjist þess að vefsíðunni minni verði lokað. Jafnvel þó lögin hennar ómi ljúflega undir blogginu mínu. Erykah yrði eflaust stolt af þessari síðu, en sennilegast færi hún fram á STEF gjöld vegna tónflutningsins. Af hverju væri hún annars að gefa tónlist út?

"Ef notandi bloggsíðu gerist sekur um að setja höfundarréttarvarið efni inn á síðu oftar en einu sinni áskilur Morgunblaðið sér rétt til þess að loka viðkomandi síðu." 

Það er nefnilega það.

Getur einhver sagt mér hvernig ég sæki um höfundarétt á stökum setningum?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband