"Hvernig ert’í’enni? Píkunni?" – Kvikmyndin MÝRIN

Íslenska kvikmyndin MÝRIN í leikstjórn Baltasars Kormáks

Samfélagsrýni og heimildaritgerð

ÍSLE3KF05  Kvikmyndafræði

Nemandi: Klara Egilson 

Kennari: Sunna Hlín Jóhannesdóttir

Verkmenntaskólinn á Akureyri 

Október 2016

________________________________________

Ágrip og yfirlit heimilda

Viðfangsefni ritgerðar þessarar er birtingarmyndir karlmennsku í Reykjavík á tíunda áratugnum, eins og hugtakið kemur höfundi fyrir sjónir í kvikmyndinni MÝRIN í leikstjórn Baltasar Kormáks, sem gerð er eftir samnefndri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, sem jafnframt var fyrsta metsölubók höfundar. Hér er fjallað um þær karlpersónur sem eru í forgrunni myndarinnar og svo einnig hvaða leiðir höfundur og leikstjóri fara við að miðla samfélagslegri stöðu þeirra og viðhorfum til áhorfanda. Ritgerðin mun takmarkast við birtingarmyndir karlmennsku í kvikmyndinni MÝRIN þar sem Reykjavík og nágrenni á tíunda áratug síðustu aldar er í forgrunni og verður lítillega stuðst við þekktar kynjafræðikenningar; stigveldi karlmennskunnar sem vísar í valdamisræmi milli karla og hins vegar krísu karlmennskunnar sem birtist í hlutverkakreppu karla vegna breyttrar hlutverkaskipan kynjanna.  

Höfundur mun meðal annars leita lauslega heimilda í BA ritgerð Elísabetar Elmu Líndal Guðrúnardóttur Náttúra íslenskrar karlmennsku; birtingarmyndir karlmennsku í íslenskum kvikmyndum en í ritgerð sinni fjallar Elísabet Elma m.a. um hugmyndafræði þá er Ingólfur V. Gíslason varpar upp í bók sinni, Karlmenn eru bara karlmenn og heimfærir hugmyndir um karlmennsku upp á íslenskt samfélag. Þá verður einnig lítillega rýnt í félagslega kyngerð karla og kvenna á tíundu áratug síðustu aldar í Reykjavík, sem ákvarðaði hvað konur og karlar gerðu og veittist rými til að gera, m.a. út frá stéttaskiptingu, hjúskaparstöðu og búsetu. 

Einnig verða niðurstöður Félagsmálaráðuneytisins, sem gaf út skýrslu sem út kom árið 1993, hafðar til hliðsjónar, en sjálf skýrslan fjallaði um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnri verkaskiptingu og fjölskylduábyrgð. Skýrslan var afrakstur tveggja ára rannsóknarstarfs vinnuhóps, sem settur var á laggirnar árið 1991 að upplagi þáverandi félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Jafnréttisstofa ákvað í byrjun árs 1994 í samræmi við tillögur skýrslunnar m.a. að skipa nefnd sem hefði það hlutverk að auka þátt karla í umræðunni um jafnan rétt kynja og var Karlanefnd Jafnréttisráðs stofnuð. Þá er einnig lítillega stuðst við ágæta samantekt Þórðar Ingvarssonar en í vefbók sinni tekur Þórður meðal annars á söguþræði bókarinnar sjálfrar, sem hlaut norrænu bókmenntaverðlaunin Glerlykilinn árið 2002 sem besta norræna spennusagan árið 2001. Kvikmyndin MÝRIN, er gerð var eftir myndinni var svo loks frumsýnd í október árið 2006, en Baltasar Kormákur gerði handrit og fór með leikstjórn myndarinnar, sem sló öll aðsóknarmet í íslenskum kvikmyndahúsum og fékk lof í lófa frá gagnrýnendum.  

________________________________________

Inngangur

Bókmenntaverk Arnalds Indriðasonar þarf vart að kynna; en hann er meðal afkastamestu og farsælustu glæpasagnahöfunda okkar tíma. Í verkum sínum, meðal annars í MÝRINNI, varpar höfundur upp raunsærri en lítt sýnilegri mynd af innri hugarheimi og tilfinningalegri togstreitu karla mitt í umróti umbyltingar úreltra samfélagsviðhorfa á tíunda áratug síðustu aldar; þeirrar kröfu að þoka þyrfti íslensku samfélagi í átt að auknu jafnræði kynjanna. Sú háværa skoðun að hlutverk karla væri að veita öðrum körlum kost á virkri þátttöku í jafnréttisumræðunni, allt í þeim tilgangi að hafa áhrif á kynbræður sína, naut sívaxandi fylgis á fyrrnefndu tímaskeiði, á sama tíma og morðið í kjallaranum er framið í Norðurmýrinni, með þeim afleiðingum að Erlendur rannsóknarlögreglumaður, í félagi við Sigurð Óla og Elínborgu, er fengin rannsókn málsins. Arnaldi tekst með næmri persónusköpun og trúverðugri persónulýsingum, að veita lesenda og Baltasar Kormákur, áhorfanda í gerð myndarinnar MÝRIN, sjaldgæfa innsýn í tilfinningaleg umbrot íslenskra karla, sem er mun sjaldgæfari nálgun höfundar þegar spennu- og glæpahandrit eiga í hlut, þar sem alla jafna er lögð meiri áhersla á styrk, úrræðagetu og snerpu karla í slíkum aðstæðum. 

Kvikmyndaaðlögun skáldsögunnar var í höndum Baltasar Kormáks, sem ritaði sjálft handritið og leikstýrði myndinni, sem var frumsýnd í október árið 2006. Leitast Baltasar við að túlka innri togstreitu persóna í beinni framsetningu atburða, með látbragði, litafræði, leikmunum og líkamsburði leikara sem og með svipbrigðum, en frásagnaruppbygging leikstjóra er fremur beinskeytt og jaðrar á tíðum við blátt áfram miðlun hugarheims. Er það mat undirritaðrar að hér takist ágætlega að varpa ljósi á þau sterku samfélagslegu umbrot sem skóku staðlaða hugmyndafræði íslenska feðraveldisins í lok síðustu aldar. Þá beinir Arnaldur í skáldsögunni og síðar meir Baltasar sem handritshöfundur og leikstjóri kvikmyndaaðlögunar einnig sjónum sínum að ójafnri stöðu karla innan valdakerfis karlmennskunnar, meðal annars Erlendi, sem í hlutverki fráskilins lögreglumanns, myndar hrópandi félagslegt ósamræmi við Sigurð Óla, sem er hámenntaður samstarfsmaður þess fyrrnefnda og býr við ágætar fjölskylduaðstæður.   

Körlum þeim sem koma við sögu í MÝRINNI, er þannig raðað í ákveðinn valdastiga, þar sem ákveðnar persónur sögunnar njóta rýmri forréttinda sökum persónustyrks; sterk gagnrýni birtist einnig á formfasta samfélagsgerð fyrri tíma, þar sem „forræðiskarlmennska“ var við lýði. Þannig mætir Erlendur Rúnari, harðsvíruðum lögreglumanni á áttræðisaldri sem lét af störfum árið 1963, þegar hann fer að grafast fyrir um móður lítillar stúlku sem andaðist einungis fjögurra ára gömul og fyllist viðbjóði þegar upp fyrir honum rennur að yfirvaldið hafði meiri áhuga á nærbuxum fórnarlambs nauðgunar en að fanga brotamanninn. Togstreita Erlends og Rúnars sem birtist í ólíkum viðhorfum til eðlis kynferðisglæpa, ágæt félagsleg staða Sigurðar Óla og vanmáttur unga föðurins sem glatar barnungri dóttur í fang dauðans sökum erfðasjúkdóms, allir endurspegla þeir ólíkar birtingarmyndir karlmennskunnar í íslensku samfélagi í lok síðustu aldar og lýsa þeim breytingum, gegnum framkomu og túlkun eigin viðhorfa, sem jafnréttisbaráttan leiddi af sér.

________________________________________

Söguþráður – MÝRIN 

Ungur maður nýr ennið í ákafa, þar sem hann grúfir yfir skjölum á skrifstofu sinni. Áliðið er orðið og taugaspennan er augljós. Hann er að falsa undirskriftir. Fyrirtækið er Íslensk erfðagreining í Reykjavík. Komið er að jólum og sést þar sem ungi maðurinn yfirgefur vinnustað sinn og leysir eiginkonu sína af við sjúkrabeð kornungrar dóttur þeirra. Sorg hjónanna og uppgjöf þeirra er augljós. Barnið er að deyja.  

Nú víkur sögu að vormánuðum. Ytri tími myndarinnar er upphaf tíunda áratug síðustu aldar; en upp kemst um voðaverk í niðurgrafinni kjallaraíbúð í Norðurmýrinni þegar tveir ungir drengir ráfa inn í opin húsakynnin og finna lík á stofugólfinu. Erlendur rannsóknarlögreglumaður er kallaður á vettvang og er fengið málið til rannsóknar, ásamt Sigurði Óla, samstarfsmanni sínum í rannsóknarlögregludeild Reykjavíkur. 

Í ljós kemur að fórnarlambið heitir Holberg, gamall síbrotamaður á sjötugsaldri sem hefur afplánað dóma fyrir þjófnað, ítrekaðan hraðakstur og líkamsárás. Þegar Erlendur rannsakar íbúðina ásamt tæknideild, finnur hann gamla ljósmynd af grafreit í íslenskum kirkjugarði sem merktur er stúlku að nafni Auður. Við rannsókn tölvu hins látna kemur í ljós að Holberg safnaði klámi; allt frá erótískum ljósmyndum til hrottafenginna ljósmynda af kynferðislegu ofbeldi sem beinist gegn varnarlausum börnum.  

Við nánari eftirgrennslan á ljósmynd kemur í ljós að Auður fæddist árið 1964, en andaðist einungis fjögurra ára að aldri. Móðir hennar, Kolbrún, svipti sig lífi árið 1971 og tekst Erlendi að hafa uppi á systur Kolbrúnar, Elínu, sem þverneitar í fyrstu að veita upplýsingar, þar sem lögreglan hafi brugðist systur hennar hrapalega. Gömul lögregluskýrsla leiðir Erlend á fund Rúnars, áttræðs hrotta sem lét af störfum hjá lögreglunni á sjöunda áratugnum. Í ljós kemur að Kolbrún reyndi að kæra Holberg fyrir nauðgun en var flæmd burt af stöðinni, þar sem Rúnar hafði meiri áhuga á nærbuxum hennar en staðreyndum málsins. Að loknum fundi þeirra Rúnars, fer Erlendur aftur á fund Elínar sem segir Holberg hafa nauðgað systur sinni ekki einu sinni heldur tvisvar, en vegna uppburðarleysis og ótta við yfirvaldið hafi Kolbrún gefist upp. Smám saman verður þeim Erlingi og Sigurði Óla ljóst að Holberg, sem andaðist í kjölfar höfuðhöggs sem morðinginn veitir honum með þungum öskubakka, var forhertur kynferðisglæpamaður. Einnig kemur í ljós að Holberg var í slagtogi við tvo óreglumenn; Grétar, sem hvarf sporlaust um þjóðhátíðarhelgina árið 1974 og svo Elliða, annálaðan vesaling, kynferðishrotta og síbrotamann af gamla skólanum, sem afplánar nú dóm á Litla Hrauni, en ferðaðist með Holberg víða um sveitir Íslands á þeirra yngri árum. 

Fléttan tekur á sig myrkari mynd, þegar Elliði strýkur af Hrauninu og reynir að myrða Rúnar á heimili sínu en verður ekki kápan úr því klæðinu þar sem Sigurður Óli, sem Elliði hafði við yfirheyrslur hótað nauðgun ef sá síðarnefndi hefði sig ekki hægan, fangar hrottann og hefur á brott. Smám saman taka brotin að falla saman og mynda heildræna en kaldrifjaða heildarmynd, þegar Erlingur með aðstoð tæknideildar, brýtur upp kjallaragólfið í íbúð Holbergs og grefur upp líkið af Grétari, ásamt óframkallaðri filmu sem sýnir nektarmyndir af Holberg í samförum við unga konu, sem virðist njóta atlota hans. Ungi erfðafræðingurinn sem sást falsa skjölin á skrifstofu Íslenskrar erfðagreiningar i upphafi, veitir Erling ómetanlega hjálp við rannsókn málsins sem að lokum varpar skelfilega sáru ljósi á hörmulega ástæðu morðsins í Norðurmýrinni og kemur, með fórn sinni, upp um fjörutíu ára gamlan fjölskylduharmleik sem er ljótari en nokkurn hefði rennt í grun. 

________________________________________

 Persónusköpun kvenna – MÝRIN 

Auk karla, sem eru í forgrunni í spennumyndinni MÝRIN, koma einnig sterkar og trúverðugar kvenpersónur fyrir. Þannig varpar dóttir Erlings, sem á við fíkniefnavandamál að stríða, raunsæju ljósi á tilfinningalíf lögreglumannsins, sem og persónulega stöðu hans sem föður og aðstandanda fíkils. Staða stúlkunnar, sem er þunguð meðan á sögunni stendur og hugleiðir síðar fóstureyðingu, varpar líka skýru ljósi á aukin réttindi kvenna á fyrrgreindu tímaskeiði, þó hún sé undirmálsmanneskja í samfélaginu, því augljóst er að stúlkan ræður ferð sinni að mestu sjálf þó lendi á hrakhólum og leiti endurtekið stuðnings hjá föður sínum. 

Í stöðu dóttur Erlends og óbilgjörnu sjálfstæði hennar, birtast einnig þær aðstæður sem konur á fimmta og sjötta áratug aldarinnar máttu búa við og verða grátlega ljósar þegar frúin á Suðurnesjunum viðurkennir loks að hafa tekið fram hjá eiginmanni sínum, sem eyddi bróðurparti hjónabandsins úti á sjó. Úr ævintýrinu varð barn, sem frúin rangfeðrar af ótta við að verða útskúfuð ef upp kemst um framhjáhaldið, enda hefur sú tillaga félagsmálaráðherra á tíunda áratugnum, að störf kvenna verði metin til jafns við vinnuframlag karla, langt undan. Á þeim árum sem Suðurnesjafrúin varð þunguð eftir þáverandi ástmann sinn, leit samfélagið enn svo á að konur hefðu ekki metnað til jafns við karlmenn til að sinna almennum störfum á vinnumarkaðinum og að því bæri ekki að greiða þeim sömu laun. 

Frjálsræði það sem dóttir Erlends býr við í upphafi tíunda áratugarins, endurspeglar einnig þann hrópandi vanmátt sem móðir Auðar bjó við, sem síðar fyrirfór sér, fjórum árum eftir að hafa fætt barn nauðgara síns og borið stúlkuna, sem var með banvænt heilaæxli sjálf til grafar. Þannig verður rannsakendum tíðrætt um blóðugar nærbuxur fórnarlambsins sem Rúnar lögreglumaður, nýtti sem kúgunartæki í samskiptum sínum við sjálfa hrottana sem frömdu glæpinn, en gegnum eftirlifandi systur fórnarlambsins endurspeglast ljóslega sá vanmáttur, kúgun og ok hátt settra karla í ábyrgðarstöðum, sem úthrópuðu þær konur sem ekki fóru eftir óskrifuðum reglum samfélagsins á áratugum áður sem kynferðislega lauslátar, allt í þeim tilgangi að útiloka þær frá samfélaginu og sneypa þær sömu svo þær létu að stjórn og væru valdinu undirlátar. 

Í kynferðislegu frjálsræði dóttur Erlings, sem verður þunguð af völdum karlmanns sem hún ekki þekkir og ræðir frjálslega þann möguleika að láta eyða fóstrinu við föður sinn og svo sú kynferðislega kúgun sem henni eldri konur, sem koma við sögu í myndinni, varpar skerandi ljósi á þann árangur sem harðvítug barátta kvenna fyrir bættum kjörum á áttunda, níunda og tíunda áratug síðustu aldar, hafði í för með sér fyrir almenna velferð og sjálfræði kvenna í íslensku samfélagi. Þannig vekur hrópandi misræmi milli þeirra réttinda og samfélagsleg staða þeirra kvenna af ólíkum kynslóðum eru og koma fyrir í MÝRINNI áhuga, þrátt fyrir að leiðir þeirra skarist aldrei. Hlutverk kvenna í kvikmyndinni MÝRIN virðist því að mestu þjóna hlutverki stoðpersóna og leggja áherslu á, eða vera í raun samfélagsleg gagnrýni og undirstrika með hvaða hætti innri barátta þeirra karla sem eru í forgrunni og tilfinningaleg átök þeirra, sem og innri staða þeirra í því karlaveldi sem MÝRIN varpar upp, er ýmist ógnað eða hafið upp til skýjanna, allt í samræmi við viðhorf karlanna og framkomu þeirra í garð þeirra kvenna sem koma við sögu. Í MÝRINNI virðist konu þurfa til svo karlarnir láti tilfinningar sínar í ljós. 

________________________________________

Karlmenn í aðalhlutverkum – MÝRIN 

Erlendur: Persóna Erlendar myndar skemmtilegt mótvægi við Sigurð Óla og lítur einna helst út eins og hokinn bóndi sem hrökklaðist úr sveit og hafnaði á mölinni. Erlendur er holdgervingur hins íslenska karlmanns; heiðarlegur, vinnusamur og réttsýnn. Undir hrjúfum skráp leynist viðkvæm sál sem glímir við sársaukaþrungið hlutverk aðstandanda. Yfir einkalífi Erlendar grúfir myrkur skuggi sem endurspeglar afleiðingar skilnaðar þeirra hjóna. Að öllum líkindum tók Erlendur ekki virkan þátt í uppeldi barna sinna meðan þau voru að vaxa úr grasi og hefur helgað líf sitt öflun tekna, sem svo aftur endurspeglar íslenska samfélagsgerð á árum áður.  

Sigurður Óli: Af ummælum Elliða í garð Sigurðar Óla, þegar þeir félagar yfirheyra þann síðastnefnda, er nafn ritgerðarinnar dregið, þegar gamli hrottinn niðurlægir Sigurð Óla með kynferðislegum aðdróttunum. Þar endurspeglast viðhorf eldri karla, sem áttu allt sitt undir stigveldi feðraveldisins komið, til yngri manna sem tóku virkan þátt í jafnréttisbaráttunni á tíunda áratug síðustu aldar og er persónu Sigurðar Óla eignuð hégómagirni og kjarkleysi fyrir vikið. Það er þó Sigurður Óli sem fangar Elliða á miðjum flótta og fær uppreisn æru. Sigurður Óli er holdgervingur nýrra tíma og má þola háð og spott sér eldri karla sem stafar bein ógn af breyttri samfélagsskipan sem veitir konum aukið jafnræði. 

Örn: Harmþrungna hetjan, hugrakkur erfðafræðingur sem ræðst að rót vandans. Örn fremur hina æðstu fórn að lokum, hann ber syndir feðranna á herðum sér, rétt eins og Kristur á krossinum og útrýmir hinu banvæna erfðamengi. Persóna Arnar kemur einnig til skila sterkri gagnrýni á persónuvernd og rétt upplýstra einstaklinga til að afla upplýsinga og skilur eftir þá spurningu hvort hollt sé að þekkja eigin uppruna. 

Holberg: Einhvers staðar verða þeir vondu að vera. Holberg er stöðluð stereótýpa; ofbeldismaðurinn á hlýrabolnum, maðurinn sem nauðgar konum, myrðir vini og safnar barnaklámi. Holberg er líka arfberi banvæns erfðasjúkdóms, hann er sektin holdi klædd. Í persónu Holbergs endurspeglast allt það úrkynjaða, þann sem hefur brugðist skyldu sinni og varpar ljósi á þær kröfur sem samfélagið gerir til heilbrigðra karla.  

Elliði: Elliði birtist í hlutverki frásagnaraðila, sem endurómar hrottafengnum misgjörðum Holbergs og þjónar í raun stoðhlutverki hrottans. Af orðum Elliða við yfirheyrslur, sem hann beinir til Sigurðar Óla, er heiti ritgerðarinnar dregið, sem endurspegla ótta eldri karla við yngri menn sem aðhyllast jafnræði kynjanna. 

Rúnar: Rúnar er, rétt eins og þeir Holberg og Elliði, viðhengi og er persónu lögregluhrottans ætlað að undirstrika hvað gerist þegar karlmenni bregst samfélagslegum skyldum sínum; að halda styrkri verndarhendi yfir þeim sem minna mega sín. Í sögu Rúnars endurspeglast einnig hörð ádeila á hörku feðraveldisins og hvaða afleiðingar misbeiting valds leiðir af sér fyrir siðfræðilegt jafnvægi í ríkjandi samfélagsgerð. Rúnar er holdgervingur gamla skólans, spillti lögreglumaðurinn sem var þvingaður úr embætti af fyrrum félögum, sem var skylt að halda þögulli verndarhendi yfir valdaumbrotum innan stigveldis feðraveldisins. 

________________________________________

 Karlmenn eru bara karlmenn: Samfélagsleg rýni – MÝRIN

Nær ógerlegt er að varpa skýrri mynd á innri félagslega skipan feðraveldisins, án þess að beina í upphafi sjónum að því augljósa fráviki sem birtist í hlutverki Elínar rannsóknarlögreglufulltrúa, sem hefur nær enga möguleika á senustuldi, en kemur áhorfandanum fyrir sjónir sem afar venjubundinn einstaklingur með hjartað á réttum stað. Þó verður að hafa í huga að ytri tímaskeið myndarinnar gerist í upphafi tíunda áratugarins og má því ætla að konur hafi verið í hrópandi minnihluta innan raða lögreglunnar á Íslandi. Því er látlaus tilvist og jarðbundin nálgun Elínborgar eftirtektarverð. Af stöðu Elínborgar innan lögreglunnar, dreg ég þá ályktun að hér sé komin staðfesting á inntaki umfjöllunar Ingólfs V. Gíslasonar sem útskýrir í fræðiumfjöllun sinni hvernig völdum karla og undirokun kvenna er meðal annars viðhaldið með einkynjun valdastofnana; Elínborg aðstoðar, aflar lykilupplýsinga en stýrir hvorki né eignar sér afrakstur rannsóknar. 

Víða hefur verið bent á það að völdum ákveðins hóps sé ekki síst viðhaldið með því að meðlimir hópsins loka sig af og hleypa ekki fulltrúum annarra að og sérstaklega ekki þeim sem minna mega sín í samfélaginu.”

Ritrýnd grein: Þjóðarspegillinn 2010

Karlanefnd Jafnréttisráðs 1994-2000

Höf: Ingólfur V. Gíslason

Um sama leyti og líkið í Norðurmýrinni finnst á grúfu á gólfinu, er Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, að undirbúa gerð starfshóps sem síðar meir skilaði skýrslu um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnri verkaskiptingu og fjölskylduábyrgð. Skömmu áður en bókin MÝRIN kom út, fæddist einnig Karlanefnd Jafnréttisráðs, sem ætlað var það hlutverk að auka þátt karla í umræðunni um jafnan rétt kynja. Íslensk Erfðagreining hafði nýverið komið fram á sjónarsviðið og þannig bregður Kára Stefánssyni fyrir, þar sem hann reynir að sannfæra fréttamenn um ágæti gagnagrunns sem hefði víðtækar upplýsingar um erfðamengi og erfðasjúkdóma Íslendinga að geyma, á sömu stundu og starfsmaður falsar undirskriftir. 

Samtímafrásögn Arnaldar og túlkun Baltasar spegla ljóslega samfélagsleg umbrot í upphafi tíunda áratugarins, hagsmunaárekstra eldri og yngri karla sem og þá hörðu gagnrýni sem jafnréttissinnaðir karlar máttu þola frá sér eldri körlum, þeim sem trúðu í blindni á gróin gildi forræðiskarlmennsku og úrelt viðhorf til ríkjandi hugmynda um æskilega undirokun kvenna. Kynferðislegar aðdróttanir Elliða í garð Sigurðar Óla (sbr. heiti ritgerðar) er þannig einföld birtingarmynd á valdastiga þeim sem forræðiskarlmennskan raðar körlum í; þeir karlar sem sýni af sér kvengerða hegðun njóti minnsta forréttinda, þó karlar séu. 

Sigurður Óli ógnar þannig gróinni tvískiptingu sem vísar til valda karla og yfirburða þeirra sökum kynferðis, hverjar sem aðstæður kunna að vera. Því bregður Elliði á þá gamalkunnu tuggu að hóta kynferðislegu ofbeldi svo halda megi Sigurði Óla, boðbera jafnræðis í skefjum, svo feðraveldið viðhaldi stöðu sinni sem valdberar í gróinni samfélagsgerð. Sama viðhorf endurspeglast í meðför Rúnars á nauðgunarkæru Kolbrúnar þegar hann hótar að afhjúpa hana sem hóru. Þrjóskukenndar keðjureykingar Erlendar, sem er að kæfa starfsfélaga sinn og endurteknar háðsglósur sem Sigurður Óli má þola, hetjudauði Arnar sem sviptir sig lífi til að hindra yfirvofandi harmleik og svo kynferðisleg valdbeiting hrottana; allt eru þetta ólíkar birtingarmyndir karlmennsku sem skarast með tilgerðarlausum hætti og varpa ljósi á samfélagslegar hræringar sem afrakstur jafnréttisbaráttu leiddi af sér.

________________________________________

Táknfræði, myndrænar vísanir og túlkun leikstjóra – MÝRIN

Þrátt fyrir gífurlegar framfarir á sviði tækni og myndvinnslu undangenginn áratug, verður því seint neitað að kvikmyndin MÝRIN er listrænn vitnisburður eigin tíma. Myndataka og lýsing, litafræði, sjónræn túlkun og nálgun leikstjóra við hugarheim persóna er hrífandi og á sömu stundu hrottafengin á köflum. 

Þannig má nefna nærmyndatöku sem sýnir unga erfðafræðinginn á skrifstofu Íslenskrar erfðagreiningar; skörp lýsingin og föl ásjóna mannsins öskrar óttablendnu hugrekki. Grænleit slikjan sem grúfir yfir líffærasafninu á Rauðarárstíg vekur upp viðbjóð og hrópar á nærveru dauðans, skörp mynstrin í lopapeysu Erlendar með vasahnífinn og sviðakjammann laða fram hughrif; óheflaða karlmennsku og náttúru Íslands að ónefndum grámanum sem hvílir yfir kirkjugarðinum sem túlkar tómleika sorgarinnar. Þá er enn ótalin morkin líkkista Auðar litlu og svartnættið sem grúfir yfir öllu þegar Örn, bróðir hennar, sviptir sig lífi með afsagaðri haglabyssu. Sjónræn túlkun leikstjóra og leikmyndadeildar er öflug og laðar fram sterk hughrif, skerpir á líðan og undirstrikar framvindu myndarinnar. 

Í raun má segja að skörp sjónarhorn og litanotkun spegli og varpi ljósi á innri hugarheim aðalpersóna; myndin hefst á andláti lítillar stúlku á helgasta tíma árs og morðið sjálft er framið í Norðurmýrinni snemma vors. Trén eru ekki enn farin að grænka en sól er tekin að hækka á lofti og því má líkum að því leiða að lífið sjálft bíði handan við hornið, yfirvofandi sumarið sem allt græðir. 

Sjálf frásögnin fléttar listilega saman þríþætta frásögn af morðinu í Norðurmýrinni, sem Erlendur og félagar fá til rannsóknar sem og sorgarferli ungu fjölskyldunnar sem glatar barnungri dóttur sinni í fang dauðans sökum sjaldgæfs erfðasjúkdóms og svo einnig ferðalag Evu, dóttur Erlends, sem er djúpt sokkin í fíkniefnaneyslu og verður ólétt í ofanálag. Hver frásögn styður hina og verður að segjast vel til tekist, þar sem handritshöfundur setur frásögnina upp í skýrt og greinilegt samhengi án tilgerðar eða teljandi áreynslu.  

Hér birtist hringrás lífsins, sakleysinu sem er svipt á brott og svo glímu hins góða við ill öfl; táknmyndir eru sterkar og þar má nefna Drenginn með tárið sem hangir dapur ofan við tölvu kynferðishrottans, en málverkið er víðfrægt og túlkar sorg barnsins sem glataða æsku, sem óhjákvæmilega nístir inn að beini. Íslensk lopapeysa og látlaus Hekluúlpa Erlendar, sem setur í sífellu upp hettuna til að skýla sér gegn veðrum og vindi í lögreglustarfinu, varpar upp skýrri mynd af íslenskri karlmennsku til sveita og slitinn vasahnífurinn sem miðaldra og hrjúfur lögreglufulltrúinn notar til að skera augað úr sviðahausnum skerpir vissulega á þeirri vísun að hér sé kominn sannur, íslenskur karlmaður sem vílar sér ekki við að ganga í erfið störf og kann tökin til sveita. Þá er ósamræmi í klæðnaði þeirra Sigurðar Óla; sem ávallt er klæddur eftir nýjustu tísku og klæðist glæsilegri úlpu með loðkraga, enn sterkari vísbending um þann mun sem er á viðhorfum þeirra og félagslegri stöðu. 

MÝRIN er rammíslensk með kristnu ívafi; í gjörðum unga erfðafræðingsins sem falsar undirskriftir á skrifstofu Íslenskrar erfðagreiningar, fremur hina æðstu fórn ofan í gröf systur sinnar við gömlu sveitakirkjuna sem einnig mætti túlka sem vísun í skyldleika allra Íslendinga. Lögreglukórinn sýnir stórleik á flutningi Sofðu unga ástin mín og ljáir yfirbragði MÝRIN tragískt yfirbragð með þjóðræknislegu ívafi. Án tónlistarinnar, sem veldur sterkum hughrifum, væri MÝRIN vart jafn myrk sem áhrifamikil og raunin er. 

________________________________________

Samantekt og lokaorð

Fljótt á litið er MÝRIN lítið annað en einföld glæpasaga sem gerist miðsvæðis í Reykjavík á tíunda áratug síðustu aldar. En þegar betur er að gáð, fléttar höfundur frásagnar listilega saman hárbeittri gagnrýni á rannsóknir erfðafræði, upplýstan rétt einstaklingsins og svo einnig fjölskylduharmleik sem sýnir ljóslega hver staða kvenna var bæði um miðja síðustu öld, samhliða því sem ljóst er hverju jafnréttisbarátta hafði skilað í lok síðustu aldar. 

Samúð mín liggur í aðstæðum þeirra Elínborgar, sem með látlausri nálgun sýnir hversu mjög konur máttu sættast á lægri stöður innan raða lögreglunnar og svo einnig þeim stöðuga fúkyrðaflaum sem Sigurður Óli má þola af hálfu vinnufélaga sinna. Tíundi áratugurinn var sannarlega þögull umbrotatími í íslensku samfélagi, en þá hóf Félagsmálaráðuneyti fyrir alvöru að grafast fyrir um raunástæður þess að launamunur kynjanna var svo mikill sem raun bar vitni. Má því áætla að Elínborg lögreglufulltrúi hafi mátt sættast á lægri laun en Erlendur og félagar samhliða því sem henni hefur verið, eins og fram kemur í myndinni, verið falið það vandasama hlutverk að skoða gaumgæfilega allar faldar vísbendingar, sem henni var svo gert að afhenda félögum sínum, sem ljúka rannsókn og eigna sér heiðurinn. 

Einelti það sem Sigurður Óli má þola og tekur orðalaust í mót, yrði vart liðið á opinberum vinnustað í dag, sem og keðjureykingar Erlendar, sem gefur berlega til kynna að sá fyrrnefndi sé kvenlegur í háttum og að líkamsburði. Þá þarf Sigurður Óli einnig að láta kynferðislegar aðdróttanir tukthúslimsins yfir sig ganga orðalaust, sjálfsagt þótti á þessum tíma að kvengera þá karlmenn sem aðhylltust jafnrétti og jafnvel ýja að því að þeir hinir sömu væru samkynhneigðir og jafnvel, sem slíkir, lauslátir með eindæmum. 

Allt þetta og svo yfirlestur heimilda, sem lauslega er vísað í en þó kirfilega getið, leiðir að þeirri ályktun að þeir karlar sem lögðu sitt á vogarskálarnar svo auka mætti jafnrétti kynjanna og draga úr kynbundnum launamun hafi orðið fyrir talsverðu áreiti af hálfu sér eldri karla og svo þeirra karla sem aðhyllast forræðiskarlmennsku, þar sem konur mega lúta í lægra haldi og njóta takmarkaðri réttinda á vinnumarkaði, þó verk þeirra séu jafn erfið í vöfum og jafnvel þyngri en þeirra karla sem með þeim starfa. 

Í þessu samhengi þótti mér MÝRIN áhugaverð viðureignar, sem verkefni í samfélagsrýni hafði áhorfið sterk áhrif á mig – ekki hvað síst í ljósi kynjafræðinnar og þeirrar undirliggjandi ólgu í jafnréttismálum sem kraumaði í íslensku samfélagi, en staða og túlkun Sigurðar Óla hafði afgerandi sterk áhrif á viðhorf mín. Það eitt að vera jafnréttissinnaður og ágætlega menntaður karlmaður í lok síðustu aldar, hefur í grónu karlasamfélagi þar sem tilfinningar hafa verið tabú, hefur ekki verið auðvelt viðureignar. Þá vekur túlkun Elínborgar einnig athygli mína, því það er einmitt vegna kvenna eins og Elínborgar, sem aðrar konur urðu færar um að feta stigu ábyrgðarstaða. Elínborg kann að koma áhorfandanum fyrir sjónir sem venjulegur rannsóknarfulltrúi, þegar hún í raun er holdgervingur þeirra kvenna sem ruddi brautina og sýndi með dugnaði og elju, að konur ættu vissulega fullt erindi inn í ábyrgðarstöður sem krefðust hlutleysis. 

Þannig er MÝRIN ekki einungis spennandi glæpasaga, heldur magnaður samtímaspegill sem varpar skörpu ljósi á aðstæður kynjanna, þá þróun sem hefur orðið í jafnréttismálum undanfarna áratugi. Samfélagsrýni þessi var þung í vöfum en ákaflega skemmtileg og hefur dýpkað skilning minn á þróun jafnréttisbaráttunnar. 

________________________________________

Heimildaskrá og myndaviðauki

Höfundur leitaði fanga í eftirfarandi skjölum, ritgerðum og gögnum. Misjafnt er með hvaða hætti heimilda er getið, ýmist með inndregnu textabroti sem vísar beint í heimild eða með beinni vísun í undirmálstexta. Þá voru heimildir einnig nýttar til að skerpa á skilningi samtíma þess sem sagan gerist á og auðvelda samfélagsrýni með kynjafræðirýni sem og stöðu kynjanna á síðasta áratug undangenginnar aldar,  til hliðsjónar. Hér fara allar heimildir og gögn sem nýtt voru við ritun: 

Skýrsla félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 

971. skýrsla – Um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnri verkaskiptingu og fjölskylduábyrgð

Þingskjal – Alþingi á 120. löggjafaþingi

1995–96. – 1065 ár frá stofn­un Alþing­is

523 . mál

http://www.althingi.is/altext/120/s/0971.html

Karlmenn eru bara karlmenn – Viðhorf og væntingar íslenskra karla 

Útgefandi: Skrifstofa Jafnréttismála 

Höf: Ingólfur V. Gíslason 

1997

https://rafhladan.is/handle/10802/9333

Þjóðarspegillinn 2010 – Karlanefnd Jafnréttisráðs 1994 – 2000 

Rannsóknir í félagsvísindum XI. Erindi flutt á ráðstefnu í október 2010 

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands; Félags- og mannvísindadeild 

Ritstjórar: Gunnar Þór Jóhannesson og Helga Björnsdóttir

Höfundur: Ingólfur V. Gíslason

http://hdl.handle.net/1946/6780

Karlar og jafnrétti

Skýrsla og tillögur um aukinn hlut karla í jafnréttismálum

Útgefandi: Velferðarráðuneyti 

Apríl 2013

MÝRIN og aðrar bækur Arnaldar Indriðasonar 

Vefbók BlogDod – Umfjöllun um verk Arnaldar Indriðasonar 

23. mars 2004

http://blogdodd.blogspot.no/2004/03/mrin.html

Náttúra íslenskrar karlmennsku; birtingarmyndir karlmennsku í íslenskum kvikmyndum

Háskóli Íslands, Hugvísindasvið – Ritgerð til BA-prófs í kvikmyndafræði 

Höfundur: Elísabet Elma Líndal Guðrúnardóttir 

Janúar 2014

http://hdl.handle.net/1946/17194


Come with me if you want to live! NOW, SOLDIER!

Sarah Jeanette Connor, kvenhetjan í framhaldsflokknum The Terminator (1984) fær talsvert meira svigrúm til vaxtar og þroska, öfugt við Ripley sem sprettur fram sem fullnuma hörkutól og Joan Crawford þar á undan, sem í eðli sínu er einlæglega vond og á aldrei nokkra möguleika á uppreisn æru.

terminator-2-linda-hamilton

Terminator 2: Judgement Day (1991) - IMDb http://www.imdb.com/title/tt0103064/

Sarah er í upphafi brothætt stúlkugrey sem kemst í kast við lögin, verður þunguð og leggur á flótta undan réttvísinni (The Terminator, 1984). Hún tekur út harðgeran þroska í varðhaldi, þá sem forræðislaus móðir (Terminator 2: Judgement Day 1991) sem hefur gernýtt vistina til að byggja upp ósigrandi hæfni til að halda höfði í hörðum bardaga.

Í persónusköpun Söruh endurspeglast þau fræði að góðar mæður búi líka yfir hörku; enginn vafi leikur á því að Sarah svífst einskis til að halda verndarhendi yfir eigin syni. 

Linda Hamilton, í hlutverki Söruh, túlkar hugarheim og viðbrögð konu sem leggur lífið að veði til að halda hlífiskildi yfir framtíðarhorfum sonar síns, þó hetjudáðir hennar sjálfrar reyni á hennar ítrustu þolmörk en um leið er persónu Söruh ætlað að túlka persónuþroska, þrautseigju og móðurlegan styrk. Hér skiptir máli að ekkert er móður sem elskar eigið barn ógerlegt; móðurástin heldur Söruh á lífi. 


***Pistill þessi byggir á lokaritgerð minni í íslenskuáfanganum Kvikmyndafræði sem kennd var á haustönn árið 2016 við Verkmenntaskólann á Akureyri. Ég var búsett rétt utan við höfuðborg Norðmanna, Oslóar, þegar ég tók áfangann til stúdentsprófs á fjarnámsvef skólans og hló ég, gapti og grét fyrir framan þvældan fartölvuskjá meðan á verkefnaskilum stóð.

picture1 (1)

Umfjöllun þessi er hluti ritrraðar sem fjallar um rannsóknarefnið sjálft, en í lokaverkefni mínu fjallaði ég um distópíska túlkun kvikmyndageirans á undarlegu háttalagi einstæðra mæðra í bandarískum bíómyndum.

„You took my boy away from me!“ Joyce Byers.

„Don´t f*** with me fellas. This ain´t my first ride at the rodeo.“ Joan Crawford.

"My mommy always said there were no monsters. No real ones. But there are." Ellen Louis Ripley

Margt lærir maður í menntaskóla og fjarnámsáfangar geta verið frábærir.

 

Yfirlit fjarnámsáfanga á vefsíðu VMA má lesa um HÉR


"My mommy always said there were no monsters. No real ones. But there are."

Mæður eru margslungnar og þannig braut persóna Ellen Louis Ripley blað í sögu kvikmynda í Alien árið 1979, en frammistaða Sigourey Weaver þótti afrek og færði leikkonunni heimsfrægð fyrir vikið.

d52db8c87ca91aaf5eb4f8698ee7903a

"My mommy always said there were no monsters - no real ones - but there are."

Newt // Aliens IMDb ~ http://www.imdb.com/title/tt0090605/

Í kvikmyndunum Alien (1979) og síðar Aliens (1986) hlaut Weaver ekki hvað síst lof fyrir að ögra stöðluðum hugmyndum um hlutverk kynjanna, sér í lagi í heimi hrollvekja, vísindaskáldsagna og spennumynda.

Sjálf persóna Ripley er álitin ein litríkasta kvenhetja í sögu kvikmyndanna og áhrifa hennar gætir enn víða í bandarískum poppkúltúr, ekki hvað síst vegna þeirrar staðreyndar að Ripley er móðir sem misst hefur eigið barn og gengur síðar meir munaðarleysingja í móðurstað (Newt, Aliens 1986), hún lifir tærandi hlutverk hýsils sníkjudýrs af og myrðir að lokum rándýrið sem hún nauðug nærði. 

aliens-1200x648

Ripley brýst þannig fullvaxta fram á sjónarsviðið og kollvarpar þeirri hjátrú sem Mommy Dearest staðfesti - að einstæðar mæður væru ekki einungis vondar heldur einnig veikar á geði.

Ripley er fullfær um að bjarga sér á eigin spýtur en nýtur hvorki virðingar annarra áhafnarmeðlima né virðist hún  vinsæl meðal jafningja. Ripley bítur engu að síður á jaxlinn og hún lýkur því verki sem henni er fengið að leysa.

 

 

Með hverri framhaldsmyndinni eflist Ripley og lærir að sigrast á nær óyfirstíganlegum hindrunum. Ripley er sannarlega knúin af móðurást og þess sem gott er; hún er sjálfskipaður friðargæsluliði og í raun fantasíukennd birtingarmynd hinnar einstæðu móður sem ekkert lætur sér fyrir brjósti brenna.

Velta má upp þeirri kenningu að Ripley hafi verið fyrsti femínistinn á hvíta tjaldinu; stríðshetja og einstæð móðir. 

***Pistill þessi byggir á lokaritgerð minni í íslenskuáfanganum Kvikmyndafræði sem kennd var á haustönn árið 2016 við Verkmenntaskólann á Akureyri. Ég var búsett rétt utan við höfuðborg Norðmanna, Oslóar, þegar ég tók áfangann til stúdentsprófs á fjarnámsvef skólans og hló ég, gapti og grét fyrir framan þvældan fartölvuskjá meðan á verkefnaskilum stóð.

Picture1

Umfjöllun þessi er hluti ritrraðar sem fjallar um rannsóknarefnið sjálft, en í lokaverkefni mínu fjallaði ég um distópíska túlkun kvikmyndageirans á undarlegu háttalagi einstæðra mæðra í bandarískum bíómyndum.

„You took my boy away from me!“ Joyce Byers.

„Don´t f*** with me fellas. This ain´t my first ride at the rodeo.“ Joan Crawford.

Við höfum dansað um dimma dali Ridley Scott og tekist á við Ellen Louis Ripley í frjálsu falli. Við erum á leið inn á geðdeild.

Margt lærir maður í menntaskóla og fjarnámsáfangar geta verið frábærir.

 

Yfirlit fjarnámsáfanga á vefsíðu VMA má lesa um HÉR


"Don´t f*** with me fellas. This ain´t my first time at the rodeo."

e70d9a665dd5ce5d5e5d282aae74b0b7

Joan Crawford ~ Faye Dunaway // Mommy Dearest - 1981 


"You drove Al Steele to his grave, and now you´re trying to stab me in the back? Forget it. I fought worse monsters than you for years in Hollywood. I know how to win the hard way."

Joan Crawford, [Faye Dunaway] Mommy Dearest

Ég var tíu ára gömul þegar fjölskylduhrollvekjuna Mommy Dearest bar fyrir augu íslenskra sjónvarpsáhorfenda.

Kvikmyndin var sýnd á RÚV og byggði á ævisögu Christinu Crawford, ættleiddrar dóttur bandarísku kvikmyndaleikkonunnar Joan Crawford, sem að sögn tveggja eftirlifandi stjúpbarna hennar, var ofbeldishneigð, duttlungafull og óútreiknanleg í öllum háttum.

Svarthvít sjónvarpstæki voru enn við lýði á flestum heimilum og þar sem ég horfði á Faye Dunaway í grátóna hlutverki grettinnar Joan  misþyrma stjúpdóttur sinni með vírherðatré, hrækja á húshjálpina og ánafna afmælisgjöfum barnanna til ókunnra, tók ég í fullri einlægni að velta því fyrir mér hvort einstæðar mæður væru í raun vondar. 

 

Mikill er máttur kvikmynda og þannig markaði áhorfið djúp spor í huga barnsins, sem á horfði opinmynnt og spegúleraði mjög í þeim þrönga stakk sem einstæðum mæðrum er sniðinn í bíómyndum.

Lítt renndi ég í grun að á komandi árum ætti ég eftir að bera fjölmargar myndir augum sem allar sýndu einstæðar mæður í litríku og eilítið súrrealísku ljósi; ýmist sem réttdræpar forynjur, valkyrjur með stáltaugar eða hjálparvana vesalinga sem höfðu hvorki í sig né á nema ef vera skyldi um glyðru að ræða. 

ef2b1ad8509554bfac31698c758797ae

Mommy Dearest er dystópísk fjölskylduhrollvekja og sýnir þá einstæðu á valdi geðveiki, túlkar hvað gerist þegar móðir misnotar vald sitt og snýst gegn eigin börnum.

Sú einstæða (og vonda) var fædd.

***Pistill þessi byggir á lokaritgerð minni í íslenskuáfanganum Kvikmyndafræði sem kennd var á haustönn árið 2016 við Verkmenntaskólann á Akureyri. Ég var búsett rétt utan við höfuðborg Norðmanna, Oslóar, þegar ég tók áfangann til stúdentsprófs á fjarnámsvef skólans og hló ég, gapti og grét fyrir framan þvældan fartölvuskjá meðan á verkefnaskilum stóð.

screenshot-docs.google.com-2021.04.11-14_03_23

Umfjöllun þessi fylgir fast á hæla inngangsorða minna sem áður eru birt á blogginu fyrir og bar heitið „You took my boy away from me!“ en þar greindi ég frá vali mínu á lokaverkefninu sem gefið var frjálst og kaus ég að fjalla um distópíska túlkun kvikmyndageirans á undarlegu háttalagi einstæðra mæðra í bandarískum bíómyndum.

Við höfum nú kynnst þeirri vondu og fetum okkur áfram inn í blóðugan baráttuheim réttsýnna stjúpmæðra sem stíga örmagna af hryllingi fram innan skamms.

Ferlega getur fjarnám verið skemmtileg iðja.


"You took my boy away from me!" - Joyce Byers

ST (1) 

"Donald. I’ve been here ten years, right? Have I ever called in sick or missed a shift once? I’ve worked Christmas Eve and Thanksgiving. I don’t know where my boy is. He’s gone. I don’t know if I’m gonna ever see him again, if he’s hurt… I need this phone and two weeks’ advance. And a pack of Camels."

Joyce Byers

Stranger Things ~ S01E02 

The Weirdo on Maple Street

 

Á þessum orðum hefst lokaritgerð mín í Kvikmyndafræði sem ég lauk við Verkmenntaskólann á Akureyri á haustönn árið 2016. Ritgerðin sú ber heitið "You took my boy away from me! - Undarlegt háttalag einstæðra mæðra í bandarískum bíómyndum" og ég hló nær viðstöðulaust allt frá fyrstu efnisgrein til ritun síðasta orðs.

Ég var þá, sem nú, einstæð móðir og ábyrg fyrir velferð yngri sonar míns á grunnskólaaldri. Við mæðgin vorum þá búsett sunnan við höfuðborg frænda okkar, Norðmanna og löngun mín til að ljúka íslensku stúdentsprófi þrátt fyrir farsælan feril við blaðamennsku og ritstörf í hartnær aldarfjórðung knúði mig á þeim tíma til að leita lausna gegnum fjarnámsvef Verkmenntaskólans.

Fjarnámsáfangar við menntaskóla eru skemmtilegir viðureignar.

Ástundun fjarnáms krefst aga sem skipulags í daglegu lífi og þannig valdi ég að aka syni mínum til skóla alla virka daga, sötra Nescafé þegar heim var komið og svo hófst verkefnavinnan. Svona er það gert. Engar slaufur með vindling í vör, franska alpahúfu og dulúðugt augnaráð við lyklaborðið á dramatísku kaffihúsi. Nei, gott fólk.

Fjarnám fer fram við lúin eldhúsborð, þreytta sófa og svæfla, úr sér gengin skrifborð og undir kaldri sæng að kvöldi. Verkefnin birtast hvert af öðru í hverri viku, skilafrestur er oft knappur og kröfur kennara geta verið talsverðar. Enda á svo að vera, eigi nemandi að tileinka sér þá þekkingu sem áfanginn kveður á um.

Ég var með framúrskarandi leiðbeinanda, Sunnu Hlín Jóhannesdóttur, sem enn kennir íslensku og viðskiptagreinar við skólann og hún gaf okkur frjálsar hendur í lok annar eftir nær viðstöðulaus skil skylduverkefna. Uppglennt og örþreytt augu mín störðu því mött á bjartan skjáinn í upphafi nóvember þegar umrædd orð Sunnu birtust mér:

„Þið hafið frjálsar hendur.“

Ólæti og fjargviðri fóru nú um huga minn. Útklínd í norskum brúnosti og þvæld á svip skrifaði ég kennara nær samstundis og bar upp hugmynd mína að lokaverkefni gegnum tölvupóst. Svar hennar olli straumhvörfum í huga mér. Í stað þess að velja stakt verk kaus ég, að fengnu samþykki Sunnu, að kryfja til mergjar distópíska túlkun kvikmyndgeirans á undarlegu háttalagi einstæðra mæðra í bandarískum bíómyndum.

Olíubornar og gráar fyrir járnum; ofsafengnar í allri nálgun en sjaldnast glyðrulegar nema um hrollvekju sé að ræða lokkuðu mæður mig til fylgis við eigin áskoranir. Já. Það freistaði mín mjög að fjalla um ógiftar mæður í lokaverkefni mínu við áfangann. Þær eru enda ósviknar undirmálshetjur[1] með börn á framfæri og eru einstæðingar. Hinn dystópíski kaleikur kvikmyndaheimsins eru sauðtryggir varðhundar æskunnar og öfugt við það sem ætla mætti hafa einstæðar mæður með takmörkuð úrræði unnið stórsigra á hvíta tjaldinu undanfarna áratugi. 

Áhorfandinn óttast um afdrif þeirra og vonar samtímis að staðan verði þeirri einstæðu að lokum í vil, þó iðulega séu hverfandi líkur á sigri í upphafi leikfléttu. Þær hindranir sem handritshöfundur og leikstjóri leggja fyrir þá einstæðu glæða undirmálshetjuna trúverðugu lífi og þannig ræðst hin ógifta iðulega gegn ríkjandi fordómum samtímans á hvíta tjaldinu; þeirri villutrú að einhleypum konum með börn á framfæri sé ógerlegt að vinna sambærileg afrek og vel stæðar karlhetjur hrista áreynslulaust fram úr erminni í heimi hasarmynda. 

Einstæða móðirin fer iðulega með hlutverk hetjunnar. Mótstaðan sem hin einstæða berst gegn og hversu ómeðvituð hún er um eigin takmarkanir eru einnig þeir þættir sem gera einstæða móður að trúverðugri söguhetju. Iðulega gerir hún sér litla grein fyrir þeim hryllingi sem blasir við í upphafi leikfléttu, en lærir jafnóðum og fléttunni vindur fram sem gerir hana að trúverðugri hetju og um leið, breyskari. 

 Ýmist stendur hin einstæða frammi fyrir því að þefa upp mannræningja, jafnvel er hún að glíma við fyrrum [og hálfsturlaðan] eiginmann nema vera skyldi ef ónáttúrulegar vættir murki lífið úr aukapersónum í upphafi sögunnar. Beri svo upp hefur hin einstæða engin úrræði önnur en að vígbúast, bretta upp ermar og gera það sem hún gerir best; berjast til síðasta blóðdropa í nafni óhaminnar móðurástar.

Til undantekninga heyrir að sú einstæða fari með hlutverk illfyglis í hasarmyndum, þó vissulega sé hlutverk hinnar vondu móður ekki óþekkt [Mommy Dearest]. Einstæðar mæður eru ofurhetjur samtímans á hvíta tjaldinu, lítilmagnar sem standa vörð um sakleysið og berjast með kjafti og klóm gegn óréttlæti heimsins. Knúnar áfram af elsku og sauðtryggar, brjótast þær iðulega úr viðjum óréttlætis og bera undantekningarlaust sigur úr býtum þegar persónu þeirra ber upp í bandarískum bíómyndum. 

Þannig var það hin fantasíukennda dystópía sem einstæðar mæður hafna í, en ekki siðferðisleg togstreita þeirra sömu þegar ástin bankar að dyrum, sem átti hug minn allan í ritgerðinni góðu sem ég hreyki mér enn af. Í lokaverkefninu beindi ég því augum mínum að túlkun vondra mæðra og ég fjallaði líka um réttsýnar mæður með óbilandi baráttuþrek; venjulegar mæður sem sigra þvert á spár fróðustu manna. 

Já, það var skemmtilegt að snúa aftur í skóla. 


Kartaflan sem fann enga lykt

Það var svolítið sérstakt að aka heim frá Laugavatni í dag. Heim í skarkalann, byggðina, streituna og stórborgina. Ég er staðsett í Reykjavík. Hef alið manninn í miðbænum frá blautu barnsbeini. Ég man til dæmis eftir Hlemmi þegar pönkið var og hét. Fór oftar á sýningar í Austurbæjarbíói sáluga og grét yfir Purple Rain þegar myndin var frumsýnd. Man til dæmis þegar þrjú sýningar í Stjörnubíói voru svo yfirfullar að eitt sinn þegar ég reyndi að troða mér gegnum dyragættina ... lyftist ég hreinlega frá gólfinu og sveif, fremur en að ganga, inn í yfirfullt kvikmyndahúsið og beið þolinmóð í einar fimmtán mínútur áður en ég komst að sælgætissölunni til að krækja mér í gotterí.

Ég var sjö ára.

 

 


Spegill spegill herm þú mér

Ég er alltaf að leita einhverra leiða til að endurnýja frumur líkamans.  

Auglýsingaiðnaðurinn segir mér að ég verði að gera það. "Peeling down?" spyr fögur forsíðustúlka framan á pappaspjaldi sem blasir kokhraust við mér á miðju lyfsölugólfi í Lágmúlanum. Ég andvarpa. "Hvað kostar þetta krem?" spyr ég feimnislega þegar upptekinn lyfjatæknirinn stormar fram hjá mér. Hún lítur ströngum augum á mig og mælir hörund mitt ótæpilega út.

"Þú þarft ekki svona krem, vinan" svarar hún í myndugum tón og horfir hvasseyg til baka. Mig langar mest að rífa debetkortið upp og pípa "en ég á peninga" en það væri einhvern veginn ekki við hæfi. Sveipa úlpunni þéttingsfast að mér og dæsi. Mér þykir vænt um húðina.

"Er einhver hérna sem getur frætt mig um þetta?" læði ég út um leið og hvítur stormsveipurinn hverfur bak við plástrahilluna og ég fæ að launum langan fingur. "Talaðu við hana, hún er í snyrtideildinni" og bandar í áttina að gullfallegri stúlku með brúnt hár, konu sem veit greinilega allt um farða.

Innan fimm mínútna hef ég gert mér grein fyrir gildi andoxunarefna. Lært allt um ávaxtasýrur. Veit að ég verð að skipta um krem eftir 35. Má ekki nota sama maskann meir en í mánuð. Þarf að nota toner kvölds og morgna. Taka þessa sápu, já. Ég er með blandaða húð. Þarf á raka að halda, því undir niðri er ég feit. Andlitið á mér er spikað undir yfirborðinu.

Aldrei hefði ég trúað þessu.


Less is More?

"Ég hef verið í fríi frá bloggheimum en hef nú snúið aftur" er setning sem ég hef oftlega rekist á við skoðanir á síðum víðsvegar um bloggheima. Ótrúlegt en satt, hef ég aldrei tekið upp á því að skrá orðin sjálf á síður sögu minnar, fyrr en í kvöld.

 

Og það er rétt. Hugsi á svip, lúin eftir ævintýri helgarinnar, innilokuð á reyklausu kaffihúsi ... sný ég aftur, vopnuð fartölvu og skelfilega sundurleitum hugsunum (sem flestar snúast um stráka). Auðvitað er ég sem fyrr; forystusauður einhleypra á höfuðborgarsvæðinu, skelfingu lostin yfir uppflettingu IP talna á Internetinu (vinur minn sagði mér að það væri hægt að "stalka" fólk gegnum Netið og því til sönnunar þuldi hann upp óskiljanleg nöfn á ensku), dauðans blönk að íslenskum sið (á ekki skítuga krónu með gati eins og hann faðir minn sagði alltaf í den) og staðráðin í að stinga af áður en þjónninn biður um beinharða peninga fyrir kaffibollann sem ég var að enda við að kría út.

 

Ég, Klara Egilson, litla stúlkan með eldvörpuna, eitilharður aðdáandi H.C. Andersen og skelfilega viðkvæm kona ... hef snúið aftur í undurfagurri mýflugumynd ... enda varla annað hægt, eins og sólin skín bjart á þessu annars blessaða landi.

 

Ætli maður leggi sig ekki bara aftur í haust, um það leyti sem skólar byrja og dimma tekur að nýju?  

 

Þar til þá ... geri ég ráð fyrir því að blogga ... it´s good to be back, eins og maðurinn sagði GetLost

 

 

 

 

  

 


Eru feministar á stjá?

Það skal tekið fram að púki hefur hlaupið í tæknina á Framnesvegi, færsla sem hér birtist að neðan var birt á fölskum forsendum og er einungis hálfnuð. Um leið og ég bið lesendur mína auðmjúklega forláts á þessum leiða kvilla ...

(ég er búin að stappa ofan á lyklaborðinu í hálftíma til að reyna að finna út, hvernig í fjandanum ég finn hinn helminginn af sögunni sem ég var byrjuð á, margbrowsa gegnum history og bölsóta þeirri staðreynd að ég ýtti ekki á VISTA)

... staðhæfi ég um leið, að þetta hlýtur að vera feministum að kenna.

Ég laga þetta um leið og við á.

 


Af léttúðugum jurtum og framandi fegrunarráðum

Mér var alvara þegar ég fletti upp á náttúruböðum í gær.

Nýja Náttúrusnyrtihandbókin var rituð fyrir einum þrjátíu árum síðan. Ég keypti hana í verslun Gunnlaugs stjörnuspekings þegar ég var tólf ára að aldri. Nýbyrjuð að vinna í grænmetispökkun um helgar í Nóatúni um helgar og himinlifandi yfir fyrsta launaseðlinum, sem ég lengi vel átti í fórum mínum á prenti. Allir mínir peningar fóru jafnharðan í bækur. Rit af ýmsu tagi; dulspekipælingar, tarotspil, stjörnuspeki og náttúrulækningar.

Fyrir kom að ég keypti mér prjónahandbækur og ævisögur. Í dag eru flest þessa rita skopleg á að líta, sér í lagi The Satanic Bible sem ég hef átt frá unga aldri en aldrei haft hugrekki til að lesa. Drengurinn minn hefur stundum fíflast með ritin. Einu sinni tók hann Djöflabiblíuna fastataki án minnar vitundar og fór með hana í skólann. Ég fékk símtal þann dag. "Hann kom með ritverk í skólann" greindi áhyggjufullur starfsmaður mér frá. "Við höfum áhyggjur af drengnum." Andköf beggja megin línunnar, tilþrifamiklar þagnir og samúðarfullar staðhæfingar skiptust á í símtalinu. Mig setti hljóða um stund. Ég gekk sjálf í þennan skóla um hríð, gekk sömu ganga og drengurinn minn og hafði fyrrgreind áhugamál þegar ég var yngri. Ég safnaði sjaldgæfum ritum.

Ekki að ég hafi nokkru sinni haft áhuga á að lesa Djöflabiblíuna. Nei. Mér fannst titillinn bara spennandi. Þegar ég var tólf ára, var einfaldlega töff að eiga bókina uppi í hillu. Svara á innsoginu þegar skelfdar vinkonur mínar komu í heimsókn og segja "já, ég keypti hana um daginn."

Ég var afskaplega hljóðlátt barn.

Augljóst er að ég verð að fara að henda þessari bók. Ekki veit ég hvernig drengnum datt í hug að taka bókina með í skólann. Sennilega til að hræða skólafélagana, eða einfaldlega bara til þess að vera fyndinn. Við höfum afskaplega svartan húmor hér á Framnesvegi. Enda lögðumst við bæði, ég og drengurinn, í gólfið og grétum úr hlátri vegna uppákomunnar. Hvernig datt honum fyrrgreint í hug?

Ég þakka Guði þá mildi að drengurinn tók ekki Nýju Náttúrusnyrtihandbókina með í skólann.

Bókin mín er nefnilega dottin í sundur. Hún kom í kiljubroti í verslunina og var rituð af erlendri stúlku. Sumar uppskriftirnar eru skemmtilegar, aðrar skelfilega flóknar. Ég hef það fyrir satt, að ég aldrei gert mér grein fyrir því hvar ég nálgast garðrósir, öðruvísi en að grátbiðja blómaræktendur í Hveragerði um nokkra stilka.

"Í róandi melissubaðið eru annað hvort  notuð þurrkuð melissublóm eða fersk sítrónumelissublöð úr garðinum" stendur til dæmis á einum stað í bókinni. Já, auðvitað. Ég er náttúrulega með blómagarð hér við hliðina á rólóvellinum aftan við húsið okkar á Framnesveginum.

Stundum verð ég svolítið örg út í höfund.  

Uppskriftirnar voru skráðar fyrir daga einstrengingslegrar umhverfishyggju, vitneskju um sindurefni og mikilvægi andoxunarefna. Hvergi er minnst á djúpslakandi sogæðanudd, ávaxtasýrur né Demeter (bio-dynamisk) gæðastimpilinn sem er alþjóðlegur staðall á gæði lífrænnar ræktunnar.

Í einfeldni minni finnst mér því eilítið svalandi að fletta yfir blaðsíðurnar. Lesturinn er eins konar afturhvarf til raunverulegrar náttúruhyggju. "Skítt með skordýraeitur!" segi ég. Ég treysti íslenskum blómabændum til að gæla við stilkana og senda eiturefnalausar afurðir í búðir. Aftur á móti hef ég ekki hugmynd um hvernig ég nálgast fjólur. Sennilega þyrfti ég að fara í sumarfrí til Sikileyjar til að nálgast sum hráefnin. Leigja fagurbleikt einstaklingsherbergi á litlu sveitahóteli yfir helgi og merja ólífur með mortéli, íklædd ljósum bómullarkjól. Í kjölfarið gæti ég léttstíg flögrað um franska akra, gælt við lavenderjurtir og látið renna í gullslegið útibaðkar, sem staðsett væri við eikarlundinn.

Ég er sannfærð um að allt þetta er hægt. Utan þess að gullslegin útibaðkör er ekki að finna við eikarlunda. En jurtirnar sem höfundur getur í bókinni góðu vaxa enn villtar víðs vegar um heim og sum innihaldsefni bókarinnar get ég hæglega ræktað í litlum blómapottum við eldhúsgluggann heima; sbr. myntu og blaðlauk. Þrátt fyrir að árin skilji augun mín og orð höfundar að, er ég ennþá að lesa línurnar sem erlenda stúlkan skráði samviskusamlega niður á blað fyrir einum þrjátíu árum síðan.

"Til eru mismunandi aðferðir til að laga jurta- og blómabað, einnig er mismunandi mikið magn af jurtum notað í baðið, allt eftir því hvaða áhrifum óskað er eftir" segir stúlkan í bókinni. "Venjulega eru sett 250 grömm af þurrkuðum jurtum í fullt baðkar; með þessu magni náum við hámarks áhrifum með jurtabaðinu. Ef við hins vegar óskum aðeins eftir mildu og ilmandi baði þá nægja 100 grömm af þurrkuðum jurtum í baðið."

Aldrei verið hrifin af málamiðlan. 300 grömm ættu að nægja.  

"Jurtabaðefni er einnig hægt að framleiða á mismunandi hátt. Í fyrsta lagi er hægt að laga svokallað seyði. Þá eru jurtirnar settar í nægilegt magn af sjóðandi vatni, hrært í og þetta látið malla á lágum hita í 15 mínútur. Síðan er vökvinn síðaður frá jurtunum og honum hellt út í baðvatnið."

Hljómar afskaplega ljúft. Vissulega myndi ég sjóða jurtirnar og hella úr pottinum beint ofan í baðið, en látum það ótalið.

"Hinn möguleikinn kostar ekki alveg eins mikið umstang. Þurrkaðar jurtir eru settar í léreftspoka, bundið fyrir með snúru og pokinn lagður í þurrt baðkarið. Síðan er heitt vatn látið renna í baðkarið þar til það er orðið fullt. Um leið og farið er í baðkarið er pokinn kreistur rækilega og hengdur á kranann þannig að hann sé niðri í vatninu. Meðan á baðinu stendur er jurtapokinn kreistur rækilega við og við. Það er mikið og seinlegt verk að hreinsa jurtapokann eftir baðið. Hjá þessu er auðveldlega hægt að komast ef notaður er gamall perlonsokkur í stað léreftspoka. Þá má einfaldlega fleygja sokknum með innihaldinu eftir baðið."

Það er heill hellingur spennandi uppskrifta í bókinni góðu. Þarna ber t.d. að líta Enskt fegrunarbað sem samanstendur af "þremur hnefum af ilmandi rósmarín, einum hnefa af rósum ásamt einum hnefa af þurrkuðum eða ferskum lavendilsblómum. Þetta" segir stúlkan í tón, sem lofar góðu "er frískandi og örvandi bað, það lífgar húðina og opnar svitaholurnar."

Þarna er líka að finna uppskrift að klíðisbaði sem höfundur segir svo milt, að jafnvel börnum sé óhætt að dingla tásunum ofan í vatninu. "Í gamla daga mátti finna lítinn klíðispoka hangandi svo að segja í hverju baðherbergi og klíðisbað var talið ómissandi. Klíðisbaðið hreinsar, frískar og er gott gegn bólóttri húð, það gerir húðina fíngerða og mjúka." Mér koma handsaumaðir léreftskjólar samstundis í hug. Hvítar svuntur, handrituð ástarbréf og feitlagin tólgarkerti. Hestvagnar að hossast yfir holótta malarvegi. Mikið var lífið einfalt í þá daga. "Í klíðisbaðið fara 250 grömm af hveitiklíði. Klíðið er annað hvort sett í baðpoka og hann kreistur vel niðri í heitu baðvatninu eða þá að lagað er seyði úr klíðinu og síðaðri lausninni hellt út í baðvatnið." stendur í bókinni.

Það er satt sem bókin segir. Hafrar og klíði hafa verið notuð í fegrunarskyni öldum saman.

Piparmyntubaðið höfðar þó best til mín. "Frískar, örvar blóðrásina og hreinsar svitaholurnar" heldur stúlkan áfram. "Í baðið fara þrjár handfyllir af þurrkaðri piparmyntu, tvær handfyllir af þurrkuðum rósmarínblöðum og safinn úr fjórum sítrónum." Uppskriftin hljómar ekki einungis dásamlega einfeldningslega, ég er viss um að þetta er líka ótrúlega gaman. "Jurtirnar eru settar í jurtabaðpoka, safinn pressaður úr sítrónunum og síaður út í baðvatnið."

Þó stúlkan staðhæfi að piparmyntubaðið eigi best við yfir sumartímann, er mér alveg sama.

Ég ætla að prófa þetta.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband