Áhrifamáttur gamla perlonsokksins

Það lúrir einhver tryllingur í mér í dag.

Fletti upp í Nýju Náttúrusnyrtihandbókinni strax í morgun og blaðaði upp á náttúruböðum. Þetta er óskaplega skemmtileg bók. Hún inniheldur allt um næringarríkar baðferðir og maska sem hægt er að gera úr náttúruefnum sem finna má í eldhúsinu.

"Blómablöð rósarinnar eru rík af efnum, sem hafa læknandi áhrif, eins og barksýru, fitu, sykri, sítrónusýru og eterískum olíum (rokfimum olíum)." staðhæfir kaflinn um náttúruleg böð. Þetta hafði ég enga hugmynd um. Langar samstundis að læðast út í Blómaval og japla laumalega á nokkrum blómakrónum. Kaupa mér jafnvel vönd og spæna blöðin í mig, þegar ég er sest út í bíl. Henda svo stilkunum og halda áfram ferð minni í miðbæinn.

Guð veit að ég þarf á næringu að halda.

Hugmyndin hljómar sennilega, en þó freistar framhald bókarinnar meir. "Fersk blómablöðin eru sett í jurtabaðpoka og hann hengdur ofan í heitt baðvatnið. Því meir sem kemst af blöðum í pokann, því betra verður baðið."

Vaselinsmurt myndskeið sem mettar umhverfið rómantískri móðu rennur mér fyrir hugskotsjónum. Ég að gæla við jurtirnar. Rómantískir fingur mínir að kreista fíngerð rósarblöðin, bundin í léreft. Sveskjum líkar tær sem gera *gilligill* á yfirborðinu. Rósrautt innlit á baðherbergi eilífðarbarnsins.

*fíngerð hlátrasköll*

Kannski fæ ég mér að borða líka í baðkarinu. Smjatta munúðarfull á ferskum ávöxtum.

Skrepp saman og verð eins og lítið barn sökum yngjandi áhrifa rósarinnar.

"Ef þið viljið tína rósablöðin sjálf, þá ættuð þið að velja skrautrósir, garð- og villirósir, sem ekki hafa verið úðaðar með skordýraeitri."

Já. Ég ætla að fara í Hveragerði í kvöld og stela rósum úr gróðurhúsum. Fara fimlega eins og gimsteinaþjófur um glerskálana og næmum fingrum, sneiða skrautrósir úr beðum. Með svartan léreftspoka yfir öxlina, íklædd hljóðlausum gúmmískóm mun ég læðast um með fimi púmunnar. Auðvitað verð ég með næturgleraugu. Og deyfilyf, ef ske kynni að árvökull rósaræktandi myndi fyrir tilviljun birtast við túlípanabeðin.

Ég þori nefnilega ekki að kaupa blóm í búðum. Ég veit ekkert hvernig þingmönnum gengur að framfylgja grænum loforðum að kosningum loknum. For all I know gætu blómin í búðunum verið eitruð og lífræn rósaræktun er að mér skilst ekkert sérstaklega langt á veg komin hérlendis.

Allar upplýsingar sem ég hef um sindurefni (orðið hljómar mjög hættulega) eru unnar upp úr íslenskum blaðagreinum. Og ég treysti fjölmiðlum. Ég dreg það ekki í efa eitt andartak að blaðamenn beri velferð mína fyrir brjósti. Eftir að hafa lesið mér lauslega til um grænu byltinguna er ég þess handviss að allt þetta pakk prófar meira að segja matvörur á dýrum.

Aldrei skal ég láta plata mig aftur! Nei, segi ég! Ég ætla að sneiða hjá íslenskri siðspillingu með næturgleraugu að vopni. Og hverjir eru það sem borga brúsann, viðhalda ómótstæðilegum æskuljóma mínum og gæða hörund mitt framandi andoxunarefnum? (tekið skal fram að ég hafði ekki hugmynd um tilvist andoxunarefna fyrr en snyrtifræðingurinn minn greindi mér frá mikilvægi þeirra). 

Jú!

Íslenskir blómabændur!

Aldrei skal ég láta konuna í apótekinu plata mig aftur. Blush 


Og það í miðri marseringu

Andskotinn sjálfur ... *öflug gumpsveifla*

 


mbl.is Filippseyskir lögreglumenn varaðir við að dilla mjöðmum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cry me a river

"Þú verður að kjósa rétt, Klara mín" var faðir minn vanur að segja hér áður fyrr. "Kannski best sé að við fylgjum henni í kjörklefann" klykkti konan hans yfirleitt út með og svo var hlegið. Alveg viðstöðulaust. Mér finnst þetta ennþá fyndið. Hugarflugið og harkan í föðurfólki mínu nær út fyrir eðlileg endamörk heims og þjóða.

Sjálf hef ég aldrei talist sérstaklega pólitísk manneskja. Ég, manneskja á fertugsaldri, hef eftir fremsta megni forðast að mynda mér skoðanir og geng enn um í hettupeysu. "Mamma, þú ert eins og barn í laginu" sagði sonur minn um daginn er hann gekk fyrir aftan mig upp tröppurnar sem liggja heim til mömmu. "Ég gæti verið faðir þinn, svona séð aftan frá."

Ég velti hugmyndinni fyrir mér um hríð. Jafn töfrandi og fullkomið ábyrgðarleysi kann að líta út í fjarskanum, er barnæskan á enda. "Þetta er búið, krakkar" umla ég í huganum við ritun færslunnar. "Þeir vilja kalla mig til ábyrgðar á blogginu." Í kjölfarið fylgir andvarp. "Málpípa stjórnarandstöðunnar?" klingir djúpt í hugarfylgsnum mínum. "Nauðug" svara ég að bragði.

Giddagúdd hlær í fjarskanum og slær á hné sér. "Hann er klikkaður þessi maður" segir hún.

Ég nenni ekki að svara. Enda veit ég ekkert hvern hún er að vitna í. Alltof margir sem skeyttu athugasemdum við bloggið mitt í gær. Málefnalegt raus verður þreytandi með tímanum.

"Ég múlbatt hann" svara ég geðvonskuleg á endanum.

"Af hverju gerðirðu það?" spyr Giddagúdd. "Þú áttir að svara honum."

Ég veit það. Veit að Giddagúdd hefur rétt fyrir sér, en ég nenni ekki að svara. Nenni ekki að svara Giddagúdd og nenni ekki að ræða við manninn. Giddagúdd hefur rétt fyrir sér. Hann er klikkaður.

"Þarna voru nú góðir punktar" klykkir vinkona mín út í huganum. "Eins og til dæmis hann vinur þinn sem grét heila á" og ég get ekki annað en hlegið. Hlæ að hugvitsemi Giddagúdd og óvæntri áskorun, þessari beiðni um einvígi er hann reyndi í einlægni að koma til vegs og vitundar, þegar hann kom stormandi inn á bloggið mitt í gær.

"Af hverju heldurðu að hann hafi aldrei skrifað í gestabókina?" spyr ég einfaldlega og horfi bláeyg í augu alvitringsins. "Hann hefur bara ætlað að snapa fæt" smellir Giddagúdd fram og glottir við tönn.

"Á, ég hafði gaman að þessu. Anti-climaxinn kom mér skemmtilega á óvart. Eins og ég ætti að stýra pólitískri fullnægju mannsins og væri sett hér inn á blogg til að enterteina. Ég vissi ekki að ókunnugir menn kæmu hingað til að lesa hugsanir mínar, hvað þá til að climaxa?"

Svipurinn á mér er farinn að léttast. Giddagúdd kemur mér alltaf til að hlæja.

"En þú ert búin að vera að gera það, skrifa fyrir alþjóð. Hvað veist þú um hverjir lesa þetta? Ertu kannski með IP tölur á lista? Samning við Moggann? Ferð yfir töluna og skrásetur fyrir komma?"

Guð almáttugur, Giddagúdd, ég er ekki kommi. Hvernig vogar hún sér að segja þetta? Pabbi var kommi. Konan hans líka. Þau voru svarnir herstöðvarandstæðingar og fóru stolt í Keflavíkurgöngur. Mér finnst það flott hjá þeim og smart að hlusta á þeirra sögur. En ég verð seint flokkuð sem kommi og þar er komin ástæðan fyrir því að fjölskylda mín vildi ólm fylgja mér í klefann góða.

Þau vildu tryggja að réttir menn fengju landið í hendur að loknum kosningum.

"Heldurðu að það sé málið sem gengur honum vini mínum til?" spyr ég barnslega. Giddagúdd veit allt. Hún veit svörin við þjóðmálum, veit hvernig best er að ganga til kosninga, skilur skoðanakannanir og þekkir áfengisfrumvarpið miklu betur en ég.

"Nei" svarar hún að bragði. "Ég held að hann hafi bara viljað fá brennivín í búðirnar."  


Hvergi banginn

Maðurinn er einkennilega hrífandi á þessari mynd InLove


mbl.is Ahmadinejad hefur ekki áhyggjur af því að Bandaríkin geri árás á Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um Giddagúdd?

Orðið sjálft framkallar samstundis minningar af Giddagúdd, ímyndaðri vinkonu sem ég eignaðist þegar ég var þriggja ára. Guðlegri veru sem hikaði ekki við að beita andlegum hártogunum, þegar skoðanir okkar voru á öndverðum meiði.

Ég minnist þess að hafa deilt um leikferðir út í bakgarð við Giddagúdd og óttast nærveru Kuldabola, sem var jafn raunverulegur fyrir mér og amma hans, sem í mínum huga, var sjálfur holdgervingur djöfulsins.

"Passaðu mig, Giddagúdd" var ég vön að öskra barnarómi þegar amma hans kom nálægt.

Kuldaboli var gjarna illviljaður og reyndi stundum að bíta í nefið á mér. Þar sem allar verurnar voru ímyndaðar, hlaut nefið á mér að sjálfsögðu engar skrámur. Það er mjög erfitt að bíta í eigið nef.

Engu að síður deildum við um nauðsynjar lands og þjóðar. Giddagúdd tók yfirleitt afstöðu með mér á endanum, Kuldaboli reyndi allt sem hann gat til að eyðileggja áætlanir okkar og amma hans, tjah, hún lúrði yfirleitt í bakgrunni og hló viðstöðulaust ef ég missti dúkkuna mína í gólfið.

"Hættu þessu!" æpti ég þá ákveðin upp og fyllti með því, móður mína skelfingu.

"Hver er hjá þér, Klara mín?" heyrði ég stundum úr hinu herberginu.

"Enginn" svaraði ég óttasleginni móður minni og hélt áfram að tala í fjölbreytilegum blæbrigðum.

Ég man ekki hvenær Giddagúdd dó. Sennilegast um það leyti sem ég byrjaði í skóla. Bekkjarsystkyni mín hefðu aldrei sýnt ímynduðum vinum mínum skilning, né borið virðingu fyrir tilvist þeirra. "En það er enginn þarna, Klara" hefðu þau bara sagt og hlegið að mér.

Um það leyti sem ég hóf skólagöngu mína, lærði ég þar af leiðandi að hugsa í hljóði.

Þar sem ég sit hér við borðstofuborðið, íklædd appelsínugulum inniskóm með úfið hár (ég á ekki greiðu) rifjast ævintýri sjálfrar mín óðum upp. Áfengislagafrumvarpið ýtti við mér. Eru til ímyndaðir vinir? Var ég skyggn þegar ég var lítil? Var amma hans Kuldabola illur andi sem ofsótti mig á Snorrabrautinni? Giddagúdd verndarengill sem gætti mín og ég talaði fyrir í gæsku minni? Hver var Kuldaboli? Snarpur norðanvindur eða villuráfandi sál? Var ég geðveik sem barn?

Um hvað, raunverulega, snerist ljóðrænn harmur minn þegar ég var lítil?

Ég hef afskaplega gaman að rökræðum. Sér í lagi þeim sem fela í sér algengar rökvillur, (að vísu er ég búin að týna kaffibollanum) og dáist að tærum grundvallarlögmálum siðfræðinnar. Ég beiti þeim óspart í samtölum við sjálfa mig og rífst gjarna yfir kaffibolla hér á blogginu, en þá einungis við eigið sjálf. Fyrir kemur að ég fletti upp í bókinni "Siðfræði lífs og dauða" sem skrásett var af Vilhjálmi Árnasyni, en ritið hefur yljað mér ófáar andvökunætur og jafnvel hindrað heilbrigðan nætursvefn.

Maðurinn er nátturulega ekkert annað en poppstjarna í heimi siðfræðinnar.

Ég hef einu sinni talað við hann í síma.

Með hvaða hætti skyldi efla atvinnumöguleika á landsbyggðinni? Hvað finnst mér raunverulega um hugmyndir Samfylkingarinnar sem fela í sér "Störf án staðsetningar?" Eiga allar skoðanir jafnan rétt á sér? Myndi nauðgunum fækka ef melluhverfi yrði sett upp í Norðurmýrinni? Af hverju er ég með svona háar tekjur? Er ég frekari en annað fólk? Eru Sjálfstæðismenn góðu gæjarnir? Hvers vegna verða menn hommar? Hefur Jón Valur rétt fyrir sér? Af hverju er Páll Skúlason svona frægur og hvað eru bækurnar hans að gera heima hjá mér?

*seiðandi fingursmellir*

Ó, þú fagra veröld.

Þess ber að geta að ég hafði ekki hugrekki til að bera fyrrgreindar spurningar undir Vilhjálm þegar við ræddum stuttlega þýðingar á erlendum sjálfshjálparritum og þann möguleika að óska aðstoðar fræðimanna Háskóla Íslands.  

Hvað varð eiginlega um Giddagúdd? 


Sérðu mun?

Stúlkur mínar, ekki einungis er ég djúpt snortin vegna hluttekningar ykkar og áhuga á atkvæði mínu í komandi kosningum; ég er stolt af eldmóði ykkar allra. Svo einlægan áhuga á þjóðmálum hef ég ekki borið augum í hópi kvenna áður, nema ef undanskilin eru eldhússamsæti stjúpu minnar sem hefur allar götur verið svarinn kommúnisti.

Áður en ég loka umræðu kvöldsins og klykki út með atkvæði mínu langar mig að fara með örlítið ljóð fyrir ykkur, sem samið var af þeim mæta manni Böðvari frá Hnífsdal en hann komst svo að orði:

 

Sérðu mun?  

Sé ég tvo að sauðarekstri,

sínum hópnum hvor þar stjórnar.

Mörg er kindin væn á velli

valingóð til sláturfórnar.

 

Annar rekur hóp með hundum,

hamast við af öllum mætti.

Féð það veit, að hann er herra.

Harkan skín úr hverjum drætti.

 

Hinn við féð sitt gerir gælur.

Gæzkan skín úr svip og orðum.

Féð það eltir undurhrifið,

alla leið að sláturborðum.

 

Svona hvor með sínum hætti,

sauðum slátra og verða ríkir.

Svei mér, ef ég sé þá muninn,

sýnist báðir harla ríkir.

 

Þess má að lokum geta að ég er flokksbundin Vinstri Grænum og tók þá skýru afstöðu í síðustu kosningum. Ég hef einu sinni tekið viðtal við Steingrím fyrir helgarútgáfu Fréttablaðsins í öðru samhengi en pólitísku og verð að segja manninn einn þann stöðugasta viðmælanda sem ég hef rætt við á öllum ferli mínum. Guði sé lof að sala á léttvíni verður ekki leyfð í matvöruverslunum, því ég á barn, sjáið til.

 

 


Hafa skal það sem hljómar betur

"Hvað ætlar þú að kjósa?" er spurningin sem ég þarf brátt að svara. "Alls ekki Framsóknarflokkinn" ætla ég að segja. Aldeilis að ég muni svara þannig og glotta í kampinn. Fyrirtaks umræðuefni í reykpásunni. Kannski ég smelli í góm og segi eitthvað gáfulegt í kjölfarið, vitni jafnvel í blogg ókunnra manna og minnist þess þegar ég rakst á setninguna "Steingrímur J er orðinn eitthvað svo landsföðurlegur" og ég veit að með því, mun ég falla í hópinn.

Framkalla kurteisisleg hlátrasköll sem enda á viðeigandi tímapunkti og hlýt samþykkishljóm að launum.

"Annars kemur náttúrulega ekki til greina að kjósa menn sem leyfa vændi" er lína sem ég get notað. Með því hef ég útilokað Sjálfstæðisflokkinn og einhvern veginn grunar mig að vinnufélagar mínir kími við, þegar ég vitna í Björn Bjarna. Ég get jafnvel reynt að vera gáfuleg með því að setja "já, já, svo á ríkissjóður auðvitað ekki að bera neinn kostnað af þessari lagabreytingu, það var nú aldeilis". Þá grunar mig að fæstir viti um hvað málið snýst, ég lít því út fyrir að vera innsti koppur í búri stjórnmála með því einu að endurtaka valdar setningar og á endanum verður fólk farið að leggja veigamikil mál undir mig, sem veit ekki hverju ég á að svara. 

"Af hverju ekki Framsóknarmenn?" gæti einhver spurt og ég svarað "af því að þetta eru fávitar", skotið sígarettunni hnitmiðað þremur metrum út á gangstéttina, brosað óræð á svip og gripið þéttingsfast um kaffibollann, rétt áður en ég skýst inn aftur.

"Verð að fara. Aftur að vinna. Hef ekki tíma til að svara þessu. Seinna."

Klassísk undankomuleið.

Ég veit hvers ætlast er til af mér. Og hversu langt ég þarf að teygja mig til að komast örlítið lengra. Kann að koma fyrir mig orði. Hvort ég svo veit raunverulega meira en næsti maður um stefnuskrá einstakra stjórnmálaflokka eða um íslensku stjórnarskránna yfir höfuð, er allt annar handleggur. En ég reyni. Mér verður að takast.  

Ég ætla að vera ein í kjörklefanum Bandit


Áhættuleikarar handteknir í Hollywood hæðum

Þeir eru búnir að fletta ofan af tæknibrellunum.

Þetta er búið, krakkar.


mbl.is Umræða um loftslagsbreytingar of mikið í anda Hollywood?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með tungubroddinum

"Unaður bragðsins er staðsettur í tungunni og gómnum, þótt það eigi ekki upphaf sitt þar heldur í minningunni. Og gildur hluti þessa unaðar felst í hinum skilningarvitunum, sjón, ilman, snertingu og líka heyrn. Í tevenjum Japana er bragðið af teinu það sem minnstu máli skiptir - það er í rauninni rammt - en hin heiðríka friðsæld nakinna veggja, hreinlegar línur skálanna, tignin sem hvílir yfir athöfninni, nákvæmar og samstilltar hreyfingar þess sem býður teið, hin hljóða þökk þess sem þiggur það, daufur ilmur af viði og kolum, hljóðið er þögnin er rofin og vatninu ausið með trésleifinni; allt er þetta hátíð fyrir sálina og skilningarvitin."

Það er engin önnur en Isabel Allende sem skráði þessi orð og má finna þau í bókinni Afródíta; sögur, uppskriftir og önnur kynörvandi fyrirbæri. Mig langar ávallt að klæðast kímonó, bera te á borð og lita veggina postulínshvíta í hvert sinn sem ég les þessi orð.

Lygna aftur augunum og vera ein í takt við telaufin.  

Ritið hefur staðið í hillunni hjá mér um þó nokkurt skeið og ég glugga stundum í það á síðkvöldum þegar ég er ein. Þarna er að finna dásamlegar sagnir af soldánum í 1001 nótt og sjálfum Múhamed, hræðilega fitandi eggjahristingi sem tengdamóðir Isabel blandaði henni þegar hún hafði börn sín á brjósti og svo einnig þó ótrúlegt megi virðast, umfjöllun um mannasiði.

"Fjögur boðorð brenndu sig inn í sálina strax á frumskeiði æskunnar og áttu að tryggja að úr mér yrði sómasamleg frú;" ritar Isabel í upphafi kaflans sem ber heitið Mannasiðir. "sestu með fæturna saman, gakktu beint áfram, viðraðu ekki skoðanir þínar og borðaðu eins og fulorðna fólkið."

Ég iða alltaf léttilega í stólnum við lestur þessara orða. Langar að dingla löppunum, valhoppa á ská, viðra róttækar skoðanir mínar og borða matinn með skeið. Það eitt að alast upp í Suður Ameríku á umræddum tíma hlýtur að hafa verið ævintýri út af fyrir sig.

Isabel er manneskja matarástríðu og mikilfenglegra orða. Henni er einnig í lófa lagið að lofa verk annarra höfunda, sem hún laumar að milli umfjallanna um Forboðin Grös (sá kafli fjallar um grös og kryddjurtir sem voru bönnuð í klaustri Hinna berfættu systra þeirra fátæku vegna kynörvandi áhrifa sinna.)

Á listanum er að finna basilíku, engifer, karrí og lárviðarlauf svo eitthvað sé nefnt. Ljúfa gesti sem flesta er að finna í eldhússkápum í dag og erfitt er að gera sér í hugarlund að einhverju sinni hafi fyrrgreind hráefni verið bönnuð vegna orku sinnar og máttar.

Mig rak þó í rogastans þegar ég fletti í fyrsta sinn yfir kaflann sem hefst á frásögninni af "Lolu Montez, spænskri dansmey af aðalsfólki komin þó hún vissi ekkert um dans og ekki spænskur dropi í blóðinu, en það sem skorti af hæfileikum og ættgöfgi bætti hún upp með dirfskunni." 

Orðin framkalla samstundis fram í huga mér mynd af logandi ástríðufullri dökkleitri konu í þéttum holdum, alsettri skarti með dýrindis blævæng, sindrandi af sjálfstrausti og lífsneista.

"Þegar Lola Montez var í einrúmi með viðskiptavinum" bætir Isabel dreymin við "notaði hún venjulega ofsafenginn köngulóardansinn sem yfirvarp til að tína af sér slæðurnar, en gerði samt ekki þau mistök að fara úr öllu; hún kaus frekar að sýna töfrana í blúnduþyrli sem dró fram ágæti hörundsins og huldi það sem síður var fullkomið í vextinum."

Ég ímynda mér ávallt að bragðlaukar Lolu hafi notið ásta með sítrusávöxtum, safaríkum melónum og smjörsteiktum kjúkling á teini. Sem ómótstæðilegur kynþokki hennar hefur kryddað með dillandi hlátri og brosmildu augnaráði sem gaf aldrei meir upp en nauðsynlegt var.

Að elskhugar hennar hafi örmagnast af aðdáun áður en eftirrétturinn var einu sinni borinn fram.

Ég glugga oft í bókina góðu áður en ég loka augunum á kvöldin. Leyfi bragðlaukunum að gæla við minningar af löngu liðnum réttum, sem eitt sinn voru bornir fyrir mig og ég fæ aldrei að snæða aftur. Súkkulaðikökuna hennar Klöru ömmu sem ég á mynd af, hún var bökuð og borin á borð á tveggja ára afmælinu mínu. Yello-ið sem Guðmunda langamma bar alltaf fram á jólum, það innihélt niðursneidda banana og færði okkur fjölskyldunni himnaríki á jörðu.

Hegðun minna fegurstu kvenna var gerólík því sem Lola sýndi gjarna af sér. Hvorug þeirra steig köngulóardansinn og þær drógu aldrei menn á tálar. En þær voru sannar konur og sýndu af sér yndisþokka sem bar svo af, að um var rætt langt út fyrir andlát beggja. Hvernig sem það nú hljómar minnist ég enn langömmu minnar, þegar ég bragða á vel ristuðu brauði með vel útilátinni ostsneið og engin Sacher terta kemur í stað sneiðarinnar sem ég fékk í afmælisgjöf, þá tveggja ára að aldri. 

Í kvöldhúminu renna sagnir Isabel í bland við uppskriftir af suðuramerískri matarástríðu saman við fátæklegar minningar mínar af fegurstu konum sem ég hef augum litið um ævina, ættmæðrum mínum sem héldu mér hugfanginni með töfrum líkum blúnduþyrli sem dró fram ágæti sálarinnar ... og það í eldhúsinu.

Isabel hefur það fyrir satt; unaður bragðsins á sannlega upphaf í minningunni.

 

 

 

 

 


Tár og tuðruskór

Um leið og ég ber fram auðmjúkar þakkir til handa þeim 903 einstaklingum er heimsótt hafa bloggsíðu mína frá miðnætti, langar mig um leið að nota tækifærið til að hvetja almenning um land allt til að halda iðju þessari áfram, þar sem ég stefni ótrauð á gróteska hallarbyltingu innan tíðar.

Ég hef unnið hörðum höndum að auglýsingu vefsíðu minnar; dreift miðum til vandamanna, nýtt smáskilaboð til hins ítrasta auk þess er ég mútaði nokkrum lögreglumönnum sem áttu leið hjá Hverfisgötu í gær.

Erindi mitt hefur borið erindi sem erfiði, ég hef á fáeinum dögum aflað fleiri fylgismanna en meistaraflokkur karla í Grindavík, nýt meiri vinsælda en Þjóðleikhúsið og skákaði rétt í þessu umferðarþunga um Vestfirði.

Þess má geta að ég grét hljóðlega við ritun þessarar færslu.

Guð blessi ykkur, börnin mín.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband